Öll augnablikin sem koma aldrei aftur

Þrátt fyrir að líf með börnum bjóði oftast upp á …
Þrátt fyrir að líf með börnum bjóði oftast upp á endalausar fallegar minningar getur verið sárt þegar einu tímabili lýkur og vita að slíkt tímabil kemur ekki aftur. Mynd þessi er tekin úr myndabanka og tilheyrir ekki Ingibjörgu. mbl.is/Thinkstockphotos

Það er svolítið merkilegt að þótt flestar konur geti ákveðið með töluverðri nákvæmni hversu mörg börn þær muni eignast að þá getur fylgt því ákveðin depurð að vita að kona muni ekki eignast fleiri börn, þó svo hún hafi sjálf tekið ákvörðunina um það.

Eflaust eru til margar konur sem ekki upplifa þessa tilfinningu. Líklegast er þetta sama ljúfsára tilfinning sem fólk upplifir oft þegar einu góðu tímabili lýkur og næsta tekur við, að það sem er liðið kemur aldrei aftur.

Ingibjörg Eyfjörð skrifaði nýlega pistil á lífstílsbloggvefinn Öskubuska.is  um þessa tilfinningu sem getur fylgt því að eiga fullkomlega heilbrigð og fullkomin börn og að hafa tekið upplýsta ákvörðun um að eignast ekki fleiri börn og finnast það samt svolítið sorglegt.

Sorgin sem fylgir því að vera hætt barneignum

„Já þið lásuð rétt. Þann 16. júní 2016 var ég tekin úr sambandi við fæðingu Huldu Maríu (þið getið lesið bloggið hér). Ég stend enn þá föst á því að þetta er besta ákvörðun sem ég hef tekið fyrir mig, bæði líkamlega og andlega og sé ekki eftir því einu sinni í sekúndubrot. En í dag, þegar ég sat við eldhúsborðið með Hólmgeir Loga að búa hann undir grunnskóla horfði ég á koppinn sem Hulda María notar núna, því bara lítil börn nota bleyju. Og það skall á mér eins og hamar Þórs. Eftir smá stund á ég ekki lítil börn lengur. Eftir smá stund á ég grunnskólabarn og ekkert bleyjubarn. Og ég táraðist, mér til varnar tárast ég mjög oft en þetta var öðruvísi,” segir Ingbjörg.

Hún segir að það sé ákveðin sorg sem fylgi því að ætla ekki að eignast fleiri börn. „Sorg sem hefur undanfarið gert reglulega vart við sig og ég bæli yfirleitt niður um leið. Sorg sem kemur þegar ég hugsa til þess að ég mun aldrei aftur finna þessa ungbarnalykt af mínum eigin börnum (sem er víst til í ilmvatnsformi, sel það ekki dýrara en ég keypti það), mun aldrei horfa á Huldu Maríu vera stóru systur og mun aldrei aftur upplifa fyrstu orðin, skrefin og allt þetta krúttlega sem fylgir ungabörnum. Já vissulega koma önnur augnablik, alveg jafnspennandi og alveg jafnmerkileg en það eru ekki þessi augnablik – þau koma aldrei aftur, sem er kannski ástæðan fyrir því að ég tek myndir af öllu, öllu sem þau gera. Til að eiga.“

Fyrstu skiptin og síðustu skiptin af svo mörgu

„Og þó að ég sjái ekki eftir því að eignast ekki fleiri börn, þá eru þetta ákveðin kaflaskil því með öllum fyrstu skiptunum sem líða – eru alveg jafnmörg síðustu skipti. Síðasta skipti sem ég skipti um bleyju á Huldu Maríu, síðasta skipi sem ég held á Hólmgeiri Loga.“

Hólmgeir Logi, sonur Ingibjargar, byrjar í skóla nú síðsumars og …
Hólmgeir Logi, sonur Ingibjargar, byrjar í skóla nú síðsumars og þá byrjar vissulega nýr kafli hjá honum enda lífið ekkert nema röð breytinga. Ljósmynd/Aðsend

Hún segist fagna öllum fyrstu skiptum en hræðast síðustu skiptin af öllu. „Ég er hrædd við síðustu skiptin, lömuð úr hræðslu réttara sagt. En ég er spennt fyrir öllum hinum fyrstu skiptunum, þegar börnin útskrifast og byrja í skóla, eignast maka, kannski börn. Öll þessi frábæru fyrstu skipti sem eru eftir. Vá hvað ég er spennt, því þó að ég segi sjálf frá þá á ég alveg einstök börn og ég er svo montin að fá að upplifa þetta allt saman með þeim.“

Færsla Ingibjargar á Öskubuska.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert