Íslandsvinur orðinn tveggja barna faðir

Íslandsvinurinn Tan France ásamt nýja fjölskyldumeðlimnum, Isaac.
Íslandsvinurinn Tan France ásamt nýja fjölskyldumeðlimnum, Isaac. Samsett mynd

Queer Eye–meðlimurinn og Íslandsvinurinn, Tan France er orðinn tveggja barna faðir. Hann og eiginmaður hans, Rob France, eignuðust son um síðustu helgi með aðstoð staðgöngumóður og hafa þeir nefnt drenginn Isaac. 

Raunveruleikastjarnan tilkynnti gleðifréttirnar með því að birta fallega fjölskyldumynd á Instagram en þar sjást France–hjónin brosandi út af eyrum með bæði börn sín. Rob, heldur á eldri syni hjónanna en Tan er með nýfæddan son þeirra í fanginu. 

„Velkominn drengur #2, Isaac France, fæddur síðastliðna helgi,“ skrifaði Tan. Hann endaði færsluna á orðunum: „Hann fullkomnar litlu fjölskylduna okkar. Og miklar þakkir til ótrúlegu staðgöngumóður okkar fyrir að gefa okkur stærstu gjöf sem hægt er að gefa.“

Komu til Íslands í „baby moon“ 

Tan France og eiginmaður hans eru mjög hrifnir af Íslandi og hafa heimsótt landið að minnsta kosti tvisvar sinnum. Fyrir fæðingu Ismail, árið 2021, ferðuðust þeir til Íslands og skoðuðu allt sem landið hefur upp á að bjóða og því er líklegt að þeir kynni syni sína fyrir landi og þjóð áður en langt um líður. mbl.is