„Brjóstagjöfin hefur sannarlega tekið á andlegu hliðina“

Anna Bergmann og sonur hennar, Máni. Anna starfar sem samfélagsmiðlafulltrúi …
Anna Bergmann og sonur hennar, Máni. Anna starfar sem samfélagsmiðlafulltrúi hjá auglýsingastofunni Pipar/TBWA, en þess á milli bloggar hún á Trendnet.is. Ljósmynd/Hlín Arngrímsdóttir

Bloggarinn og samfélagsmiðlafulltrúinn Anna Bergmann kynntist kærasta sínum, Atla Bjarnasyni sumarið 2019 þegar hún kom í stutta heimsókn til Íslands. Á þeim tíma var hún búsett í Mílanó á Ítalíu þar sem hún stundaði nám. Það má segja að hittingur þeirra hafi verið skrifaður í skýin, en nú þrem árum síðar búa þau saman í snoturri íbúð í Vesturbænum ásamt sex mánaða gömlum syni þeirra, Mána og börnum Atla, þeim Breka, 9 ára og Sunnu, 17 ára. Anna segir móðurhlutverkið vera dásamlegt, en hún upplifði þó erfiða meðgöngu og fæðingu sem gekk ekki áfallalaust fyrir sig.

Fjölskyldan saman í sólinni. Atli á fyrir tvö börn, þau …
Fjölskyldan saman í sólinni. Atli á fyrir tvö börn, þau Breka og Sunnu. Á myndina vantar hundinn Emmu, sem Anna segir í raun vera fjórða barn þeirra.

„Mér þótti yndislegt en jafnframt erfitt að vera ólétt,“ segir Anna, en það kom henni á óvart hve erfitt það reyndist henni að upplifa sig með litla sem enga stjórn á líkama sínum. „Ég fékk sýkingu í nýrun og var svo greind með háþrýsting og meðgöngueitrun á lokametrunum.“

Send í bráðaaðgerð eftir fæðingu

Þegar Anna var gengin rúmar 39 vikur var hún gagnsett, en hún segir gangsetninguna hafa farið ansi hægt af stað. „Takmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins gerðu það að verkum að Atli mátti ekki vera viðstaddur fyrr en virk fæðing fór af stað. Vatnið fór sólahring eftir gangsetningu og þá fékk ég leyfi til þess að hringja í Atla,“ útskýrir Anna. Henni var ráðlagt að þiggja mænudeyfingu vegna blóðþrýstings, sem hún segir hafa reynst sér mjög vel. „Sextán klukkutímum síðar var ég komin í fulla útvíkkun og þá var kominn tími á að rembast.“

Máni kom í heiminn tveimur tímum síðar og segir Anna fæðinguna hafa gengið að mestu vel. „Rétt eins og meðgangan þá gekk fæðingin ekki áfallalaust fyrir sig, en þegar Máni var um þriggja klukkustunda gamall var ég send í bráðaaðgerð. Legið dró sig ekki nóg saman sem varð til þess að það blæddi inn á það,“ útskýrir Anna. „Ég var þó fljót að jafna mig og bæði Máni og Atli stóðu sig eins og hetjur, en við fjölskyldan fengum að fara heim tveimur dögum síðar.“

Ljósmynd/Hlín Arngrímsdóttir

Minni svefn og meira af bleyjum

Þrátt fyrir erfiðleikana þótti Önnu dásamlegt að vera ólétt og er þakklát fyrir að hafa gengið með barn, enda segist hún aldrei hafa upplifað aðra eins ást. „Það að finna fyrir prinsinum okkar hnoðast í bumbunni er einfaldlega besta upplifun í heimi,“ segir hún. „Lífið hefur breyst mikið eftir að ég varð mamma. Minni svefn, rútínuleysi og mikið af bleyjum einkennir lífið þessa stundina.“

Þó móðurhlutverkið hafi gjörbreytt lífi Önnu kom það henni að óvart hve fljót hún var að aðlagast nýja lífinu með Mána. „Þrátt fyrir svefnleysi sumar nætur þá venst það ótrúlega hratt. Við tökum eitt skref í einu og við erum loksins að komast í góða rútínu hvað varðar svefn og brjósta- og pelagjafir,“ segir Anna. 

Mæðginin í sólinni á Spáni.
Mæðginin í sólinni á Spáni.

Hafði ekki hugmynd um hvað brjóstagjöf væri bindandi

Anna segir brjóstagjöfina hafa gengið almennt vel, en það hafi sannarlega tekið á andlegu hliðina að þurfa að gefa brjóst á tveggja tíma fresti. „Ég hafði ekki hugmynd um hvað brjóstagjöf er bindandi. Það hefur verið erfitt að komast út barnlaus án þess að plana vel. Ég er nýhætt að gefa Mána brjóst og fær hann því pela á daginn ásamt graut og öðrum mat. Það er líklega ein besta ákvörðun sem ég hef tekið,“ segir anna. Hún vonar að pressan tengd brjóstagjöf muni minnka. „Þegar allt kemur til alls þá er það mikilvægasta að barnið fái næringu, hvort sem það er úr brjósti eða pela.“

„Það sagði mér líka enginn hvað það tekur langan tíma að fara út úr húsi þegar lítið kríli er með í för. Það má alveg gera ráð fyrir auka klukkutíma í undirbúning. Ég og Máni erum alltaf sein hvert sem við förum, en við erum hægt og rólega að læra á hvort annað og ég tel mér trú um að einn góðan veðurdag verðum við á réttum tíma,“ segir Anna og hlær. 

„Það er einfaldlega ekkert betra en að horfa á ungann …
„Það er einfaldlega ekkert betra en að horfa á ungann sinn vaxa og dafna,“ segir Anna. Ljósmynd/Hlín Arngrímsdóttir

„Ekki gleyma sjálfri þér“

Í öllum asanum segir Anna það afar mikilvægt að huga að sjálfum sér og sambandinu. „Ekki gleyma sjálfri þér og ekki gleyma sambandinu við makann þinn. Það er svo mikilvægt að rækta hvoru tveggja og standa saman á þessum mikilvæga og krefjandi tíma. Mér finnst mjög mikilvægt að setja mig í fyrsta sæti af og til með því að fara ein út með hundinn, fara í búðina, hitta vinkonur eða einfaldlega setja á mig maska og leyfa Atla að sjá um litla á meðan. Hamingjusöm mamma, hamingjusamt barn eins og einhver vitur sagði,“ segir Anna. 

Atli og Anna eru dugleg að fara saman á stefnumót …
Atli og Anna eru dugleg að fara saman á stefnumót og fá pössun fyrir Mána á meðan. „Það hefur reynst okkur mjög vel og ég hugsa að það eigi bara eftir að hjálpa í framtíðinni að máni sé vanur því að vera í pössun.“

Að lokum er Anna með nokkur heilræði fyrir verðandi foreldra. „Ég mæli með því að eiga góða þvottavél. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég set í vél á dag. Þar að auki finnst mér mikilvægt að hafa það hugfast að biðja um hjálp þegar þess þarf. Ekki vera hrædd/ur við það,“ segir Anna. 

Máni stillir sér upp í myndatöku.
Máni stillir sér upp í myndatöku. Ljósmynd/Hlín Arngrímsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert