Hafðu þetta í huga þegar þú heimsækir foreldra nýfædds barns

Þegar foreldrar koma heim með nýfætt barn þá er lífið …
Þegar foreldrar koma heim með nýfætt barn þá er lífið ekki alltaf eins og ljósmynd úr myndabanka. Lítill svefn, saumar, erfiðleikar við brjóstagjöf og fleira getur truflað þó svo allt gangi annars vel og mikilvægt að sýna nýrri fjölskyldu þá tillitsemi sem þarf hverju sinni. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Það er yndislegt þegar nýr einstaklingur er búinn að stimpla sig inn í tilveruna og eru vinir og ættingjar foreldra gjarna spennt að skoða litla krílið og foreldrarnir vilja oft monta sig af því. En gestir verða þó að hafa nokkur atriði í huga áður en haldið er af stað í heimsókn. Svo sem að foreldrarnir geta verið illa vansvefta, mæður geta verið í erfiðu líkamlegu ástandi eftir erfiðar fæðingar, hormónar eru á fullu í líkamanum og brjóstamjólkurframleiðslan á fullu. Eflaust eru foreldrar nýfæddra barna í flestum tilvikum hæstánægðir að fá gesti en það eru þó nokkrir hlutir sem er gott að hafa í hug áður en haldið er í slíkar heimsóknir. 

Bíðið eftir að fá heimboð

Það er ekkert yndislegra en nýfædd börn. Þessar ponkulitlu tásur og fingur, forvitin augu þeirra sem eru að taka inn veröldina og yndisleg smábarnalyktin sem er engu lík. Öll þessi krúttlegheit þýða þó ekki að þú getir bara mætt fyrirvaralaust. Þetta á einkum við fyrstu dagana og vikurnar eftir að nýja barnið er komið í heiminn og allir eru að venjast nýja lífinu. Sendu skilaboð, sms eða tölvupóst og láttu vita að þú sér mjög spennt/ur að koma í heimsókn en bara þegar foreldrar nýja barnsins séu tilbúin.

Það getur verið mjög óþægilegt að fá gesti sem koma fyrirvaralaust ef foreldrarnir eru illa fyrir kallaðir, t.d. vansvefta, þegar móðirin er með verki út af saumum eða í vandræðum með brjóstamjólk og eiga þá að bregða sér í hlutverk hins kurteisa gestgjafa. Hins vegar getur það verið afar mikilvægt að fá heimsóknir þegar foreldrunum hentar því það getur líka verið einmanalegt að vera kippt út úr vinnu og annarri rútínu og vera alltaf heima með litla krílið. 

Ljósmynd/Thinkstockphotos

Ekki koma ef þú ert með minnstu veikindaeinkenni 

Nýfædd börn eru með viðkvæmt ónæmiskerfi og það er mjög erfitt fyrir þau sjálf og foreldrana ef þau veikjast ung. Ekki koma í heimsókn jafnvel þóað þú sért hress en svolítið að hnerra eða snýta þér. Vertu viss um að heimsókn þín hafi ekki heilsufarsleg áhrif á barnið. Þvoðu alltaf á þér hendurnar áður en þú tekur nýfætt barn í fangið og forðastu að kyssa það. 

Komdu með mat fyrir foreldrana!

Það getur verið yfirþyrmandi að hugsa um lítið barn, bæði þegar foreldrar gera það í fyrsta sinn en líka ef önnur börn eru á heimilinu. Þess vegna getur verið mikið mál að finna tíma til að elda góðar máltíðir, ganga frá og þess háttar. En um leið eru heilsusamlegar máltíðir afar mikilvægar á þessum tíma. Að taka mér sér mat sem líklegt er að nýju foreldrarnir kunna að meta sýnir ást og umhyggju gagnvart þeim. Ef þú kemur með fullunnin mat, þá má yfirleitt geyma hann í einn til tvö daga í ísskáp ef ekki hentar að borða hann strax. Í heimsókninni getur líka verið sniðugt að bjóðast til að ganga frá þvotti eða þess háttar, en það fer eftir sambandi fólks við foreldra nýfædda barnsins. Ef allir eru slakir yfir slíku, að veita og þiggja hjálp við heimilisstörf, þá getur slíkt verið mikilvægara en fleiri ný föt á barnið. 

Ljósmynd/Thinkstockphotos

Ekki gera ráð fyrir að geta knúsað barnið strax 

Þetta fer auðvitað eftir aðstæðum hverju sinni, tengslum fólks við foreldra nýfædds barns, hvort foreldrarnir eigi börn fyrir og aldri barnsins. Er það tveggja daga eða eða tveggja mánaða gamalt? Það verður að virða það að móður ungbarns gæti þótt það tilfinningalega óþægilegt að láta annað fólk fá barnið sitt og því mikilvægt að gefa henni þann tíma sem hún þarf. Einnig er það ágæt þumalfingursregla, ef þú færð að halda á ungu ungbarni, að halda því ekki lengi því það veldur móðurinni oft ónotalegri tilfinningu sem erfitt  er að útskýra og barnið kann að vera óvant annarri lykt, skeggrót, rödd og fleiru. Afhentu barnið foreldrum sínum ef það byrjar að gráta meðan þú ert með það, sama hversu vön/vanur þú ert því það getur verið afar erfitt tilfinningalega fyrir móður að sjá barnið sitt gráta í fangi annarra.  

Ekki vekja barnið ef það sefur þegar þú lítur inn og ekki búast við að foreldrarnir geri það. Það eru næg tækifærin fyrir knús síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert