„Nú horfi ég á þessi slit sem listaverk“

Hin 24 ára gamla Hannah Davíðsdóttir á tvær dætur með …
Hin 24 ára gamla Hannah Davíðsdóttir á tvær dætur með eiginmanni sínum, Gerald Brimi Einarssyni. Samsett mynd

Hannah Davíðsdóttir var aðeins 19 ára gömul þegar hún varð ófrísk að sínu fyrsta barni. Þó það hafi verið langþráður draumur hennar að verða móðir reyndist meðgangan erfið andlega. Hún átti erfitt með að sætta sig við breytingar á líkama sínun, þyngdaraukningu og slit sem fylgdu því að ganga með barn.

Í dag er Hannah 24 ára gömul og á tvær dætur, þær Snædísi Hebu sem er 4 ára og Eldey Tönju sem er eins árs, með eiginmanni sínum, Gerald Brimi Einarssyni. Hannah segir lífið hafa breyst til hins betra eftir að hún varð móðir enda líði henni eins og hún sé fædd í hlutverkið. 

„Mig langar helst bara í 10 börn, en ég á eftir að sannfæra manninn minn um það,“ segir Hannah og hlær. 

Hannah hefur brennandi áhuga á öllu sem tengist uppeldi barna, en hún stundar nám í þroskaþjálfafræði við Háskóla Íslands. Síðastliðin fimm ár hefur hún starfað með börnum sem glíma við fjölþættan vanda og segir það hafa kveikt á áhuga sínum. Heilsa og hreyfing spila einnig stóran þátt í lífi Hönnuh sem setur heilsuna, jafnt andlega sem líkamlega, alltaf í forgang. 

„Það hefur verið mitt mottó í lífinu að muna að …
„Það hefur verið mitt mottó í lífinu að muna að setja súrefnisgrímuna á mig áður en ég ætla að sjá um aðra,“ segir Hannah og bætir við að hún finni mikinn mun á sér í móðurhlutverkinu, hjónabandinu og starfi þegar hún setur sjálfa sig í forgang.

Flutti aftur heim og fann ástina

Hannah og Gerald kynntust á grunnskólaaldri þegar Hannah var pössunarpía fyrir eldri systur Geralds. Það var þó ekki fyrr en árið 2016 sem samband þeirra fór að þróast. 

„Gerald sendi skilaboð á vinkonu mína, sem hafði birt mynd af mér á Snapchat, þar sem hann tjáði henni að hann ætlaði sér að giftast mér,“ segir Hannah. 

Á þeim tíma bjó Hannah í Bretlandi þar sem hún stundaði nám í lögreglufræði, en hún ætlaði sér að verða rannsóknarlögregla. 

„Ég missti allan áhuga á því þegar ég varð mamma,“ útskýrir Hannah og bætir við vinnutíminn og álagið hafi ekki heillað sig. 

„Fljótlega urðum við ástfangin og það var ekkert annað sem kom til greina en að flytja heim til þess að láta reyna á sambandið og raunverulega sjá hvert það gæti farið. Síðan þá höfum við aldrei litið til baka og síðustu ár hafa farið fram úr öllum væntingum,“ segir hún.

Falleg mynd úr brúðkaupi Hönnuh og Geralds, en þau gengu …
Falleg mynd úr brúðkaupi Hönnuh og Geralds, en þau gengu í það heilaga hinn 21. ágúst 2021.

Upplifði fordóma á fyrstu meðgöngunni

Hannah varð ófrísk af sínu fyrsta barni þegar hún var 19 ára gömul, en hún segist hafa upplifað fordóma yfir því að vera svona ung móðir. „Við höfðum verið að reyna í nokkra mánuði þegar hún kom undir. Ég hef alltaf viljað vera mamma og vissi frá 5 ára aldri hvað ég vildi skíra barnið mitt,“ segir hún.

„Meðgangan gekk vel læknisfræðilega, en það var mjög krefjandi andlega að takast á við allar þær líkamlegu breytingar sem eiga sér stað á meðgöngu. Ég þyngdist töluvert og fékk mikið af slitum sem ég var lengi að sætta mig við, en nú horfi ég á þessi slit sem listaverk sem fylgja mér út ævina og eru áminning um að ég hafi fengið að ganga með dóttur mína,“ útskýrir Hannah.

Hún var gengin 42 vikur þegar hún var send í gangsetningu og viðurkennir að lokametrarnir hafi verið mjög erfiðir.

 „Það var mun erfiðara en ég bjóst við að þurfa að bíða svona eftir barni sem ég var bara búin að búast við að myndi mæta á settum degi, eða jafnvel fyrr,“ segir hún. 

Hannah átti í fyrstu erfitt með að sætta sig við …
Hannah átti í fyrstu erfitt með að sætta sig við líkamsbreytingarnar sem fylgja meðgöngunni.

„Það kom ekkert þvag en út kom barn“

Aðspurð segir Hannah fæðinguna þó hafa verið mjög erfiða. „Ég hef oft heyrt konur velta því sín á milli hvort gangsetningar séu verri og ég get alveg fullyrt það. Það er himinn og haf á milli þess að fara sjálf af stað og í gangsetningu. Ég man varla eftir fæðingunni vegna þess að það leið yfir mig af sársauka,“ útskýrir hún. 

„Ég bað fljótt um mænudeyfingu sem ég vil meina að sé algjör nauðsyn í gagnsetningum þar sem það er algengt að fá stormhríðar þar sem engin pása er á milli og það er ekki ástand sem nein kona getur dvalið í lengi. Þegar mænudeyfingin var sett upp þá náði ég að hvíla mig í tvær klukkustundir áður en ég byrjaði að finna fyrir óþægindum.“

Þá var Hannah með sjö í útvíkkun, en ljósmóðirin vildi meina að deyfingin hefði klárast. „Ég var beðin um að losa þvag til að sleppa við þvaglegg áður en það yrði fyllt á deyfinguna. Nokkrum mínútum seinna þá er ég öskrandi með rembingsþörf á klósettinu – það kom ekkert þvag en út kom barn,“ segir Hannah og bætir við að það hafi aðeins liðið 11 mínútur frá því hún var með sjö í útvíkkun og þar til hún fékk Snædísi í hendurnar.

Fengu óvæntar fréttir í miðjum brúðkaupsundirbúningi

Hannah og Gerald voru í miðjum brúðkaupsundirbúningi þegar þau komust að því að þau ættu von á öðru barni, en Hannah segir fréttirnar hafa verið mjög óvæntar. 

„Við tilkynntum síðan bumbubúann í athöfninni sem var mikil gleði og allir mjög hissa. Það var örugglega það erfiðasta við alla meðgönguna að halda henni leyndri í 14 vikur frá öllum sem ég hitti daglega,“ útskýrir Hannah.

„Ég var mjög hrædd um að mér yrði óglatt á …
„Ég var mjög hrædd um að mér yrði óglatt á brúðkaupsdaginn en sú meðganga var algjör draumur á alla vegu – ég fann ekki fyrir neinu.“

Hannah lýsir seinni fæðingunni sem algjörum draumi og segist hafa verið búin að undirbúa sig mun betur andlega fyrir líkamsbreytingunum. „Ég fann hvað það breytti miklu að vera með jákvætt hugarfar tengt því,“ segir hún. 

„Ég gekk tvo daga fram yfir með Eldeyju áður en ég missti vatnið heima, en ég var mun rólegri í þetta sinn og var alls ekki að stressa mig á því að hún kæmi strax enda nóg að gera að sjá um Snædísi sem var þá nýorðin 3 ára,“ bætir hún við. 

Aðspurð segir Hannah fæðinguna hafa gengið eins og í sögu. „Ég sagði ljósmæðrunum sem voru með mig að þessar hríðar væru í raun fyrsta óléttueinkennið mitt. Ég hefði í alvöru ekki vitað að ég væri ólétt ef ég hefði ekki verið með þessa kúlu framan á mér,“ segir Hannah og hlær. Hún segist ekki hafa rifnað í seinni fæðingunni og þakkar spangarolíu fyrir það. 

„Vegna heimsfaraldursins vorum við hjónin bara ein í fæðingunni sem …
„Vegna heimsfaraldursins vorum við hjónin bara ein í fæðingunni sem var mjög dýrmæt stund fyrir okkur. Við hlustuðum á lög úr brúðkaupinu okkar og knúsuðumst þar til Eldey kom út.“

Þó fæðingar Hönnuh hafi verið nánast jafn langar og mjög svipaðar á læknisblaði segir hún hugarfar sitt hafa verið gjörólíkt og því hafi hún upplifað þær á ólíkan hátt. 

„Ég var hrædd, stressuð og þreytt í fyrri fæðingunni og líðan mín alls ekki nógu góð á þeim tíma. Í seinni fæðingunni var ég hins vegar róleg, ástfangin og þakklát fyrir hverja hríð sem færði mig nær barninu mínu,“ segir Hannah og ítrekar hve mikilvæg andleg heilsa sé.

„Ég var ennþá að taka dauðar upphífingar á settum degi“

Hannah gat stundað hreyfingu á báðum meðgöngunum þar sem hún upplifði lítið af líkamlegum erfiðleikum.

„Ég var ennþá að taka dauðar upphífingar á settum degi. Það kom mér mest á óvart hvað ég gat mikið. Ég hélt að öll færnin mín myndi hverfa eftir því sem leið á meðgöngurnar en það var alls ekki raunin. Ég fann enn mikinn styrk, ef ekki meiri,“ segir Hannah. Undir lokin var hún þó orðin bjúguð og þreytt í líkamanum en var þá dugleg að fara í sund og göngutúra og þótti það mjög hjálplegt. 

Þegar Snædís var þriggja mánaða byrjaði Hannah að hreyfa sig aftur, en henni þótti mjög erfitt að mæta í ræktina og upplifði mikla vanlíðan. 

„Ég vildi helst ekki að neinn myndi sjá hvað ég hefði þyngst mikið. Ég fann enga löngun til þess að mæta heldur var ég í raun bara að pína mig,“ útskýrir hún.

Sem betur fer stóð það ekki lengi yfir þar sem Hannah áttaði sig fljótt á að það væri miklu mikilvægara að njóta tímans með dóttur sinni og var dugleg að fara í göngutúra.

„Það breytir öllu fyrir mig að byrja daginn rétt“

Eftir seinni fæðinguna fann Hannah fljótt fyrir mikilli löngun að mæta í ræktina. Hún mætti á fyrstu mömmuæfinguna þegar Eldey var aðeins 8 daga gömul. 

„Ég hlustaði á líkamann og byrjaði bara hægt og rólega, en það var bara eins og ég hefði aldrei fætt barn. Ég skil ekki hvernig ég varð svona heppin með þessa meðgöngu og fæðingu, en mér finnst stundum eins og storkur hafi bara mætt með hana,“ segir hún. 

„Við vöknum klukkan sjö og ég fer með Snædísi í …
„Við vöknum klukkan sjö og ég fer með Snædísi í leikskólann. Eftir það labba ég yfir í líkamsræktina og fer með Eldeyju í barnagæsluna. Þar fær hún að leika sér við önnur börn og ég fæ að æfa í friði – algjör snilld fyrir okkur báðar. Eftir æfinguna þá tekur hún fyrsta lúrinn sinn, en þá næ ég að læra og þrífa heimilið.“

Eftir nokkrar vikur af mömmuæfingum var Hannah tilbúin að auka ákefðina. Það tók hins vegar tíma að finna rútínu sem hentaði fjölskyldunni. 

„Ég uppgötvaði svo barnagæsluna sem hefur verið minn bjargvættur í þessu orlofi. Það getur verið mjög krefjandi að búa til rútínu þegar maður er heima með barn en við höfum fundið rútínu sem hentar okkur vel,“ segir Hannah.

Það skiptir Hönnuh miklu máli að huga vel að heilsunni, …
Það skiptir Hönnuh miklu máli að huga vel að heilsunni, en hún er dugleg að mæta á æfingar sem eru mikilvægur partur af rútínu hennar.

Ólíkir karakterar þurfi ólíkar uppeldisaðferðir

Hannah segist elska móðurhlutverkið, enda snúist allt lífið um dætur hennar tvær. „Allt sem ég vil kemur eftir að þær fá það sem þær þurfa. Þá er ég ekki bara að tala um grunnþarfir eins og næringu og hreinlæti heldur skiptir miklu máli að við mætum börnunum okkar á þeirra farvegi og sinnum þeim eftir þeirra þörfum, og eftir okkar bestu getu,“ segir hún. 

Spurð hvað hafi komið henni mest á óvart við móðurhlutverkið segir Hannah það hafa komið sér mest á óvart hvað dætur hennar geta verið ólíkar þrátt fyrir að hafa fengið nákvæmlega sama uppeldið.

„Mér leið eins og ég væri að móta einstaklinginn sem ég fæddi en það er ekki raunin, heldur er hún að móta lífið mitt. Þær eru ótrúlega ólíkar í karakter og þurfa ólíkar uppeldisaðferðir,“ segir Hannah.

„Eldri stelpan mín svaf til dæmis mjög illa sem ungabarn og gerir það enn í dag, en ég var lengi að kenna sjálfri mér um að hafa ekki svefnþjálfað hana nóg og kannski dekrað aðeins of mikið við hana sem ungabarn. En svo hef ég gert allt nákvæmlega eins með yngri stelpuna sem sefur mjög vel,“ útskýrir hún.

Fjölskyldan í myndatöku þegar Hannah var ófrísk af Eldeyju.
Fjölskyldan í myndatöku þegar Hannah var ófrísk af Eldeyju.

Í uppeldinu leggja Hannah og Gerald mikla áherslu á virðingu og að vera meðvituð um að þau séu öll jöfn. „Við búumst aldrei við að þær fylgi okkar fyrirmælum bara því við segjum þeim að gera það heldur viljum við að þær séu forvitnar. Við viljum heyra mótmæli ef þær eru ósáttar því við viljum ala þær upp til að vera sjálfstæðar og ákveðnar,“ segir Hannah.

„Það er mikill kostur að þær eru alls ekki hræddar að láta í sér heyra ef þeim mislíkar eitthvað og ég mun aldrei reyna að þagga niður í þeim heldur hvetja þær til að tala upphátt, láta í sér heyra og sína þeim að þeirra mörk séu virt og gild.“

Fjórfætlingurinn Mandla er fimmti fjölskyldumeðlimurinn, en hún er franskur bolabítur.
Fjórfætlingurinn Mandla er fimmti fjölskyldumeðlimurinn, en hún er franskur bolabítur.
mbl.is