Tveggja mánaða og aðdáandi N'Sync

„Ástir lífs míns,“ skrifaði Cuoco við færsluna á Instagram.
„Ástir lífs míns,“ skrifaði Cuoco við færsluna á Instagram. Samsett mynd

Matilda Carmine, tveggja mánaða gömul dóttir leikkonunnar Kaley Cuoco, virðist þó ung sé vera mikill aðdáandi fyrrverandi poppsveitarinnar N’Sync.

Cuoco deildi krúttlegri færslu af þeim mæðgum á Instagram en þar sést unga stúlkan klædd í ljósan bol skreyttan meðlimum grúppunnar, Justin Timberlake, JC Chavez, Lance Bass, Joey Fatone og Chris Kirkpatrick.

Sjálf brosir leikkonan út að eyrum á myndinni og því er líklegt að hún sjálf sé N’Sync-aðdáandi. „Þessi N’Sync-bolur er að gefa mér líf, haha,“ skrifaði nýbakaða móðirin. 

Vill ekki gifta sig í þriðja sinn

Leikkonan deildi einnig sætri fjölskyldumynd af sér með kærasta sínum, Tom Pelphrey og dóttur þeirra. Þar fór hún fögrum orðum um litlu fjölskyldu sína og kallaði Pelphrey og Matildu Carmine, „ástir lífs míns“.

Cuoco og Pelphrey byrjuðu að hittast í apríl á síðasta ári og staðfestu sambandið mánuði seinna. Parið er hvorki gift né trúlofað en Cuoco hefur sagt frá því opinberlega að hún vilji ekki gifta sig á ný en leikkonan er tvískilin. Hún var gift Ryan Sweeting árin 2013–2016 og Karl Cook árin 2018–2022.

mbl.is