Elísabet týndi sjálfri sér í móðurhlutverkinu

Elísabet Kristín lengst til vinstri ásamt móður sinni og yngri …
Elísabet Kristín lengst til vinstri ásamt móður sinni og yngri dótturinni. Ljósmynd/Aðsend

Elísabet Kristín Bragadóttir er förðunarfræðingur og heimavinnandi húsmóðir á Selfossi með kærastanum sínum og tveimur ungum dætrum. Hún skrifaði einlæga bloggfærslu á lífstílsbloggið Öskubuska.is  og lýsir með einlægum hættir reynslu margra ungra kvenna sem upplifa að þær týnast í móðurhlutverkinu, ástand sem oft verður verra ef nánustu aðstandendur eru ekki nærri eins og gerðist í tilviki Emmu þar sem þau fluttu til Selfoss í klukkustundar akstursfjarlægð frá nánustu fjölskyldu. Það sem bætti enn á einangrunartilfinninguna var sú staðreynd að eldri dóttirin var mjög háð móður sinni, það er stutt á milli dætranna og meðgangan var erfið.

Ólétt með eins árs barn

„Eftir að Emma fæddist keyptum við okkur hús á Selfossi og fluttum í rúma klukkutíma keyrslu í burtu frá allri okkar fjölskyldu sem var rosalega mikil breyting frá því að búa hjá mömmu, nálægt öllum sem við þekktum og fengum endalausa hjálp, í það að vera ein með barn sem svaf ekkert fyrir eyrnaverkjum, heimili til að hugsa um, kærasta sem vann mjög mikið og langa vinnudaga og í fullri vinnu. Ég verð ólétt af Eriku þegar Emma er 1 árs, meðgangan var mjög erfið, ég var alltaf veik, fékk mikla grindargliðnun og gat lítið sofið og ég átti mjög erfitt með að vera ein með Emmu alltaf og var því stanslaust að reyna of mikið á mig á “góðu” dögunum mínum til að bæta upp fyrir þá daga sem èg gat varla staðið uppúr sófanum sem var að sjálfsögðu ekki gott,“ segir Elísabet Kristín.

Hún segir að eldri dóttirin Erika Rún hafi alltaf verið mjög háð sér og alltaf neitað að vera hjá neinum nema sér.

Fjölskyldan öll á skírnardegi yngri dótturinnar, Emmu Lífar.
Fjölskyldan öll á skírnardegi yngri dótturinnar, Emmu Lífar. Ljósmynd/Aðsend

„Hún tók hvorki pela né snuð og var á brjósti á 20-30 mín fresti, hún neitaði að sofa nema vera alveg uppvið mig og þá ekki nema ca 20 mín í einu, þreytan var orðin yfirgnæfandi og þráðurinn orðin mjög stuttur og þetta var farið að bitna á mínum nánustu og ég er ótrúlega þakklát að fólkið mitt hafi hreinlega ekki yfirgefið mig á verstu stundunum en ég var komin í rosalegan vítahring af þreytu, slæmu matarræði og hreyfingarleysi. Ég hætti að sinna áhugamálunum mínum og var nánast hætt að fara að hitta vini mína en mér fannst èg aldrei geta gert neitt fyrir sjálfa mig af því að ég átti auðvitað bara að setja börnin mín í fyrsta sæti, annars væri ég bara ömurleg mamma en það er bara ekki rétt við foreldrarnir verðum að setja okkur sjálf í fyrsta sæti stundum, því ef okkur líður illa erum við ekki uppá okkar besta til að geta hugsað um börnin okkar og heimili.“

Mikilvægt að passa upp á sjálfa sig

„Í janúar fékk ég algjört ógeð, af sjálfri mér og bara hreinlega öllu, ég var við það að gefast upp og þá tók ég ákvörðun um að ég ætlaði að gera meira fyrir sjálfa mig, að vera pínu sjálfselsk einstaka sinnum og setja sjálfa mig oftar í fyrsta sætið, stundum ætla ég bara frekar að kaupa mér nýjar buxur frekar en að kaupa en einn kjólinn á stelpurnar. Ég byrjaði líka í mömmu pole tímum hjá pole sport og mömmu crossfit tímum í Hengil í Hveragerði, þar sem ég er ennþá heima með Eriku er erfitt fyrir mig að komast í ræktina án hennar þannig að svona mömmu tímar eru æðislega hentugir og mér líður svo mikið betur síðan ég byrjaði hugsa aðeins meira um sjálfa mig og við erum öll alveg klárlega hamingjusamari fyrir vikið.

Ég mæli svo hiklaust með að allir foreldrar taki smá tíma til að gera eitthvað fyrir sjálfa sig, hvort sem það er eftir að börnin eru farin að sofa eða að skella þeim í pössun en það er mjög mikilvægt að rækta bæði sig og sambandið við makann sinn, en hugtakið “happy wife, happy life” á mjög vel við ef við breytum því bara í “happy parents, happy life.”

Hér má sjá færslu Elísabetar Kristínar á lífstílsbloggvefnum Öskubuska.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert