Fæðingin tók óvænta u-beygju á síðustu metrunum

Ari Bragi Kárason og Dóróthea Jóhannesdóttir ásamt dóttur sinni, Ellen …
Ari Bragi Kárason og Dóróthea Jóhannesdóttir ásamt dóttur sinni, Ellen Ingu. Ljósmynd/Aníta Eldjárn

Dóróthea Jóhannesdóttir er búsett í Kaupmannahöfn ásamt unnusta sínum, Ara Braga Kárasyni, og dóttur þeirra Ellen Ingu sem verður þriggja ára í sumar. Dóróthea og Ari eiga bæði glæstan frjálsíþróttaferil að baki, en þau kynntust einmitt í gegnum íþróttina fyrir rúmum 10 árum síðan. 

Dóróthea er með BS-gráðu í sálfræði og meistaragráðu í markaðsfræði, en hún starfar í dag sem svæðissölustjóri fyrir danska hönnunarfyrirtækið Design Letters og sér um alla markaði á Norðurlöndunum.

Fjölskyldan alsæl saman í tveggja ára afmælisveislu Ellenar í Kaupmannahöfn.
Fjölskyldan alsæl saman í tveggja ára afmælisveislu Ellenar í Kaupmannahöfn.

„Líf okkar Ara snérist bókstaflega um frjálsar íþróttir þar til Ellen kom í heiminn. Við æfðum með sama félagsliðinu öll árin, fyrst ÍR og svo FH, og á einum tímapunkti var Ari meira að segja þjálfarinn minn. Við erum því búin að lifa og hrærast í þessu sporti saman í mörg ár og höfum fengið að upplifa svo ótrúlega margt,“ segir Dóróthea.

„Við höfum verið svo heppin að ferðast út um allan heim, keppa saman með landsliðinu og búa til minningar sem við munum búa að alla ævi,“ bætir hún við.

Ari og Dóróthea í landsliðsferð í Skopje í norður Makedóníu …
Ari og Dóróthea í landsliðsferð í Skopje í norður Makedóníu árið 2019. Þetta var síðasta mót Dórótheu með landsliðinu þar sem hún varð ófrísk stuttu seinna.

Hlaupin hentuðu ekki á meðgöngunni

Ellen kom í heiminn í júní 2020, en aðspurð segir Dóróthea meðgönguna í heildina hafa verið dásamlega. „Fyrst um sinn upplifði ég rosalega mikla ógleði og var kastandi upp fyrstu 16 vikurnar, en þegar það leið yfir og ég endurheimti orkuna mína aftur gekk allt mjög vel. Ég gat lifað mínu eðlilega lífi og upplifði litla sem enga fylgikvilla,“ segir hún. 

„Ég var svo heppin að ná að hreyfa mig alveg fram að fæðingu og leið mun betur í skrokknum við það, enda var hreyfing mjög stór partur í mínu lífi þar sem ég hef æft frjálsar íþróttir frá því ég man eftir mér,“ bætir hún við. 

Dóróthea segir æfingarnar þó hafa breyst helling á meðgöngunni og fann til dæmis að hlaup hentuðu ekki vel. „Það kom mér á óvart þar sem ég var vön að hlaupa alla daga, en í staðinn hjólaði ég mikið og lyfti, bæði styrktaræfingar og ólympískar lyftingar. Ég var einnig mjög dugleg að fara í göngutúr úti í náttúrunni sem gáfu mér mikið, sérstaklega í byrjun þegar ég var með mikla ógleði,“ segir hún. 

Dóróthea sótti mikið í göngutúra í náttúrunni á meðgöngunni.
Dóróthea sótti mikið í göngutúra í náttúrunni á meðgöngunni.

Var undirbúin undir bráðakeisara

Dóróthea gekk viku fram yfir settan dag og segist hafa verið orðin ansi óþolinmóð að fá dóttur sína í heiminn. „Ég var búin að prófa bókstaflega allt til að reyna að koma mér af stað, en ekkert virtist ganga,“ segir Dóróthea.

„Ég fór í belglosun í mæðraverndinni og daginn eftir það fór ég í nálastungu hjá manni sem hafði stundum tekið mig í nálastungur í gegnum íþróttaferilinn minn. Ég man að þegar ég lá á bekknum hjá honum þá fékk ég fyrstu hríðina, þannig það er spurning hvort nálastungan hafi hjálpað eða hvort þetta hafi allt saman verið tilviljun,“ segir Dóróthea og hlær.

Þegar Ellen kom í heiminn voru yfir 10 manns í …
Þegar Ellen kom í heiminn voru yfir 10 manns í herberginu. Ljósmynd/Aníta Eldjárn

Spurð hvernig fæðingin hafi gengið svarar Dóróthea bæði vel og illa. „Eftir fyrstu hríðina gerðist allt mjög hratt, en ég var mætt upp á Landsspítala nokkrum klukkutímum síðar með sjö í útvíkkun. Mér leið best með glaðloft í baði, en þegar var komið að rembingnum tók fæðingin smá u-beygju,“ útskýrir hún. 

„Ellen var í framhöfuðstöðu og naflastrengurinn var vafinn um hálsinn, en hún var orðin vel þreytt og ég sömuleiðis. Það var verið að undirbúa mig undir bráðakeisara en svo kom hún út með sogklukku í síðustu tilraun með yfir 10 manns í herberginu. Fjörið var þó ekki búið þar sem fylgjufæðingin gekk mjög illa,“ rifjar Dóróthea upp.

„Fylgjan sat föst og var öll tætt og rifin þegar hún loksins skilaði sér um klukkustund eftir að Ellen kom í heiminn. Ég missti tvo lítra af blóði í öllum hamaganginum og var lengi að jafna mig. Ég er afar þakklát ljósmæðrunum og læknunum á spítalanum sem komu að fæðingunni og aðstoðuðu mig að koma Ellen í heiminn – heldur betur fagleg vinnubrögð alla leið,“ bætir hún við. 

Á þessari mynd er Ellen tíu daga gömul, en Dóróthea …
Á þessari mynd er Ellen tíu daga gömul, en Dóróthea segist vera afar þakklát fyrir að brjóstagjöfin hafi gengið vel. Ljósmynd/Baldur Kristjánsson

Byrjaði á stuttum göngutúrum

Eftir fæðinguna átti Dóróthea langan bata fyrir höndum, en hún var lítið að stressa sig yfir því að fara að hreyfa sig aftur. „Heimsfaraldurinn var í hámarki og allar líkamsræktarstöðvar lokaðar og sömuleiðis Kaplakriki þar sem ég var vön að æfa með mínu félagsliði,“ segir hún. 

„Það kom mér svolítið á óvart hvað ég hafði litla löngun í að fara að æfa aftur þar sem ég var vön að æfa margar klukkustundir á dag áður en ég varð ólétt. Ég byrjaði mjög hægt og rólega að fara út í stutta göngutúra og fór svo á mömmunámskeið í Hreyfingu þegar Ellen var átta vikna. Svo jók ég álagið jafnt og þétt eftir því sem líkaminn leyfði þar til ég var komin á sama stað og áður,“ bætir Dóróthea við. 

Dóróthea fór rólega af stað eftir fæðinguna og jók svo …
Dóróthea fór rólega af stað eftir fæðinguna og jók svo álagið jafnt og þétt.

Dóróthea segir lífið sannarlega hafa breyst til hins betra eftir að hún varð móðir. „Það að vera mamma er stærsta og erfiðasta, en jafnframt besta og dásamlegasta hlutverk sem til er. Því fylgir gríðarleg ábyrgð að vera með ómótaðan einstakling í höndunum sem er algjörlega upp á mann kominn. Maður hugsar lífið á allt annan hátt og tekur allar ákvarðanir með Ellen efst í huga,“ segir hún og bætir við að hún hafi fundið sig gríðarlega vel í móðurhlutverkinu og þyki það eiga vel við sig.

Spurð hvað hafi komið henni mest á óvart við móðurhlutverk segir Dóróthea það vera hve mikið hún hefur lært og hve gefandi móðurhlutverkið er. „Hamingjan er svo mikil í kringum þennan litla gleðigjafa minn, allt er svo skemmtilegt og maður horfir á lífið með allt öðrum augum en áður. Ég hef upplifað tilfinningar sem ég vissi ekki að væru til, eins klisjulegt og það hljómar,“ segir hún.

Dóróthea hefur fundið sig vel í móðurhlutverkinu, enda á það …
Dóróthea hefur fundið sig vel í móðurhlutverkinu, enda á það vel við hana.

Fékk pláss hjá dagmömmu í Köben en ekki á Íslandi

Fjölskyldan flutti til Kaupmannahafnar í lok ágúst 2021 þegar Ellen var rúmlega eins árs gömul. „Hvorugt okkar var að fara út í nám eða vinnu heldur langaði okkur bara að breyta til og prófa nýja hluti. Við settum íbúðina okkar í Kópavoginum á leigu og fundum í framhaldi ótrúlega fallega íbúð í Frederiksberg,“ segir Dóróthea. 

„Lokasparkið var svo kannski það að Ellen fékk pláss hjá dagmömmu í Kaupmannahöfn en var ekki að komast inn neins staðar á Íslandi. Þannig við horfðum svolítið á það sem merki um að drífa okkur bara út og láta vaða,“ bætir hún við. 

Flutningar fjölskyldunnar til Kaupmannahafnar í ágúst 2021.
Flutningar fjölskyldunnar til Kaupmannahafnar í ágúst 2021.

Dóróthea viðurkennir að hún sé ansi heimakær og hafi því verið töluvert stressuð fyrir flutningunum, en í heildina hafi allt gengið vel. 

„Börn eru svo ótrúlega dugleg að aðlagast nýjum aðstæðum og læra nýtt tungumál. Það sem hefur kannski komið mest á óvart við þetta allt saman er hversu dugleg Ellen hefur verið að læra dönskuna. Hún er bara orðin altalandi á tveimur tungumálum og skiptir á milli íslensku og dönsku eftir aðstæðum hverju sinni. Mér finnst alveg magnað að fylgjast með þessu og hugsa að aðrir foreldrar með tvítyngd börn tengi vel við þetta,“ segir Dóróthea. 

Sem betur fer er stutt fyrir fjölskylduna að skreppa heim til Íslands ef heimþráin verður of mikil, en þau hafa verið dugleg að ferðast á milli enda þykir þeim mikilvægt að vera dugleg að leyfa dóttur sinni að kynnast fjölskyldu sinni á Íslandi og eyða tíma með þeim. 

Mæðgurnar á góðri stundu.
Mæðgurnar á góðri stundu.

Lífsgæðin í Kaupmannahöfn mikil

Dóróthea lýsir Kaupmannahöfn sem æðislegri borg. „Þrátt fyrir að þetta sé stórborg er alveg hreint dásamlegt að vera með börn hérna. Það er hugsað fyrir öllu til að einfalda fjölskyldulífið – mjög mikið af flottum leikvöllum, fallegum gönguleiðum og annarri afþreyingu fyrir börn. Bíllausi lífsstíllinn er líka algjör snilld og ótrúlega þægilegt að geta labbað út með vagninn hvert sem maður fer,“ segir hún. 

„Við eigum líka stórt kassahjól (e. christiania bike) sem við notum mikið. Þá hjólar Ari og við Ellen sitjum saman eins og drottningar í kassanum,“ segir Dóróthea og hlær. „Veðrið spilar líka mjög stóran part og við eyðum miklum tíma úti í görðum eða í náttúrunni að njóta. Þannig ég myndi segja að lífsgæðin hérna séu mikil og við kunnum ofboðslega vel við okkur.“

Mæðgurnar í kassahjólinu.
Mæðgurnar í kassahjólinu.

Fyrr á árinu festu Dóróthea og Ari kaup á fallegu raðhúsi í Valby. „Það var ótrúlega stór ákvörðun sem við tókum, en við vildum koma okkur betur fyrir og líða meira eins og heima. Þannig við sendum alla búslóðina okkar með skipi frá Íslandi og erum núna að vinna í því að koma okkur fyrir hægt og rólega,“ segir hún.

„Við erum oft spurð að því hvort og hvenær við ætlum að koma aftur heim til Íslands, en svo lengi sem það er gaman hér þá ætlum við að vera. Við tökum bara einn dag í einu og sjáum hvað setur,“ segir Dóróthea að lokum. 

Fjölskyldan er ansi sátt úti í Kaupmannahöfn og því ekki …
Fjölskyldan er ansi sátt úti í Kaupmannahöfn og því ekki í plönunum eins og er að flytja aftur til Íslands.
mbl.is