Fann sæðisgjafa á Facebook

Brooke Withington er fimm barna móðir sem eignaðist fjórða barnið …
Brooke Withington er fimm barna móðir sem eignaðist fjórða barnið sitt með hjálp sæðisgjafa af Facebook. Samsett mynd

Kona frá Queensland í Ástralíu hefur opnað sig um það hvernig fjölskylda hennar varð til. Brooke Withington hefur frá því hún var ung stúlka þráð að verða margra barna móðir og búa ásamt börnum sínum í húsi fullu af hávaða, gleði og ást.

Í dag er Withington 28 ára gömul og á stóru fjölskylduna sem hana hafði alltaf dreymt um. Þó að hún gæti vart verið ánægðari með stöðu sína hefur ferðalagið ekki verið alveg eins einfalt og hún ímyndaði sér.

Börn hennar, Edward átta ára, Gilbert sex ára, Odette fjögurra ára og Mabel fjögurra mánaða, komu öll skemmtilega á óvart og voru getin í samböndum sem nú er lokið. Hins vegar kom tæplega tveggja ára gömul dóttir Withington, Nora, í heiminn með hjálp sæðisgjafa sem hún fann á Facebook. 

Dreymdi um að eignast stóra fjölskyldu

Withington vill nú deila sögu sinni í von um að hjálpa öðrum einstæðum mæðrum sem kjósa að stækka fjölskyldu sína einsamlar. „Allt frá því að ég var átta ára gömul vissi ég að ég vildi eignast stóra fjölskyldu. Mig hefur alltaf langað í að minnsta kosti fimm börn. Ég hélt þó auðvitað að ég yrði gift áður en ég myndi hefja barneignir en það gekk ekki eftir. Mér finnst eins og þetta hafi gerst nákvæmlega eins og þetta átti að gerast,“ sagði Withington í samtali við news.com.au.

Eftir að hún eignaðist þriðja barnið sitt vildi hún ekki lengur fara á stefnumót. „Ég var ánægð og hamingjusöm á eigin spýtur en mig langaði samt í fleiri börn. Það var þá sem ég ákvað að ég myndi fara sæðisgjafaleiðina.“

Brooke Withington ásamt börnum sínum.
Brooke Withington ásamt börnum sínum. Skjáskot/Instagram

Leitin á samfélagsmiðlum

Withington skoðaði möguleikann á því að fara í sæðisbankann en hafði þó efasemdir varðandi ferlið. Hún sagðist ekki vera hrifin af þessu dauðhreinsaða umhverfi og vildi helst geta hitt manninn í eigin persónu. Það var þá sem hún ákvað að leita að áströlskum sæðisgjafa á samfélagsmiðlum. „Ég hafði heyrt um facebookhóp sem heitir Sperm Donation Australia eftir að ég eignaðist mitt fyrsta barn,“ útskýrði hún. 

„Eftir að ég fæddi Odette mundi ég eftir þessum upplýsingum sem ég hafði fengið fyrir öllum þessum árum. Þetta hljómaði fullkomið fyrir mig. Mér þótti vænt um að geta lært um gjafann og hitt hann í raun og veru og vitað hvernig persónuleiki hans er.“

Withington skrifaði færslu á síðuna þar sem hún útskýrði aðstæður sínar og skömmu síðar voru nokkrir hugsanlegir gjafar búnir að hafa samband. Í framhaldi valdi hún gjafann. „Þessi gjafi var með facebookhóp með öllum fjölskyldunum sem hann hafði hjálpað. Við getum fylgst með krökkunum og skipulagt uppákomur.“

Ófrísk af fjórða barni sínu eftir tæknisæðingu.
Ófrísk af fjórða barni sínu eftir tæknisæðingu. Skjáskot/Instagram

Tæknisæðing á hótelherbergi

Withington pantaði hótelherbergi og leyfði gjafanum að fara inn á undan og leggja sitt af mörkum. Hún fylgdi síðan fljótt á eftir og framkvæmdi tæknisæðingu með hjálp sprautu. „Ég valdi tæknifrjóvgun þar sem mér fannst ég vera of kvíðin fyrir kynlíf með gjafa. Ég passaði að velja gjafa sem mér fannst auðvelt að spjalla við. Það gerði alla upplifunina svo miklu auðveldari. Ég var liggjandi í um það bil 15 mínútur eftir að sæðinu var komið fyrir.“

Withington var skýjum ofar þegar hún komst að því að tæknifrjóvgunin hefði gengið og að hún væri ólétt að sínu fjórða barni. Hún fæddi dóttur sína, Noru, í maí árið 2021. Hún varð svo ólétt að fimmta barninu þegar Nora var níu mánaða gömul eftir stutt samband. 

Fimm barna móðirin segist gera sér fulla grein fyrir því að ákvörðun hennar sé ef til vill ekki fyrir alla, en í hennar tilfelli hafi tekist fullkomlega til. 

mbl.is