Vill fá 2,1 milljón í meðlag á mánuði

Bam Margera og Nicole Boyd.
Bam Margera og Nicole Boyd.

Nicole Boyd, fyrrverandi eiginkona Bams Margera, fer fram á að Margera greiði 15 þúsund dollara í meðlag á mánuði sem nemur rúmlega 2,1 milljón króna á gengi dagsins í dag.

Boyd og Margera deila fimm ára syninum Pheonix, en hún vill einnig fá fullt forræði yfir syni þeirra samkvæmt dómsskjölum sem TMZ hefur undir höndum. Þá kemur einnig fram að hún sé opin fyrir heimsóknum undir eftirliti ef Margera lýkur við lyfja- og áfengismeðferð. 

Í yfir áratug hefur Margera farið inn og út af meðferðarstofnunum, en hann hefur ratað þó nokkuð í fjölmiðla síðustu mánuði. Síðasta sumar strauk hann af meðferðarheimili í Flórída í annað sinn. Í mars síðastliðnum var hann svo handtekinn í tvígang, fyrst vegna heimilisofbeldis og síðan vegna ógnandi hegðunar á veitingastað í Los Angeles. 

Í skjölunum kemur líka fram að hún vilji að Margera borgi laun lögfræðinga sem nemur hið minnsta 50 þúsund dollurum, eða rúmum sjö milljónum króna. Boyd er sögð þéna minna en fjögur þúsund dollara á mánuði og þurfi þess vegna á fjárhagsaðstoð að halda.

mbl.is