Á von á barni á níræðisaldri

Hinn 82 ára gamli Al Pacino á von á barni …
Hinn 82 ára gamli Al Pacino á von á barni með kærustu sinni. AFP

Stórleikarinn Al Pacino á von á barni með kærustu sinni, Noor Alfallah. Pacino er 82 ára gamall og er 53 árum eldri en Alfallah sem er 29 ára gömul. 

Fram kemur á vef TMZ að barnið sé fyrsta barn Alfallah sem er gengin átta mánuði á leið. Fyrir á Pacino hins vegar þrjú börn, en hann á 33 ára gamla dóttur með Jan Tarrant og 22 ára gamla tvíbura með Beverly D'Angelo. 

Pacino eldri en faðir Alfallah

Orðrómur um samband Pacino og Alfallah fór á flug eftir að þau sáust á stefnumóti í apríl 2022. 

„Pacino og Noor byrjuðu að hittast í heimsfaraldrinum. Hún er aðallega með mjög ríkum eldri mönnum ... Hún hefur verið með Pacino í nokkurn tíma og þau ná mjög vel saman,“ sagði heimildarmaður Page Six á þeim tíma og bætti við að aldursmunurinn virtist ekki vera vandamál þó Pacino sé eldri en faðir Alfallah.

Áður var Alfallah með Mick Jagger, en þá var rokkarinn 74 ára á meðan hún var aðeins 22 ára. Þá var hún einnig með milljarðamæringnum Nicolas Berggruen þegar hann var sextugur.

mbl.is