Ekkert vesen að nota taubleiur

mbl.is/ThinkstockPhotos

Sigrún Edda Halldórsdóttir segir að umhverfissjónarmiðin hafi skipt megvinmáli þegar hún og kærasti hennar tóku þá ákvörðun að nota taubleiur á son sinn. Í dag hefur áhugi Sigrúnar þróast yfir í dellu, eins og gjarnan vill verða þegar foreldrar gefa taubleium tækifæri, og er hún jafnvel farin að sauma sínar eigin bleiur og taubindi undir merkinu Brák. 

„Ég gat ekki hugsað mér að skilja eftir svona mikið rusl. Það voru því umhverfissjónarmiðin sem fengu mig til að notast við taubleiur. Við byrjuðum á að nota tau- og bréfbleiur í bland en vorum miklu ánægðari með taubleiurnar. Það kemur minni lykt af þeim og þegar við vorum búin að venjast þeim var þetta ekkert vesen. Ég og kærastinn minn erum mun ánægðari með tauið en bréfbleiur,“ segir Sigrún Edda, sem viðurkennir þó fúslega að taubleiuheimurinn virðist flókinn við fyrstu sýn.

„Það tekur smá tíma að koma sér inn í þetta. Ég man eftir að hafa horft á myndbönd á netinu því ég vissi ekki hvar ég átti að byrja. Í rauninni er svolítið verið að flækja þetta óþarflega. Það er svo margt í boði, sem er auðvitað fínt þar sem sniðin henta misjafnlega, en það þarf ekki svona margar tegundir þegar maður er að prófa sig áfram,“ segir Sigrún Edda og bætir við að áhugasamir foreldrar sem eru að stíga sín fyrstu skref geti fengið lánspakka með taubleium endurgjaldslaust í gegnum Facebooksíðuna Taubleiutjatt.

„Pökkunum fylgir svolítill leiðbeiningabæklingur sem útskýrir muninn á bleiunum. Hvernig á að þvo þær auk allra helstu grunnupplýsinga. Þetta eru byrjendavænar bleiur og allt saman afar einfalt,“ segir Sigrún, en hvað myndi hún segja að væri bráðnauðsynlegt að eiga til að byrja með?

„Það er misjafnt hvort fólk vill vasableiur eða svokallaðar AIO, þar sem allt er í einni bleiu. Svo vilja sumir forsaumaðar gasbleiur og skeljar sem oftast eru kallaðar „cover“. Forsaumuðu gasbleiurnar, „prefolds“, eru gamaldags gasbleiur sem er búið að sauma saman þannig að þær eru tilbúnar og samanbrotnar. Þá eru þær rakadrægastar í miðjunni og mun auðveldara að nota þær. Margir nota slíkar bleiur á nýbura. Við komumst til dæmis upp með það að eiga tólf slíkar og fimm skeljar, sem er vatnsheldi hlutinn. Maður getur nefnilega notað þær aftur án þess að þvo þær ef barnið hefur bara pissað og bara skipt um rakadræga hlutann. Þá tekur maður nýja skel og lætur þá sem maður var að nota þorna þar til maður skiptir næst um bleiu. Með því móti þarf maður ekki að eiga eins margar,“ segir Sigrún Edda.

„Síðan eru til margar mismunandi útgáfur af AIO-bleium. Almennt er í þeim tunga sem er föst í bleiunni og oftast eru þær mjög rakadrægar. Við eigum einmitt nokkrar þannig en margar íslenskar saumakonur sauma svoleiðis bleiur. Þær eru voðalega þægilegar því það þarf ekkert að púsla hlutunum saman. Þetta er bara einn partur, en stundum þarf þó að stinga einhvers konar tungu inn í bleiuna,“ segir Sigrún og bætir við að vasableiur séu einnig afar vinsælar.

„Þá ertu í rauninni með vatnshelda stykkið, sem er hálfgerður vasi, en það er ekkert rakadrægt við það. Hins vegar stingur maður innleggi í vasann sem sér um rakadrægnina. Margir eru mjög hrifnir af þessum bleium því það er auðvelt að stjórna rakadrægninni, einfaldlega með því að velja innlegg eftir hentisemi. Ég nota þær mikið og er síðan með margskonar innlegg eftir því hversu lengi bleian þarf að duga. Ég er til dæmis með sérkerfi fyrir dagmömmuna, en þá vel ég innlegg sem ég veit að halda lengur og hann verður ekkert blautur í gegn hjá henni,“ segir Sigrún Edda og bætir við að dagmamman hafi verið opin fyrir því að prufa taubleiurnar.

„Hún hafði aldrei prófað þetta áður en tók bara vel í þetta. Hún skilar öllu til okkar og við sjáum svo um að þrífa bleiurnar. Í dag segir hún að sér þyki þetta ekkert meira mál en bréfbleiurnar. Það tók smátíma fyrst að finna út úr þessu vegna þess að það er ekki jafn mikil lykt af taubleiunum. Þeir sem eru vanir að nota bréf fatta kannski ekki að börnin séu búin að kúka. Það er til dæmis aldrei pissulykt af bleiunum hjá okkur og næstum aldrei sterk kúkalykt,“ segir Sigrún Edda og bætir við að taubleiur séu algerlega jafn góður kostur og bréfbleiur.

Kostirnir fjölmargir

„Taubleiur eru mjög hagkvæmar og ég held að þetta sé svona mikill frumskógur vegna þess að þetta er svo lítið notað. Ef taubleiurnar væru almennt notaðar jafn mikið og bréfið væri þetta ekki svona flókið. Þá myndi fólk þekkja til og það væri ekki svona erfitt að koma sér inn í þetta. Helsti kosturinn við bleiurnar er auðvitað sparnaður og umhverfisvernd. Þær eru þægilegri, börn verða síður rauð og brenna sjaldnar á bossanum. Þau fá líka síður sveppasýkingar. Foreldrarnir þurfa heldur aldrei að hlaupa út í búð vegna þess að bleiurnar eru búnar. Þær eru einfaldlega alltaf til. Og þegar barnið hættir að nota bleiur er hægt að selja þær. Við erum til dæmis búin að kaupa helling af notuðum bleium. Við byrjuðum á því þegar við vorum að finna hvaða tegundir okkur þóttu þægilegastar. Svo þegar við vorum búin að finna út úr því keyptum við svolítið af nýjum bleium. Fólk hefur komist af með að eyða 20 þúsund kalli í bleiur fyrir allt bleiutímabilið. Maður þarf þá bara að vera duglegur að þvo og finna góða díla,“ segir Sigrún Edda, en hverjir eru helstu gallarnir við tauið?

„Það fer auðvitað aðeins meiri tími í þetta. Það þarf að setja í þvottavél, síðan þarf að hengja bleiurnar upp eða setja þær í þurrkara. Þetta er þó ekkert sem við tökum eftir, þannig séð. Maður er alltaf að þvo föt af barninu hvort eð er. Hjá okkur eru þetta kannski þrjár til fjórar vélar aukalega á viku. Okkur finnst það ekkert muna neitt svakalega. Annar galli er líka hvað þetta er mikill frumskógur, hvað það er erfitt að koma sér inn í þetta. Það verður þó strax auðveldara ef maður þekkir einhvern sem getur aðstoðað mann. Fólk mætti einnig vera ófeimnara við að biðja um aðstoð, það eru nefnilega svo rosalega margir sem notast við taubleiur sem eru reiðubúnir að hjálpa.“

„Þegar lánspakkarnir fóru af stað í árslok 2016 kom í ljós að það er mikill áhugi fyrir því að prófa taubleiur, enda hafa þeir verið í stanslausu útláni síðan. Í dag eru pakkarnir þrír, einn fyrir nýbura og tveir sem henta þegar nýburableiurnar eru orðnar of litlar.“ Sigrún ákvað svo að búa til ítarlegan bækling fyrir byrjendur sem áhugasamir geta nálgast hjá henni, en hún vonast til að hann geti hjálpað fólki að taka sín fyrstu skref.

„Það fylgir því kostnaður að reka lánspakkana, og þar sem það kostar ekkert að fá þá lánaða þarf að finna aðrar leiðir til að fjármagna bæði viðhald og kaup á nýjum bleium. Nú er farin af stað söfnun á Karolina Fund þar sem hægt er að styðja við lánspakkana og um leið hjálpa öðrum að prófa umhverfisvænar bleiur,“ segir Sigrún.

En hvað með kúkableiurnar?

Margir reka upp stór augu þegar talið berst að taubleium og geta ekki hugsað sér að standa í slíkum þrifum. Sigrún Edda segir þó að það sé ekki mikið mál að þrífa bleiurnar og alls ekki jafn ógeðugt og margir eflaust gera sér í hugarlund.

„Skítugu bleiurnar fara allar saman í poka inni í herbergi hjá okkur. Það kemur ekki mikil lykt af bleiunum og þess vegna þurfa þær ekki að vera inni í þvottahúsi. Svo bara hellir maður úr pokanum inn í þvottavél. Maður þarf í rauninni ekki að gera neitt, heldur setur þetta bara í vélina í heilu lagi. Ef það eru einhver innlegg í bleiunum detta þau oftast bara úr í þvottavélinni. Það verður þó alltaf að passa að setja forskol, það er nokkuð sem sumir nýliðar klikka á, en það er gert til að skola pissið úr bleiunum áður en þær eru þvegnar. Svo fer þetta á langt 60° prógramm. Það skiptir líka miklu máli að vera með gott þvottaefni til að bleiurnar fari ekki að lykta og það má alls ekki nota mýkingarefni í þær, því þá verða þær vatnsheldar,“ segir Sigrún.

„Þegar börn eru á brjósti, eða drekka bara mjólk og borða graut, fer kúkurinn bara með í þvottavélina og skolast burt. Þegar þau eru orðin eldri og farin að borða mat eru nokkrar lausnir í boði. Það er til dæmis hægt að fá pappírsinnlegg, þá tekur maður pappírinn úr bleiunni og hendir þessu í ruslið eins og maður myndi gera við bréfbleiu. Þetta er oftast hríspappír, sem brotnar niður í náttúrunni. Sumir eru með flísrenninga sem þeir setja inn í bleiurnar og annaðhvort er hægt að hrista kúkinn ofan í klósettið eða skola hann af. Við notum ekki neitt, við bara hristum kúkinn ofan í klósettið. Svo fer bleian í þvott. Ef ekkert er að og börnin eru með góða meltingu er þetta ekkert mál,“ segir Sigrún Edda.

„Fólk er oft með fordóma og heldur að þetta sé meira mál en það er. Þegar maður er búinn að koma sér inn í þetta og er með bleiur sem virka er þetta ekkert mál. Það hafa líka margir lent í því að kaupa ódýrar bleiur frá Kína sem eru mjög misjafnar að gæðum. Sumar eru fínar en aðrar eru óttalegt drasl sem lekur. Þá á fólk til að gefast upp,“ segir Sigrún Edda í lokin, og áréttar að hægt sé að byrja að nota taubleiur hvenær sem er. Hvort sem barnið er nýkomið í heiminn eða orðið eldra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert