Að deila barninu sínu

Ljósmynd/Thinkstockphotos

Það getur verið flókin tilvera að deila barninu sínu með hinu foreldrinu, hvort sem það er eftir skilnað eða vegna þess að samband var ekki til staðar eftir fæðingu barnsins. Sunna Ýr Perry fjallar hér á einlægan og persónulega hátt um það hvernig hún deilir syni sínum, Rökkva, með barnsföður sínum en sambandi þeirra lauk áður en Rökkvi fæddist. Bloggfærsla þessi birtist fyrst á lífstílsblogginu Glam.is

Vissi að ég þyrfti að deila barninu með öðrum

„Þegar ég átti Rökkva var ég einstæð, og hafði verið út alla meðgönguna en ég og barnsfaðir minn hættum saman tveimur vikum áður en ég komst að óléttunni og það stóð aldrei til að taka saman aftur. Ég komst frekar snemma að óléttunni, eða komin um 4 vikur á leið. Þrátt fyrir aðstæður íhugaði ég aldrei fóstureyðingu því aðeins hálfu ári áður hafði ég misst fóstur komin 8 vikur leið og eftir þann missi og sorg kom aldrei annað til greina en að halda þessu litla ljósi. Þetta var mjög svo óvænt og óþægileg gjöf á þeim tíma. Út meðgönguna gengu samskipti erfiðlega, fólk ekki visst hvernig það ætti að tækla aðstæður og allt var upp og niður. Þegar Rökkvi minn kom í heiminn vissi ég að ég þyrfti á einhverjum tímapunkti að byrja [að] deila barninu mínu með hinu foreldrinu. Það var mjög erfið og óþægileg tilfinning, ekki vegna þess að mig langaði það ekki heldur var það því ég var búin að vera ein í þessu frá byrjun, barnsfaðirinn ekkert búinn að tengjast barninu sínu þar sem jú við vorum ekki saman og hlutir þá vægast sagt erfiðir á milli okkar og ekki eins og þetta hafi verið í planinu,“ segir Sunna Ýr.

Rökkvi litli nýfæddur.
Rökkvi litli nýfæddur. Ljósmynd/Aðsend

Hún segir að hún hafi þrátt fyrir allt verið búin að ákveða með sjálfri sér að hún myndi aldrei meina barninu sínu að hitta föður sinn. „Og já ég skrifa barninu mínu, út frá sjónarhorni einstæðra[r] verðandi móður sem vissi ekkert hvað var að fara [að] gerast.“

Enn fremur segir hún: 

„Ég þakka fyrir það hvað barnið mitt er opið, hresst og mikill karakter og elskar að tala við og kynnast nýju fólki. Það gerði hluti vægast sagt svo miklu auðveldari en þeir hefðu mögulega orðið ef hann væri lokaðri og þætti óþægilegt að fara í fangið á ókunnugu fólki. Það var ótrúlega auðvelt fyrir hann að tengjast pabba sínum og föðurfjölskyldu þegar kom að því að ég „lét hann af hendi“ en hann var þá um þriggja mánaða þegar hann fór í sína fyrstu heimsókn FRÁ mömmu sinni.

Hefur alltaf einhverjar áhyggjur

Fram að þeim tímapunkti hafði ég verið eini "main care taker" yfir barninu mínu, tilfinningarnar við að byrja [að] deila honum voru vissulega óþægindi, hræðsla og kvíði en umfram allt hamingja. Hamingja að barnið mitt eigi fjölskyldu sem vill hann. Góða ömmu sem langaði mikið að kynnast honum. Pabba sem þráði að byrja [að] tengjast honum. Frændur og frænkur sem gátu ekki beðið eftir að fá að sjá hann og hitta.

Ég mun alltaf hafa áhyggjur af því hvernig hlutir eru þegar hann er hjá pabba sínum, ekki endilega á slæman hátt heldur meira hvernig hann mun tækla ákveðnar aðstæður, hvað gæti gerst og meira að segja hlutir sem eru mjög svo ólíklegir til að gerast. Man að þegar hann baðaði Rökkva í fyrsta skipti með hann einan, að ég tók fram að það mætti alls ekki skilja hann einan eftir eða líta af honum í sekúndu (þar sem hlutir geta verið og eru mjög fljótir að gerast). Þessar áhyggjur eru svo óþægilegar að hafa og geri ég því mitt besta [til] að reyna [að] ýta þeim í burtu og treysta á að allt verði í lagi.

Síðustu skipti sem barnsfaðir minn hefur skilað Rökkva af sér eftir heimsóknir hefur hann litið á mömmu sína, snúið sér við og knúsað pabba sinn þéttingsfast og alls ekki viljað sleppa. Það gleður mig svo óendanlega mikið að sjá hvað honum líður vel með pabba sínum. Hann á nefnilega tvo foreldra og á að fá að njóta þeirra beggja. Hann er jú barnið okkar.“

Færsla Sunnu Ýr á Glam.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert