„Að börnin læra það sem fyrir þeim er haft“

Ása Reginsdóttir ásamt börnum sínum tveimur, Emanuel er sex ára …
Ása Reginsdóttir ásamt börnum sínum tveimur, Emanuel er sex ára og Andreu Alexu tveggja ára. Ljósmynd/Bergljót Þorsteinsdóttir

Ása María Reginsdóttir er búsett á Ítalíu með eiginmanni sínum Emil Hallfreðssyni og börnum þeirra tveimur. Ása rekur Pom Poms & co, OLIFA og Allegrini á Íslandi. Hún er mikið fyrir börnin og fjölskylduna. Er lífskúnstner og matgæðingur að eigin sögn. 

„Ég á tvö börn, bæði fædd í Verona á Ítalíu. Emanuel er sex ára og Andrea Alexa er tveggja ára,“ segir Ása og útskýrir hvernig er að ala upp börn á Ítalíu.

„Það er yndislegt að ala upp börn á Ítalíu en á sama tíma krefjandi þar sem við erum fjarri fjölskyldu og vinum. Við höfum þó alltaf lagt okkur fram við að aðlagast samfélaginu sem best hverju sinni, eftir því hvar við búum og þannig eiga gott tengslanet sem lætur okkur og börnunum líða sem mest eins og innfæddum. Svo eru þetta að sjálfsögðu forréttindi fyrir þau. Að fá að alast upp við tvö, þrjú tungumál sem er gott veganesti út í lífið sem og að kynnast ólíkum menningarheimum sem víkkar sjóndeildarhringinn.“

Hreinn og næringarríkur matur

Getur þú sagt mér hverjar matarvenjur ykkar eru, þá sér í lagi tengt börnunum? „Ég vanda valið á þeim mat sem ég kaupi inn á heimilið og því fá þau alla jafna mjög hreinan og næringarríkan mat sem lætur þeim líða vel. Við drekkum vatn með matnum. Ég hef allt mjög afslappað í kringum matmálstímana þannig að börnin upplifi enga pressu við að borða/smakka við matarborðið. Eftir að ég hef lagt matinn á borð byrja ég á að fá mér á diskinn án þess að pæla í þeim og svo smátt og smátt tína þau sjálf þann mat sem þau vilja á sinn disk – og allt í einu hafa þau borðað ofnbakað grænmeti og allan fiskinn sem var í boði. Börn eru í eðli sínu forvitin og það er engin undantekning á því við matarborðið. Þau smakka matinn sem er borinn á borð fyrir þau, ef þau eru svöng. Smám saman eru þau farin að elska hinn ótrúlegasta mat. Sonur okkar elskar sem dæmi alla heimsins osta og Andreu finnst fátt betra en góðar ólífur.“

Ljósmynd/Bergljót Þorsteinsdóttir

Að leyfa þeim að gera hlutina sjálf

Hvað er skemmtilegast við barnauppeldið? „Að heyra hvað þau eru nú yndisleg, dásamleg og frábær þegar ég kem og sæki þau til annarra.“

En mesta áskorunin? „Að leyfa þeim að gera hluti sjálf í friði sem tekur mig mun styttri tíma að gera. Ég er orðin nokkuð góð í því og þau njóta góðs af – þó svo það kalli stundum á mikið kvart og kvein.“

Hvaða gildi eruð þið Emil með tengd börnum og uppeldi?

„Að börnin læra það sem fyrir þeim er haft. Þú getur sagt allt í heiminum, en ef þú hagar þér ekki samkvæmt því hefur það ekkert að segja. Ég vona að okkur sé að takast það ágætlega. Svo finnst mér mikilvægt að nefna að leyfa þeim að vera eins og þau eru, leyfa þeim að þroskast í þá átt sem þau vilja, með okkar stuðningi og væntumþykju að vopni.“

Emanuel.
Emanuel. mbl.is/Bergljót Þorsteinsdóttir

Góður grunnur í hamingjuríku hjónabandi

Hvað þykir þér mikilvægt varðandi börn og uppeldi?

„Mér finnst skipta máli að við Emil fáum okkar tíma saman og setjum okkur í fyrsta sætið – svo koma börnin. Það hljómar kannski sjálfselskt en ef mamma og pabbi eru í góðum málum þá eru börnin það líka. Það er mín reynsla. Mér finnst því skipta mjög miklu máli að eiga góða pössunarpíu sem sinnir þeim vel og þannig náum við að rækta hjónabandið í ró og næði.“

Hvernig leikið þið með börnunum?

„Emil er nokkuð liðtækur í fótboltanum en annars reynum við að búa þannig um að þau geti leikið sér auðveldlega sjálf – með skapandi leikföngum og sínu eigin ímyndunarafli. Við truflum þau ekki þegar þau eru dottin í leik og höfum umhverfið þannig að þau geta bjargað sér sjálf. Andrea er þó mjög mikið í frábærum ímyndunarleikjum sem stundum taka okkur öll alveg út í geim og því ekki annað hægt en að leika með.“

Andrea Alexa.
Andrea Alexa. Ljósmynd/Bergljót Þorsteinsdóttir

Hann vísar mér veginn

Hvað skiptir mestu máli í lífinu?

„Að lifa í þakklæti. Það er lykillinn að öllu góðu. Öllu!“

Ertu trúuð/ eða andlega þenkjandi? „Já ég trúi á Guð almáttugan og hans einkason, Jesú Krist og ég er viss um að hann leiðir mig alltaf réttan veg. Það er svo ótrúlega gott og notalegt að leggja líf sitt í hans hendur – og ekki síst þegar vel gengur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert