4 ráð til að koma í veg fyrir kulnun sem foreldri

Pexels/Ksenia Chernaya

Fyrir marga foreldra getur verið erfitt að finna tíma til þess að hugsa um sig sjálfa. Þetta getur leitt til kulnunar foreldra, sem bitnar ekki bara á heilsu foreldrisins heldur fjölskyldunni allri. Því miður er ekki til nein ein töfralausn, þótt einföld hvíld sé alltaf mikilvæg.

Það sem einkennir helst kulnun foreldra er tilfinningaleg og/eða líkamleg þreyta, að skammast sín fyrir hvernig foreldri þú ert, að finnast foreldrahlutverkið vera yfirþyrmandi, og/eða finnast þú ekki tengjast börnum þínum tilfinningalega.

Hér eru nokkur ráð sem foreldrar geta gripið til, til að koma í veg fyrir kulnun.

Vertu ekki eins gagnrýnin(n) á sjálfa(n) þig

Sem foreldrar getum við öll upplifað daga þar sem okkur finnst við ekki vera að gera okkar besta. Við gætum fundið fyrir því að tengjast ekki börnum okkar eða finna fyrir tilfinningalegri eða líkamlegri þreytu. Hér kemur samkennd með sjálfum sér inn í myndina.

Við þurfum að vera góð við okkur sjálf þegar við finnum fyrir streitu eða upplifum áföll. Þetta er ekki aðeins gott fyrir foreldra og umönnunaraðila, þetta getur líka við lykilatriði í því að vera börnunum góð fyrirmynd.

Jafnvel þótt þú gerir mistök og þinn innri gagnrýnandi láti heyra í sér, reyndu að gera rödd hans jákvæðari. Mundu að allir standa frammi fyrir áskorunum og það er ekkert til sem heitir hið fullkomna foreldri eða hið fullkomna barn. Það getur hjálpað að tileinka sér þetta hugarfar.

Endurmótaðu sjálfsumönnun þína

Sem foreldri eða forráðamaður er algengt að setja eigin þarfir í síðasta sæti, jafnvel svo neðarlega í forgangsröðina að þeim er ekki sinnt, og líta á eigin þarfir  sem valfrjáls aukaatriði, sem taki dýrmætan tíma frá skyldum uppeldisins.

Hins vegar er það algjör andstæða við eigingirni að hugsa vel um sjálfan sig. Foreldrar sem setja eigin þarfir í forgang hafa tilhneigingu til þess að vera ekki eins sjálfsgagnrýnir og búa yfir betri líkamlegri og andlegri heilsu. Þeim finnst þeir líka vera hæfari og öruggari sem foreldrar, geta einbeitt sér betur að uppeldinu og eru líklegri til þess að njóta foreldrahlutverksins.

Það er ekki eigingirni að setja þarfir þínar aftur inn í myndina, það er mikilvægur uppeldishæfileiki sem er öllum til góðs.

Mundu að litlu hlutirnir hafa líka áhrif

Þegar fólk hugar vel að eigin þörfum og heilsu er iðulega rætt um það sem sjálfsdekur eða eigingirni. Svo þarf alls ekki að vera. Hins vegar geta fáein atriði sem taka skamman tíma af deginum gert heilmikið fyrir sálartetrið og geta hjálpað foreldrum að finna meira jafnvægi.

Eitthvað jafn einfalt og að staldra við til að anda djúpt og rólega, fara í stuttan göngutúr í fersku lofti eða spjalla við vin, getur hjálpað. Litlu hlutirnir hafa oft mikið að segja þegar foreldrar leita að betra jafnvægi.

Biddu um hjálp

Kulnun foreldra er hluti af stærra samtali um þann raunveruleika sem fylgir því að vera foreldri eða ala upp og annast börn. Oft eru margir þættir sem geta stuðlað að kulnun, svo sem skortur á stuðningi, mikil ábyrgð, áhrif náttúruhamfara, umönnun aldraðra foreldra og fjárhagsáhyggjur.

Það er mikilvægt fyrir foreldra að vera meðvitaðir um einkenni kulnunar og leita sér aðstoðar þar sem þörf er á. Með því að takast á við kulnun sem einn mikilvægan þátt í breiðari uppeldis- og umönnunarferli getum við unnið að því að skapa jákvæðara fjölskylduumhverfi fyrir bæði foreldra og börn.

The Guardian

mbl.is

Bloggað um fréttina