Ekkert ég frá mér til mín

María Björk Óskarsdóttir og Þór Sigurgeirsson ásamt börnum sínum.
María Björk Óskarsdóttir og Þór Sigurgeirsson ásamt börnum sínum.

María Björk Óskarsdóttir, sviðsstjóri menningar- og samskiptasviðs Seltjarnarnesbæjar, á fjögur börn með eiginmanni sínum, Þór Sigurgeirssyni. Hún segir að það að eignast fjögur börn hafi umturnað lífinu. 

María á börnin Söru Bryndísi 20 ára, Örnu Björk 18 ára, Mörtu Sif 11 ára og Daníel Þór 8 ára. Fyrsta barn þeirra hjóna, Dagur, var andvana fæddur og segir María að hann fylgi þeim alla tíð.

Hvað kenndi móðurhlutverkið þér?

„Það væri nú líklega auðveldara að svara því hvað móðurhlutverkið hefur ekki kennt mér því ég þurfti hreinlega að læra flest allt varðandi umönnun og uppeldi þegar elsta dóttirin fæddist. Lífið auðvitað breyttist á allan hátt og það var ekkert lengur ég um mig frá mér til mín og ýktust allar tilfinningar á jákvæðan hátt. Þessi endalausa ást og umhyggja, þolinmæði, umburðarlyndi, stolt og metnaður, streita, skipulag og hvað eina sem maður hefur upplifað í tengslum við börnin. Ég vil líka stundum meina að ég sé „sjálfmenntaður læknir“ tengt börnunum, með árunum orðið mjög góð í að greina hvað er að þegar um veikindi er að ræða enda enginn sem þekkir börnin betur en maður sjálfur. Ég hef líka sjálf þroskast mikið á þessum tíma. Hef til dæmis lært að fara úr mikilli fullkomnunaráráttu með fyrsta barn þegar ég stúderaði ungbarnabækurnar, vildi hafa allar taubleyjur og samfellur straujaðar og allt samkvæmt bókinni. Yfir í það að ná verða þokkalega slök þó ég hefði að mínu mati „misst“ tökin á heimilinu, ekki síst fyrstu árin eftir að börnin urðu fjögur. Það hefur nú komið aftur, nema kannski þvotturinn, sem er alltaf yfirþyrmandi mikill,“ segir María.

Hver er mesta áskorun móðurhlutverksins?

„Það má vel segja að maður reki myndarlegt fyrirtæki árið um kring þar sem áskoranirnar eru afar fjölbreyttar. Erfiðast er þó þegar mikil veikindi, sjúkdómar eða áföll banka á dyrnar hjá börnunum og maður getur ekki tekið sársaukann eða erfiðleikana frá þeim. Getur bara farið í gegnum það með þeim, verið til staðar, huggað, hvatt og knúsað. Það reynir á mann! Svo er náttúrulega bara allt þetta dagsdaglega, skipulagið og hvernig manni tekst til þegar álagið er mikið, hvort sem er hjá manni sjálfum eða hjá börnunum. Þolmörkin eru svo mismunandi eftir því hvernig maður er sjálfur stemmdur. Það verður nú líka að segjast að það virðist vera eilífðaráskorun að ná að útdeila hinum ýmsu heimilisverkum hversu oft sem maður nefnir suma hluti,“ segir hún.

Hvert er besta uppeldisráð allra tíma?

„Vá, það er nú það. Ég veit ekki hvort það er eitthvert eitt best. Sem móðir og uppalandi þarf maður á svo mörgum spilum að halda sem maður notar í mismunandi aðstæðum eða þroskaskeiðum. Ég held hins vegar að eitt það mikilvægasta sé að börnin finni að þau séu elskuð og að maður sé alltaf til staðar sama hvað. Eiga traustið og vináttuna sem og að vera meðvituð um hvað er að gerast í lífi þeirra hverju sinni og hverja þau umgangast. Svo er líka að muna að vera þakklát og hafa gaman saman, við Þór erum mjög lánsöm því börnin okkar eru öll bara alveg ótrúlega vel gerð. Heilsteyptar, hæfileikaríkar og góðar manneskjur.“

Ekkert fyrir boð og bönn

Hvernig varstu alin upp sjálf?

„Ég var alin upp við ást og umhyggju og held ég frekar mikið aðhald en samt sanngirni og ekkert allt of strangt. Það var passað upp á námið og heimalærdóminn, ég var í íþróttum en mér var ekkert fylgt sérstaklega eftir eða skutlað á milli staða eins og nú tíðkast. Ég þurfti alltaf að láta vita af mér og virða útivistartíma, gat ekkert gert og farið hvert sem var án leyfis. Samningar voru líka algengir fremur en boð og bönn, það er að segja ef mömmu og pabba leist alls ekki á eitthvað sem ég vildi gera var mér boðið eitthvað annað freistandi en mun skynsamlegra í staðinn. Þeim leist til dæmis ekkert á þær hugmyndir að ég færi í langa interrail-ferð með vinkonum mínum beint eftir fjögurra vikna útskriftarferð til Ibiza og London. Mér var því boðin önnur útlandaferð í staðinn sem fólst í því að við mamma færum bara tvær saman í verslunarferð til Amsterdam um haustið, en það var nú ekki eins algengt að fara í svoleiðis skrepp eins og nú er. Ég hef aldrei séð eftir því að taka þessum samningi þó að hitt hefði nú verið mikið ævintýri. Við mamma áttum frábæran tíma saman, gerðum fullt og ég kom hlaðin heim af flottum fötum.“

Hvaða reglur ertu með sem þú hnikar ekki frá?

„Ég er nú mest á þeirri línu sem ég ólst upp við og ekkert mikið fyrir allsherjar boð og bönn. Er almennt slök ef hlutir fara ekki fram úr öllu hófi, samningaleiðin er oft notuð ef þess er þörf. En auðvitað er ýmislegt sem er bara alls ekki í boði bæði tengt aldri og öryggi. Það aldrei í boði að hegða sér ókurteislega, gera hluti sem eru varhugaverðir eða óskynsamlegir og svo framvegis. Það er líka algjör regla að þau eiga, mega og geta alltaf sagt mér allt ef eitthvað kemur upp eða bjátar á og við finnum lausn. Ég fylgist vel með þeim í þeirra daglega lífi, vil vita hvar og með hverjum þau eru og hvað er í gangi svona almennt. Þau vita að þau geta alltaf hringt og látið sækja sig ef eitthvað er. Ef stóru stelpurnar eru úti fram á nótt til dæmis skólaball eða annað þá er sú regla í gangi að þær láti mig vita hvernig/hvenær þær koma heim því ég er á vaktinni og verð ekkert róleg fyrr en allir eru komnir á sinn stað. Jú, og svo er nú ein alveg heilög regla sem er að afmælisbörn heimilisins eru alltaf vakin af öllum hinum með söng og pökkum.“

Hvað gerir þú með börnunum þínum um helgar?

„Það er eins og gengur að oftar en ekki er mjög mikið í gangi á stóru heimili. Dagskráin getur oft verið mjög þétt tengt íþróttum, vinnu eða einhverju félagslífi sem tekur upp tíma um helgar. Kósýkvöld eru í uppáhaldi og ef ekkert sérstakt er í gangi er notalegast að allir fái bara að sofa og hvíla sig í rólegheitunum heima. Reyna að hafa ekki of mikið span út og suður, það er nóg samt alla daga og svo vantar aldrei frágangsverkefnin heima. Við reynum að hafa það þannig að fjölskyldan nái að borða öll saman eitthvert kvöldið um helgar og helst sem oftast í miðri viku þó að það sé allur gangur á því. Þegar tækifæri gefst förum við í sumarbústaðinn okkar í Kjósinni og höfum það ótrúlega gott saman.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert