402 börn fæðst í Síðumúla

Arney Þórarinsdóttir er ljósmóðir og annar eigandi Bjarkarinnar. Á myndinni …
Arney Þórarinsdóttir er ljósmóðir og annar eigandi Bjarkarinnar. Á myndinni sést hvernig ljósmóðir Bjarkarinnar aðstoðar konu í gegnum hríðaverki. Samsett mynd

Á undanförnum árum hafa vinsældir fæðinga utan spítala aukist mikið. Það sést best á tölum frá Björkinni, sem ljósmæðurnar Arney Þórarinsdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir reka, en frá því fæðingarstofan í Síðumúla opnaði árið 2017 hafa þar fæðst 402 börn. 

Björkin var stofnuð árið 2009 af níu metnaðargjörnum ljósmæðrum en þær Arney og Hrafnhildur reka hana í dag. Þær útskrifuðust úr ljósmæðranámi skömmu eftir bankahrunið 2008 og því lítið um ráðningar í heilbrigðisgeiranum á þeim tíma. Þessar kláru og metnaðarfullu konu sátu ekki auðum höndum þrátt fyrir erfiða tíma, þær þróuðu námskeið tengd meðgöngu og fæðingu, sinntu heimafæðingum og stofnuðu Björkina í framhaldi af því.

Blaðamaður ræddi við Arneyju og fékk að heyra aðeins um starfsemi Bjarkarinnar, auknar vinsældir heimafæðinga og lífið sem ljósmóðir. 

Hér má sjá hvernig aðstandandi heldur þétt og örugglega utan …
Hér má sjá hvernig aðstandandi heldur þétt og örugglega utan konu í fæðingu.

Fæðingarheimili alltaf á planinu

Síðan starfsemin hófst hefur þjónusta Bjarkarinnar vaxið ásamt skjólstæðingahópnum enda er eftirspurnin mikil. Björkin er valkostur margra verðandi mæðra, hvort sem þær kjósa að fæða heima eða í einni af tveimur fæðingarstofum þeirra í Síðumúlanum.

„Við byrjuðum á að vera með fæðingarundirbúningsnámskeið árið 2009. Síðan tókum við á móti fyrsta barninu í heimafæðingu um það bil einu ári síðar eða í apríl 2010,“ segir Arney

„Það var samt alltaf á planinu hjá okkur að stofna fæðingarheimili þar sem slíkt hefur ekki verið til á Íslandi síðan fæðingarheimilinu við Eiríksgötu var lokað árið 1996. Við fórum alveg á fullt í að koma þessu upp árið 2015 og það tók okkur tvö ár að koma því á fót. Í maí árið 2017 fæðist fyrsta barnið í Síðumúlanum og eru þau orðin 402.“

Ljósmóðir Bjarkarinnar með eitt af þeim fjölmörgu börnum sem þær …
Ljósmóðir Bjarkarinnar með eitt af þeim fjölmörgu börnum sem þær hafa aðstoðað í heiminn.

Hlý hefð 

Fyrir mörgum eru kerti mjög táknræn og geta þau staðið fyrir öryggi, hlýju, von og nýtt upphaf. Ljósmæður Bjarkarinnar eru búnar að koma sér upp mjög fallegri og hlýrri hefði í Síðumúlanum sem margir vita ef til vill ekki af.

„Það eru eflaust margir sem vita ekki að það eru börn að fæðast mjög reglulega hjá okkur í Síðumúlanum. Þegar það er fæðing hjá okkur þá setjum við kertalukt fyrir utan dyrnar hjá okkur og hún táknar að þá er fæðing í gangi eða nýfætt barn fyrir innan. Það er merki um að það sé eitthvað í gangi í húsinu.“

Fæðingum utan spítala fjölgað mikið

Frá stofnun Bjarkarinnar hefur ýmislegt breyst þegar kemur að fæðingum en það sem Arney hefur helst tekið eftir er það að heimafæðingum fjölgaði í kjölfar kórónuveirunnar

„Heimafæðingum fjölgaði í kringum 2010, 2011, 2012 en svo varð mikil aukning í kringum 2020 eða þegar kórónuveirufaraldurinn geisaði og sú aukning hefur haldið sér,“ samkvæmt Arneyju. 

Huggulegt andrúmsloft í kjölfar fæðingar í Björkinni.
Huggulegt andrúmsloft í kjölfar fæðingar í Björkinni.

„Við í Björkinni erum að sinna hátt í helmingi af öllum heimafæðingum svona samhliða fæðingarheimilinu. Þannig að það sem hefur gerst við opnun fæðingarheimilisins er það að fæðingum utan spítala, sem eru þá heimafæðingar og á fæðingarheimilum eru komnar yfir 5% og er það bara frekar mikið ef við horfum á önnur Norðurlönd.“

Ein af fæðingarstofum Bjarkarinnar.
Ein af fæðingarstofum Bjarkarinnar.

„Það er heimilisbragur yfir öllu“

Það eru heilmargir kostir við heimafæðingu og fæðingu á fæðingarheimili og kjósa því margir að fæða í umhverfi sem er þeim kunn og róandi. Slíkar fæðingar gefa einnig fæðandi konum meiri stjórn á eigin fæðingarupplifun og leiða einnig til færri inngripa. Það er þó ekki valkostur fyrir allar ófrískar konur. 

„Við erum bara að sinna hraustur konum, í eðlilegri meðgöngu þar sem engir áhættuþættir eru til staðar. En það sem heillar flesta við að fæða heima eða á fæðingarheimilum er umhverfið. Heima ertu bara í þínu umhverfi, þar sem þér líður yfirleitt best og á fæðingarheimilinu eru konurnar búnar að vera að koma til okkar reglulega í mæðraskoðanir og búnar að kynnast umhverfinu og okkur og geta því leyft sér að láta eins og heima hjá sér,“ segir Arney.

„Við leggjum mikla áherslu á að umhverfið hjá okkur sé hlýlegt og notalegt, þannig að verðandi foreldrum líði vel hjá okkur. Það er heimilisbragur yfir öllu. Við erum sjö ljósmæður og flestar okkar hafa verið að í mörg ár og því komin gríðarleg reynsla í að sinna fæðingum utan spítala. Hjá Björkinni er það þessi samfellda þjónusta sem er í boði, hvort sem er á fæðingarheimilinu eða í heimafæðingu. Þú kynnist ljósmóðir eða ljósmæðrum sem koma til með að vera með í fæðingunni, þú kynnist þeim á meðgöngunni, þær eru svo með í fæðingunni og svo eftir fæðingu.“

Fæðandi kona fær hjálplegan stuðning frá maka sínum.
Fæðandi kona fær hjálplegan stuðning frá maka sínum.

Góður stuðningur er nauðsynlegur

Arney segist ekki hafa orðið vör við nýjar áherslur eða strauma þegar kemur að meðgöngu eða fæðingu en að það sé alltaf ómissandi að hafa sterkan liðsfélaga sér við hlið í fæðingunni.

„Góður stuðningur, hvort sem það er maki eða annar, systir, móðir. Bara einhver sem konan þekkir vel og treystir. Það skiptir mestu máli.“

Hún tekur einnig fram að það skipti miklu máli að leyfa fæðingunni að hafa sinn gang, „konur eru bara orðnar meðvitaðar um að það sé ekki verið að grípa inn í og gera einhverja hluti að óþörfu. Áherslan er bara alltaf sú sama, passa að móður og barni líði vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert