Slökktu á raftækjum og sjáðu hvað gerist

Þegar börn fá tækifæri til að nota sköpunarkraft sinn geta …
Þegar börn fá tækifæri til að nota sköpunarkraft sinn geta þau gleymt stund og stað í leik. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Ungverski sálfræðingurinn Mihaly Csikszentmihaly verður gestur á ráðstefnunni Flæði sem haldin er 19. október. 

Guðrún Sólveig leikskólastjóri Leikskólanum Rauðhól Norðlingaholti og Guðrún Snorradóttir markþjálfi lýsa flæði þannig að þegar þegar fullorðnir starfa í flæði eða börn leika í flæði; gleyma þau stað og stund. Guðrún Sólveig rekur tildrög þess að Csikszentmihaly faðir jákvæðrar sálfræði sé að koma til landsins, til þróunarverkefnisins Leyndarmál Rauðhólsgleðinnar.

„Rauðhóll er stærsti leikskóli landsins með 206 börn, 10 deildir og 3 starfsstöðvar. Við erum sífellt að fara ofan í það hvernig við störfum og veltum fyrir okkur hvernig við getum gert hlutina öðruvísi og betur.“

Þrátt fyrir að leikskólinn hafi stækkað mikið undanfarin ár þá segir Guðrún Sólveig að menningin breytist lítið. „Við höldum í að hafa skólann með sveigjanlegt skipulag sem framkallar flæði. Við leggjum áherslu á styrkleika og leikgleði. Við höfum í gegnum árin stuðst mikið við fræði Csikszentmihaly um jákvæða sálfræði og styðjumst við þessa flæðishugsun í daglegu starfi.“

Ungverski sálfræðingurinn Mihaly Csikszentmihaly er þekktur víða um heiminn fyrir …
Ungverski sálfræðingurinn Mihaly Csikszentmihaly er þekktur víða um heiminn fyrir störf sín í þágu jákvæðrar sálfræði. Ljósmynd/Aðsend

Hvað áttu við með því?

„Við leyfum börnunum að koma með hugmyndir til okkar sem við hjálpum þeim að dýpka og rækta. Við leggjum meiri áherslu á að börnin njóti gleði við leik og nái að gleyma sér í leiknum, heldur en að vera að færa þau á milli starfsstöðva, ganga frá eftir hvern leik og þess háttar.  Börnum gengur misvel að gleyma stað og stund í flæði, en það er einmitt okkar fullorðinna að styðja við þetta hjá þeim.“

Hvernig getum við foreldrar notað flæðishugsun heima? „Með því að slökkva á tölvum og raftækjum, leyfa börnunum að stinga upp á hvernig þau vilja leika sjálf og ekki trufla þau við leikinn. Sköpun skiptir hér miklu máli. Sem dæmi get ég nefnt að þegar við förum út í búð þá fáum við stundum kassa undir vörurnar okkar. Ef barnið okkar þarf að finna upp á leik heima sjálft þá getur það tekið upp á því að búa til bíl úr kassanum og dundað sér í skapandi hugsun og leik lengi. Það getur farið út að týna lauf sem það skreytir kassann með og þar frameftir götunum. Í stað þess að sitja í tölvunni löngum stundum.“

En hvernig kom það til að þið fenguð Csikszentmihaly til landsins?

„Það er ungversk kona sem heitir Zsuzsi sem vinnur á leikskólanum og einn daginn vorum við á hádegisfundi að spjalla um þróunarverkefnið okkar og hugmyndafræði Csikszentmihaly. Þá kom þessi hugmynd upp að Zsuzsi gæti haft samband við hann þar sem þau eru bæði frá Ungverjalandi. Eitt leiddi af öðru og nú hefur hugmyndin orðið að veruleika.“

Fyrir hvern er ráðstefnan?

„Hún á í raun erindi við alla. Starfsmenn skóla, foreldra, fólk úti í atvinnulífinu, ömmur og afa. Í raun alla sem hafa áhuga á að efla lífið sitt og þekkingu á sviði jákvæðrar sálfræði og flæðishugsunar.“

Guðrún Snorradóttir verður með vinnustofu á ráðstefnudeginum og er sammála nöfnu sinni að þessu leiti.

„Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin eyrum þegar  ég fékk þetta símtal frá Guðrúnu Sólveigu um að einn af frumkvöðlum jákvæðrar sálfræði væri að leggja land undir fót og heimsækja okkur með erindið sitt. Hann er rokkstjarna greinarinnar og ferðast lítið nú á seinni árum,“ segir hún og útskýrir að hún verði með tveggja klukkustunda vinnustofu á ráðstefnudeginum þar sem hún mun kynna flæðishugsunina fyrir atvinnulífinu og almenningi sem hefur áhuga á að kynna sér ferlið betur.  „Flæði er áhugavert hugtak en ég mun aðstoða ráðstefnugesti að skoða sitt eigið flæði og jafnframt gefa þeim hugmyndir, tól og tæki til að tengjast því oftar.“ 

Guðrún útskýrir hvernig flæði getur myndast í ákveðnum aðstæðum eða út frá styrkleikum okkar.

„Þetta er æfing sem við tökum inn á við. Við þurfum að spyrja okkur: Hvenær kemst ég í flæði? Hvernig kemst ég oftar í flæði? Hvað þarf ég að biðja um á vinnustaðnum til að komast oftar í flæðishugsun? Hverjir hjálpa mér við að komast í flæði?“

Guðrún nefnir sem dæmi opin vinnurými sem  hafa þannig áhrif á suma að þeir komast sjaldnar í flæði. „Þarf fólk í slíkum aðstæðum sem dæmi að bóka fundarherbergi til að komast í betra vinnuflæði reglulega? Þegar þú ert að vinna og gleymir stund og stað þá afkastarðu oft meira en þegar að of mörg verkefni liggja fyrir í einu. Það er því til mikils að vinna einnig fyrir stjórnendur að koma á ráðstefnuna og kynna sér flæðishugsun til hins ýtrasta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert