„Maður er svo mikilvægur þarna, en á sama tíma svo gagnslaus“

Hjónin Gunnar Steinn og Elísabet ásamt börnum sínum Ölbu Mist …
Hjónin Gunnar Steinn og Elísabet ásamt börnum sínum Ölbu Mist og Gunnari Manuel.

Handboltamaðurinn Gunnar Steinn Jónsson hefur síðustu 12 ár leikið með liðum víða um Evrópu, en hann segir atvinnumennskuna sannarlega hafa haft mikil áhrif á fjölskyldulífið. Eftir áralanga búsetu erlendis og mikið flakk milli landa hefur fjölskyldan nú flutt aftur heim til Íslands og komið sér vel fyrir í dásamlegu húsi í Skerjafirði. Þar bíða þau spennt eftir haustinu, en í október á Gunnar von á sínu þriðja barni með eiginkonu sinni, tískubloggaranum Elísabetu Gunnarsdóttur. 

Við fengum að skyggnast inn í fjölskyldulíf handboltakappans sem er með marga bolta á lofti, en hann er aðstoðarþjálfari í Stjörnunni og eigandi Sjöstrand á Íslandi. „Lífið þessa dagana er einfaldlega fjölskyldan, handbolti og kaffi,“ segir Gunnar sem ræddi meðal annars um föðurhlutverkið, atvinnumennskuna og upplifunina að vera á hliðarlínunni í fæðingu barna sinna á einlægan hátt. 

„Við Elísabet uxum í sömu átt“

Fyrstu kynni Gunnars og Elísabetar voru í grunnskóla, en það er óhætt að segja að ástarsaga þeirra minni helst á rómantíska bíómynd. „Við eigum minningar frá því að vera ítrekað skömmuð í enskutíma þar sem við sátum saman og höfðum greinilega mikið að tala um. Við vorum fyrst vinir í nokkur ár áður en við urðum kærustupar í kringum 16 ára aldurinn,“ segir Gunnar. „Mörg ung pör vaxa hvort í sína áttina, en við Elísabet uxum í sömu átt og erum bestu vinir og alltaf jafn ástfangin.“

Í dag hafa Gunnar og Elísabet búið til fallegt líf saman, enda standa þau þétt við bakið á hvort öðru, í gegnum súrt og sætt. Fyrir eiga þau dótturina Ölbu Mist, 13 ára og soninn Gunnar Manuel, 6 ára, en í október stækkar svo þegar lítil systir mætir í heiminn. 

„Það sem kom kannski mest á óvart við föðurhlutverkið var þessi nýja tilfinning sem skapast. Hjartað stækkar, þú færð einhverja ást og væntumþykju sem þú hefur ekki fundið fyrir áður, bæði til barnanna og frá þeim. Síðan bætast líka við ýmsar áhyggjur samhliða sem ekki voru til áður,“ útskýrir Gunnar. 

Föðurhlutverkið á vel við Gunnar, en hann segir það vera …
Föðurhlutverkið á vel við Gunnar, en hann segir það vera stórt hlutverk.

„Þetta er svo magnað“

Í október mun Gunnar vera í þriðja sinn á hliðarlínunni í fæðingu. „Ég hef alltaf sagt það við alla mína vini og liðsfélaga sem eiga von á fyrsta barninu sínu að þetta sé ein svakalegasta sem þeir muni upplifa. Þetta er svo magnað, maður er svo mikilvægur þarna en á sama tíma svo gagnslaus. Tilfinningin þegar barnið er síðan komið í heiminn er ólýsanleg,“ segir Gunnar. 

„Ég dáist að minni konu og öllum konum sem ganga í gegnum þetta, þvílíkar hetjur. Þetta er náttúrulega algjört kraftaverk. Ég get kannski deilt því að mér hefur oft fundist erfitt að átta mig almennilega á stöðunni fyrr en ég sit bara á spítalanum með barnið í höndunum,“ segir Gunnar. „Konurnar finna fyrir og tengjast barninu á meðgöngunni á meðan við karlarnir kannski áttum okkur ekki almennilega á stöðunni og fáum ekki þessa tenginu.“

Elísabet ásamt Gunnari Manuel og Ölbu Mist.
Elísabet ásamt Gunnari Manuel og Ölbu Mist.

Lífið sveiflast með boltanum

Gunnar hefur leikið með liðum víða um Evrópu og alltaf hefur fjölskyldan flutt með honum. Þau bjuggu í Svíþjóð, Frakklandi, Þýskalandi og Danmörku.

„Í þessi ár sem atvinnumaður þá snerist fjölskyldulífið að stórum hluta um þennan litla bolta sem ég er að leika mér með. Elísabet og börnin eru mínir allra helstu stuðningsmenn og ég er ótrúlega þakklátur fyrir það. Elísabet mætir á alla leiki sem hún getur og tekur börnin með, hún hefur einnig verið hvetjandi í ýmsum félagaskiptum þó svo það þýði mikið rót fyrir fjölskylduna,“ segir Gunnar.

„Það er ótrúlegt hvað allt lífið sveiflast með tap- og sigurleikjum, persónulegri velgengni og erfiðari tímum. Maður hefur alltaf talað um að láta ekki árangur á vellinum hafa áhrif á lífið heima, en ég hef lært að það er alveg ómögulegt,“ útskýrir Gunnar.  

„Elísabet hefur verið algjör klettur á þessum atvinnumannaárum og hefur …
„Elísabet hefur verið algjör klettur á þessum atvinnumannaárum og hefur alltaf trú á sínum manni,“ segir Gunnar.

Þegar elsta dóttir hjónanna, Alba Mist var þriggja mánaða gömul flutti fjölskyldan fyrst til útlanda. „Hún hefur fylgt okkur allt ferðalagið og farið í leikskóla í Svíþjóð og Þýskalandi, og síðar í skóla í Frakklandi, Þýskalandi, Svíþjóð og nú loks á Íslandi,“ segir Gunnar. Sonur þeirra, Gunnar Manuel, fæddist svo í Þýskalandi. „Hann fór í leikskóla í Svíþjóð og Danmörku áður en hann fór á íslenskan leikskóla. Þetta voru því ekki beint hefðbundin fyrstu ár hjá börnunum okkar.“

Gunnar segir flutningana milli landa hafa styrkt fjölskylduna og að þeim hafi liðið vel á öllum stöðum. „Við höfum talað um það að okkur fjölskyldunni líður vel svo lengi sem við eru saman og þá skiptir ekki endilega máli hvar við erum. Okkur leið mjög vel í Svíþjóð og Danmörku og þar er lífið líkt því sem við þekkjum á Íslandi. Þýskaland var líka mjög fínt og Frakkland var mesta upplifunin, en á sama tíma mestu útlöndin,“ segir Gunnar. 

Fjölskyldan á brúðkaupsdegi Gunnars og Elísabetar, en þau giftu sig …
Fjölskyldan á brúðkaupsdegi Gunnars og Elísabetar, en þau giftu sig sumarið 2018.

„Við erum ótrúlega þakklát fyrir þessi ár erlendis og krakkarnir hafa ótrúlega aðlögunarhæfni þó svo að fyrstu skrefin í nýju landi geti alltaf verið erfið. Þessi ár hafa þjappað okkur saman sem fjölskyldu og við höfum öll öðlast lífsreynslu sem ekki allir fá að upplifa,“ segir Gunnar. 

Nýr og spennandi kafli á Íslandi

„Það var þó kominn tími á smá stöðugleika í lífi barnanna og því var þetta ágætis tímasetning að taka skrefið og flytja til Íslands,“ segir hann. Það er margt spennandi framundan hjá fjölskyldunni. „Við höldum þessu lífi áfram, með nokkra bolta á lofti í eigin rekstri og boltafjöri.“

Það kemur líklega engum á óvart að börn Gunnars hafi smitast af boltabakteríu hans. „Alba er orðin handboltastjarna í Val og Gunnar Manuel fer á handboltaæfingar hjá Val og fótboltaæfingar hjá KR,“ segir hann. 

Kaffiástin leynir sér ekki hjá Gunnari, en auk þess að vera eigandi Sjöstrand á Íslandi situr hann í stjórn Sjöstrand og hjálpar þeim að vaxa á alþjóðavísu. „Sjöstrand á Íslandi hefur verið að vaxa jafnt og þétt og nýlega opnuðum við verslun að Hólmaslóð 4. Við erum að stækka hratt og komin með fleiri og fleiri flott íslensk fyrirtæki í Sjöstrand fjölskylduna,“ segir Gunnar. 

Sundlaugarnar það besta við Ísland

Þó mikið sé um að vera hjá hjónunum reyna þau þó að gefa sér tíma til að slaka á inn á milli. „Við förum mikið í sund, það er það besta við að vera komin til Íslands. Sem betur fer má ekki vera með síma í sundi og þetta er okkar næring. Síðan horfum við stundum á þætti þegar tími gefst,“ segir Gunnar. 

„Fyrir utan það er margt í gangi hjá okkur og við slökum bara alls ekki mikið á. Það er kannski líka einn helsti munurinn á því að vera fluttur heim, en búandi erlendis þá gefst meiri tími til afslöppunar og rólegri stunda með fjölskyldunni. Við þurfum að finna betri takt þar og erum vonandi á réttri leið,“ segir hann. 

„Nú bíðum við spennt eftir því að taka á móti nýjum fjölskyldumeðlimi sem beðið er eftir með mikilli eftirvæntingu. Það er því mikið líf og fjör framundan og slökunin bíður betri tíma – en við höldum áfram að mæta í sund,“ segir Gunnar og hlær. 

mbl.is