Dýpkaði og þroskaðist við móðurhlutverkið

Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir ásamt dóttur sinni.
Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir ásamt dóttur sinni.

Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir aðstoðardagskrárstjóri RÚV á tvö börn, Eldeyju átta ára og Jökul sem verður fimm ára eftir nokkra daga. Hún fékk ástríkt uppeldi en faðir hennar stóð vaktina eftir sjö ára aldur hennar vegna andláts móðurinnar. 

Hvað kenndi móðurhlutverkið þér?

„Svo ótal margt, ég veit varla hvar ég á að byrja. Í fyrsta lagi er það þessi skilyrðislausa ást sem hellist yfir mann, hversu klisjukennt sem það hljómar. Maður dýpkar og þroskast. Ég legg mig alla fram í þessu hlutverki og reyni að njóta þess til hins ýtrasta.“

Hver er mesta áskorun móðurhlutverksins? „Ætli það sé ekki að finna þennan gullna meðalveg og muna eftir sjálfum sér í leiðinni. Svo fannst mér svefnleysið risa áskorun en sonur okkar vann framúrskarandi sigur í því með að halda okkur vakandi á nóttunni fyrsta árið.“

Hvert er besta uppeldisráð allra tíma? „Það sem hefur reynst mér best er einfaldlega að tala við börnin mín. Þessir snillingar eru nefnilega miklu klókari en við höldum og samtal leysir málin miklu fyrr heldur en arg og garg. Svo finnst mér líka skipta miklu máli að velja réttu orðin þegar maður talar við börn og reynir að leiðbeina þeim í samskiptum. Tala við þau af virðingu og reyna að forðast að segja „EKKI gera þetta og EKKI gera hitt“. Benda börnunum frekar á það sem er í boði. Á heimilinu er til dæmis í boði að fara úr skónum þegar maður kemur inn og ef maður ruglast þá æfir maður sig bara aftur.“

Hvernig varstu alin upp sjálf? „Ég fékk afar ástríkt og gott uppeldi. Pabbi stóð vaktina einn eftir að mamma lést þegar ég var sjö ára. Við fórum oft í stjörnuskoðanir, steinastökk, veiðiferðir og fylgdumst með formúlu 1 kappakstrinum. Mér var líka fljótt kennt að maður uppsker eins og maður sáir sem var gott veganesti út í lífið.“

Hvaða reglur ertu með sem þú hnikar ekki frá? „Það hefur reynst mér best að hafa skýran ramma í uppeldinu. Börnin mín eiga að koma vel fram við hvort annað og fólkið í kringum sig. Dónaskapur er aldrei í boði. Þau sofna líka alltaf sjálf og hafa alltaf gert.“

Hvað gerir þú með börnunum þínum um helgar? „Við erum svo heppin að búa nálægt fjöru þannig að fjöruferðir eru vinsælar á heimilinu. Þá er leitað að fallegum skeljum og steinum en Eldey og Jökull hafa alltaf verið miklir steinasafnarar og eiga nokkrar litlar fjársjóðskistur þar sem gersemarnar eru geymdar. Við bökum líka mikið og föndrum en mér finnst fátt notalegra en að kveikja á kerti á morgnana og draga fram föndurkassann. Vinsælast er þó þegar við förum í svokallaðar „ævintýraferðir“ en þær þurfa ekki að vera flóknari en svo að við skellum okkur út með kíki og skoðum fugla eða ský.“

Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og Haukur Ingi Guðjónsson.
Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og Haukur Ingi Guðjónsson.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert