Hanna Kristín og Sindri eiga von á barni

Sindri Aron Viktorsson og Hanna Kristín Skaftadóttir eiga von á …
Sindri Aron Viktorsson og Hanna Kristín Skaftadóttir eiga von á barni.

Hanna Kristín Skaftadóttir og Sindri Aron Viktorsson eiga von á stúlkubarni. Hjónin eru búsett í Bandaríkjunum. Hjónin eiga þrjá drengi fyrir með fyrri mökum, hún tvo og hann einn.

Hvernig hefur þér liðið á meðgöngunni?

„Eins og oft er á fyrstu vikum/mánuðum þá var talsverð ógleði og þreyta í upphafi. En um leið og það fór að skána fór ég að hreyfa mig eins og ég er almennt vön að gera; lyfta lóðum og gera þolæfingar. Það hefur hjálpað mjög mikið við að sporna við þreytu og styrkja líkamann. Núna er ég komin 19 vikur og líður ansi vel og orkan öll að koma aftur,“ segir hún. 

Hvernig varð þér við þegar þú áttaðir þig á að þú ættir von á stelpu?

„Auðvitað bara dásamlega. Þar sem ég á tvo drengi fyrir þá hálfpartinn bjóst ég við að þetta yrði líka strákur en kom skemmtilega á óvart að þetta væri stelpa. Hér í Bandaríkjunum var okkur boðið á spítalanum að fá að vita kyn barnsins á 10. viku og við þáðum það. Það var svolítið öðruvísi upplifun að fá að vita kynið gegnum að tekin hafi verið blóðprufa og síðan í kjölfarið hringt og sagt frá kyninu. Á fyrri meðgöngum hafði ég farið í sónar og þá hreinlega sást skýrt í bæði skiptin hjá mér að ég gengi með stráka.“

Hér eru þau Hanna Kristín og Sindri ásamt sonum hennar …
Hér eru þau Hanna Kristín og Sindri ásamt sonum hennar tveimur.

Áttu eftir að tapa þér í að kaupa kjóla og stelpuföt?

„Ég viðurkenni fúslega að ég er hrikalega spennt að fá að kynnast því að eiga stelpu en hef þó verið frekar róleg þegar kemur að því að sanka að mér fötum. Það er farið að kitla að skoða fallega kjóla og það verður gaman að fá að setja fléttur og balletthnút í hárið. Ég hef sjálf alltaf verið mjög stelpuleg svo það var mjög framandi fyrir mig að kynnast því að ala upp tvo stráka og hreinlega varla skilja út á hvað „strákaleikir“ ganga. En hefur verið alveg ótrúlega skemmtilegt og ég hef verið að fíla mig í botn sem strákamamma, svo fær maður nýtt ævintýri með því að fá litla stelpu í þennan hrútahóp sem ég er með.“

Hanna Kristín og Sindri búa um það bil tvo klukkutíma frá Boston í Bandaríkjunum. Hún er spurð að því hvernig líf þeirra sé öðruvísi í Bandaríkjunum, meðal annars vegna meira vinnuálags þar en hér heima. 

„Við búum í bæ sem heitir Hanover. Þetta er lítið samfélag sem að stórum hluta snýr að spítalanum og háskólasamfélaginu sem er hér. Maðurinn minn starfar á skurðlæknasviði Dartmouth-Hitchcock-spítalans svo hann er að vinna langar vaktir, talsvert meira vinnuálag en var á honum á Íslandi. Ég rek svo Poppins & Partners, fyrirtæki okkar Þórunnar Jónsdóttur héðan, sem er skemmtileg áskorun með stóran viðskiptavinahóp staðsettan á Íslandi.

Það kom okkur Sindra ánægjulega á óvart þegar við fluttum hingað hvað fólk hér er meðvitað um heilsu og heilbrigðan lífsstíl. Hér stunda langflestir íþróttir eða tvær og mikið er lagt upp úr heilbrigðu mataræði hjá fólki á öllum aldri. Konur á níræðsaldri víla ekki fyrir sér að mæta í lyftingatíma í gymminu.

Krakkarnir hér virðast flestir stunda íþróttir af kappi og varla þekkist að krakkar á grunnskólaaldri eigi snjallsíma. Þess í stað eru börn mikið í íþróttum og úti að leika sér. Börnum er kennt mikið um náttúruna og samspil mannsins við náttúruna og hvernig megi hugsa vel um umhverfi sitt. 

Svo hefur komið mér verulega á óvart hvað heilbrigðisþjónustan er góð hér á meðgöngunni. Set þó þann fyrirvara að við erum með góða sjúkratryggingu á spítalanum en sú þjónusta sem við höfum þurft að nýta er til fyrirmyndar,“ segir Hanna Kristín. 

Hvað ætlar þú að gera öðruvísi á þessari meðgöngu en á hinum tveimur?

„Ekki spurning: hreyfa mig eins lengi og mikið og heilsan leyfir. Hef verið í æfingaprógrammi hjá Fitsuccess.is sem hefur styrkt mig mikið líkamlega og er hreinlega svo skemmtilegt að ég tími ekki að hætta. Ótrúleg breyting sem hefur orðið á hreysti hjá mér eftir að ég fór eftir ráðum Katrínar Evu hjá FitSuccess og byrjaði að lyfta lóðum. Ég myndi tvímælalaust segja að ég sé hraustari nú en á fyrri meðgöngum og langar að halda  því þannig. 

En annars almennt finnst mér ég áhyggjulausari gagnvart öllu sem tengist meðgöngunni núna en áður. Sindri, eiginmaðurinn minn, er alveg sérstaklega hugulsamur og duglegur við að passa upp á að allt sé þannig að mér geti liðið sem allra best á meðgöngunni.  Svo ég ætla umfram allt núna að njóta þess að vera ólétt. Það er auðvitað yndislegur tími,“ segir hún. 

Synir Hönnu Kristínar kunna vel við sig í Bandaríkjunum.
Synir Hönnu Kristínar kunna vel við sig í Bandaríkjunum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert