Líkir fjölskylduaðstæðum í æsku við sértrúarsöfnuð

Leikkonan Maisie Williams.
Leikkonan Maisie Williams. AFP

Game of Thrones-leikkonan Maisie Williams opnaði sig á dögunum um erfiða og sársaukafulla æsku sína sem hún segir hafa verið knúna áfram af hryllilegri hegðun föður síns. 

„Sem ungt barn, fyrir átta ára aldur, átti ég í ömurlegu sambandi við föður minn. Sambandið tók í raun yfir æsku mína. Frá því ég man eftir mér átti ég mjög erfitt með að sofa. Ég lenti í mörgum áföllum og ég áttaði mig ekki á því að það sem var að gerast væri rangt,“ sagði Williams í hlaðvarpinu The Diary of a CEO. 

Fjarlægðist jafnaldra sína

Leikkonan segist hafa fjarlægst jafnaldra sína vegna slæmrar reynslu sinnar af föður sínum. „Ég leit í kringum mig á önnur börn og velti fyrir mér: „Hvers vegna skilja þau ekki þennan sársauka og ótta? Hvenær mun ég upplifa gleði?““ útskýrði leikkonan. 

Williams fór ekki út í smáatriði eða sérstaka atburði í kringum föður sinn því hún sagði það myndu hafa áhrif á systkini sín og alla fjölskylduna. Hún sagði þó frá því að móðir hennar hefði náð að flýja frá föður hennar þegar leikkonan var aðeins fjögurra mánaða. 

Erfitt en gott að komast frá föður sínum

Í hlaðvarpinu lýsir leikkonan því þegar kennari hennar fór að spyrja hana út í fjölskyldulífið, og hvort hún fengi að borða á morgnana. „Ég sagði nei, því við fengum bara engan morgunmat,“ segir Williams. 

Williams lýsti deginum sem hún komst frá föður sínum sem erfiðum en á sama tíma verulega góðum. Hún líkti fjölskylduaðstæðum sínum í æsku við sértrúarsöfnuð, en segir sjónarhorn sitt á föður sinn og æsku hafa breyst í dag og sig langi til að hætta að taka hluti sem gerðust í lífi hennar persónulega. 

mbl.is