Ótrúleg viðbrigði að verða mamma

Þórunn Ívarsdóttir.
Þórunn Ívarsdóttir.

Þórunn Ívarsdóttir bloggari og samfélagsmiðlastjarna varð mamma 9. september þegar hún og maður hennar eignuðust dóttur. Hún segir erfitt að lýsa því hvað hún sé að upplifa núna því það sé svo stórbrotið. 

„Þetta eru ótrúleg viðbrigði að það sé allt í einu kominn þessi litli þriðji ósjálfbjarga einstaklingur sem krefst athygli sólarhringinn inn á heimilið en á sama tíma er það hreint út sagt dásamlegt. Ef ekki það dásamlegasta sem ég hef nokkurn tíman upplifað. Við erum búin að njóta þess að vera þrjú saman að kynnast síðan hún fæddist 9. september síðastliðinn. Við erum í raun ennþá bara heima í rólegheitunum og mér líður eins og ég viti ekkert hvað sé að gerast út í þessum stóra heimi,“ segir Þórunn.

Dóttir Þórunnar kom í heiminn 9. september.
Dóttir Þórunnar kom í heiminn 9. september.

Aðspurð um fæðinguna segir Þórunn að hún hafi svo sannarlega tekið á. 

„Fæðingin var löng og erfið og ekkert eins og ég hefði getað ímyndað mér. Ég fór af stað um hádegisbil þann 8. september og mætti hún í heiminn seinnipart 9. september. Ég var komin sléttar 41 viku á leið þegar hún kom í heiminn og var hún um 15 merkur og heilir 54,5 cm á lengd. Ég var búin að passa mig á þvi á meðgöngunni að gera mér engar væntingar og vonir varðandi fæðinguna og er mjög fegin því. Mér fannst gott að spila af fingrum fram í samráði við ljósmóðurina í fæðinguna og fá ráðleggingar í hverju skrefi. Fæðingarsagan er í raun efni í heilt annað viðtal en eftir þessa lífsreynslu líður mér eins og ég geti tæklað hvað sem er í lífinu,“ segir hún.

Eins og frumbyrjum sæmir varði Þórunn töluverðum tíma í að undirbúa komu dótturinnar með því að gera herbergi hennar fallegt. 

„Ég er búin að eyða heilmiklum tíma í að undirbúa komu hennar bæði með því að dúllast við að gera herbergið hennar, kaupa föt og því um líkt en líka með því að sækja námskeið, stunda meðgöngujóga og fræða mig um brjóstagjöf.“

Þórunn pantaði sér þennan Bugaboo Fox barnavagn.
Þórunn pantaði sér þennan Bugaboo Fox barnavagn.

Þegar kom að því að velja barnavagn lagðist Þórunn í mikla rannsóknarvinnu. 

„Ég er búin að gera heilmikla rannsóknarvinnu varðandi ansi margt og þá til dæmis þegar við völdum barnavagn. Bugaboo Fox vagninn varð fyrir valinu en það er eiginlega eini vagninn eða eina vörumerkið sem ég hafði komist í kynni við. Fox týpan er sú nýjasta frá Bugaboo en hann er vagn og kerra í einu. Margar vinkonur mínar höfðu fjárfest í öðrum týpum frá Bugaboo og meðmælin voru bara svo góð að ég eiginlega skoðaði engin önnur merki. Bugaboo er líka eini vagninn sem býður upp á það að sérhanna hann eða raða honum saman eins og þig langar. Ég útbjó draumavagninn á heimasíðu Bugaboo og sýndi þeim í versluninni Petit hvernig ég vildi panta hann. Mig dreymdi um dökkgrænan og svartan vagn sem myndi henta hvort sem ég væri með stelpu eða strák, jafnvel líka fyrir næsta barn. Vagninn er ótrúlega léttur, þægilegur og fellur auðveldlega saman og smellist bílstólinn á hann með einu handtaki. Það eru ótal aukahlutir í boði en við til dæmis fengum okkur glasahaldara, kerrupoka og sjálflýsandi „koppa” á dekkin til að vera sýnilegri í myrkrinu í vetur. Fox er frábrugðinn hinum týpunum að því leitinu að vagnstykkið er nú stærra og kerrustykkið er sterkara en á sama tíma ótrúlega létt. Hentar börnum upp í 22 kg, eða í kringum 5 ára. Bremsan hefur verið endurhönnuð og smellist nú á og af án þess að skórnir þurfi að finna fyrir því. Fjöðrunarkerfið hefur verið mikið bætt og fjöðrunin á ekki lengur aðeins við dekkin heldur einnig inn í grindinni sjálfri. Rennslið og aksturseiginleikar vagnsins eru frábærir en þægindin skiptu öllu máli þegar það kom að því að velja vagn.  Ég á eftir að labba upp mikið af brekkum hérna í hverfinu og skemmir það ekki fyrir hvað vagninn er léttur og handhægur,“ segir hún. 

Þegar Þórunn er spurð að því hvort móðurhlutverkið eigi eftir að breyta henni sem bloggara og samfélagsmiðlastjörnu segist hún efast um það. 

„Ég held að móðurhlutverkið breyti mér örugglega ekki mikið sem áhrifavaldi en auðvitað hefur mikið snúist um þetta stórkostlega ferðalag á mínum miðlum allt þetta ár. Ég held að þetta verði bara frábær viðbót við það sem er í gangi nú þegar á mínum miðlum og geri þá bara fjölbreyttari og hlakka ég til að deila ennþá meira af minni reynslu af móðurhlutverkinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert