Æfðu með barninu heima í stofu

Sara Barðdal viðskiptafræðingur stefndi á starfsframa í allt öðru en heilsumálum, en örlögin tóku í taumana þegar móðir hennar veiktist árið 2008. Í dag þjálfur hún konur í gegnum HIITFIT sem er sérsniðið fyrir nýbakaðar mæður. 

„Þú getur haft besta plan í heimi í höndunum, en það er einskis virði ef því er ekki framfylgt,“ segir Sara og útskýrir áhuga sinn á hugarfari þegar kemur að æfingum.

„Ég vildi læra allt sem ég gæti um hugarfar og hvaða tól maður þyrfti að hafa í farteskinu til þess að viðhalda langtímaárangri, en ekki bara að byrja að krafti og hætta síðan eftir nokkrar vikur eins og er svo algengt hjá fólki.

Áhugamálið mitt snýst alfarið um þennan heim! Hann á hug minn allan þessa dagana og elska ég að kafa djúpt ofan í hugarpælingar, HIIT-heimaæfingar, hollt mataræði og andleg málefni.“

Hvað er HIIT-heimaæfingar?

„HIIT er skammstöfun fyrir „high intensity interval training“, á íslensku er líklega besta þýðingin lotuþjálfun þar sem við erum að fá púlsinn hátt upp í stuttan tíma og taka stuttar pásur inni á milli meiri ákefðar.“

Hvað skiptir mestu máli þegar maður á von á barni tengt líkamanum?

„Ég segi alltaf að konur þurfi að passa að hlusta á líkamann sinn. Hann veit alltaf best og er sífellt að senda okkur merki, eitthvað sem við erum misduglegar að hlusta eftir.

Ef þú upplifir þreytu, hlustaðu á það og hvíldu þig. Ef þú finnur óþægindi við ákveðna hreyfingu, ekki halda áfram. Það er svo margt að gerast á þessum tíma og líkaminn bregst svo mismunandi við hjá hverri og einni.“

Sara segir að einnig þurfi að passa upp á gott og nærandi mataræði. „Til að viðhalda orkunni og að líðan sé sem best á meðgöngunni. Lítil manneskja er að verða til frá grunni, því skiptir máli að næringin sé upp á sitt besta.“

Þegar Sara var í fæðingarorlofi kviknaði hugmyndin.

„Ég byrjaði einmitt sjálf á þessu ferðalagi þegar ég var heima í fæðingarorlofi með eldri strákinn minn og hentaði þetta ótrúlega vel með lítið kríli heima, þar sem maður hefur algöra stjórn á hvenær maður vill æfa og er því ekki bundinn að mæta á ákveðinn stað fyrirfram ákveðnum tíma. Einnig tekur æfingin mjög stuttan tíma og maður getur tekið æfingu meðan krílin sofa eða leyft þeim að fylgjast með.

Það eina sem maður þarf að eiga er æfingardýna og góða skapið og það er hægt að ná inn geggjaðri æfingu á 15-20 mín.“

Hvað hefur virkað best fyrir þinn líkama?

„Að hlusta á hann, koma fram við hann að virðingu, hvílast þegar ég finn fyrir mikill þreytu, hreyfa hann reglulega, halda honum sterkum og ýta mér aðeins út fyrir þægindaramman þegar ég vil ná að bæta mig á einhverju sviði.

HIIT-æfingar hafa skilað mér langmestum árangri, ég hef prófað að mæta í ræktina 6 sinnum í viku og púla í rúma klst, en ekkert hefur gefið mér eins mikið og HIIT-æfingarnar. Ég sá að það skiptir minna máli hversu lengi þú ert að æfa, og meira máli hvað þú ert að gera á þeim tíma sem þú ert að æfa.“

Aldrei að gefast upp

Hvað viltu segja við þær sem hafa gefist upp á líkamanum?

„Fortíðin mótar okkur, en hún þarf ekki að skilgreina okkur. Það er alltaf hægt að breyta venjum og gera betur.

Ekki fókusa á staðinn sem þú ert á í dag, horfðu frekar á þetta sem byrjunarpunkt og að þú munir bara bæta þig héðan í frá. Ef við einblínum of mikið á það sem er „að“ eða erfitt þá sjáum við oft ekki möguleikana og allt það góða sem við getum skapað inn í lífið okkar. Byrjaðu á að taka eitt lítið skref, það þarf alls ekki að snúa öllu við á einni viku. Litlar breytingar safnast saman og verða að einhverju stærra.

Farðu í hugarvinnu og byrjaðu að taka skref út frá sjálfsumhyggju, ekki af því þú hatar líkaman þinn, heldur af því þú elskar hann og vilt gera betur fyrir hann og Aldrei, aldrei gefast upp! Horfðu á þetta sem ferðalag en ekki áfangastað og byrjaðu á litlum breytingu strax í dag sem þú byggir síðan ofan á og þú munt upplifa gríðarlegan ávinning eftir nokkra mánuði.“

Hvað er það besta við að vera í formi?

„Það er svo margt! Frelsið við að geta leikið við börnin sín, hlaupið á eftir þeim, hoppað á trampolíni með þeim. Geta farið út að hjóla og upplifað styrkinn í líkamanum og geta treyst því að hann muni styðja við þig út æfinguna. Orkan og vellíðan í líkamanum sem maður finnur daglega fyrir, að geta framkvæmt hluti sem maður gerði sem barn. Handstöðu, handahlaup og brú. Framkvæmt allar athafnir dagsins auðveldlega, borið þunga matarpoka langa leið, haldið á börnunum mínum báðum í einu. Margir litlir hlutir sem gleðja mann mikið að geta framkvæmt án vandræða.“

Sara bætir við: „Svo er líka alltaf plús að geta farið í uppáhaldskjólinn sinn og horft í spegilinn með stolti og verið ánægður með það sem maður sér.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert