Peningakennsla fyrir börn á öllum aldri

Unsplash

Mikilvægt er að kenna börnum á peninga og það er ekki eins erfitt og það virðist vera. Foreldrar ættu í rauninni að geta gert það á hverjum degi. Góð leið til þess er að gera daglegar athafnir að námsupplifun. Ferðir í bankann, búðina eða hraðbanka geta verið fullkomin leið til að opna umræðuna um hvernig peningar eru notaðir. 

Hér eru nokkur ráð sem henta hverju aldursbili barnsins fyrir sig.

Tveggja til þriggja ára

Mjög ung börn skilja ekki gildi peninga en þau geta byrjað að kynnast þeim. Skemmtileg leið til að gera þetta er að læra nöfn á myntum. Ein leið til þess er spila eins konar auðkenningarleik með mynt sem gengur út að það að barnið þitt parar mynt við réttar myndir, með þinni aðstoð að sjálfsögðu því auðvelt er fyrir smábörn að gleypa myntina. 

Ung börn elska búðarleiki. Ímynduð búð í stofunni getur þó orðið meira en leið til að efla ímyndunaraflið. Með því að skipta leikpeningum út fyrir vörur byrjar barnið þitt að skilja grunnatriði viðskipta. Þú getur til dæmis notað tómar umbúðir eða ávexti sem vörur og útbúið peninga úr pappír. 

Fjögurra til fimm ára

Áður en þú ferð í matvörubúðina skaltu biðja leikskólabarnið þitt um að hjálpa til við innkaupin. Þegar þið eruð komin að afgreiðslukassanum skaltu biðja barnið um að fylgjast með því þegar vörurnar eru skannaðar inn og þegar þú borgar. Þetta er góð leið til þess að kenna þeim að það þurfi að greiða fyrir matvörur.

Flest leikskólabörn vilja frekar leika sér á ímynduðum veitingastað heima en að fara út að borða. Það stuðlar að ýmissi færni, svo sem að dekka borð og læra góða siði. Það er þó hægt að nýta leikinn í að kenna börnunum að þegar máltíðinni er lokið þurfi að borga reikninginn. Þegar þau ná að skilja hugtakið verða þau mjög spennt fyrir því að borga með leikpeningum og gefa til baka.

Sex til átta ára

Krakkar á þessum aldri gætu verið farin að skilja hvernig peningar virka. Um leið og barnið þitt byrjar að fá vasapening það að finna stað til að geyma hann. Þegar barnið er búið að safna upp ákveðinni upphæð skaltu gera ferð í bankann að viðburði. Hjálpaðu barninu þínu að stofna sparnaðarreikning og hvettu það til að leggja reglulega inn á hann. Með tímanum er hægt að kenna barninu hvað vextir eru og hvernig bankinn greiðir fólki til baka fyrir að spara peningana sína.

Níu til tólf ára

Þetta er góður aldur til að fá börnin til að hugsa um gildi peninga. Ein leið til þess er að bera saman innkaup. Lestu verðmiða verslunarinnar með barninu þínu, skoðaðu stærðina og verðið og berðu saman magnið í prósentum. Ekki gleyma að taka tillit til gæða. Sem dæmi getur þú eina vikuna keypt eldhúspappír frá dýrara vörumerki. Þá næstu kaupir þú eldhúspappír sem er merktur versluninni eða öðru ódýrara vörumerki. Ræddu svo muninn við barnið og þið getið ákveðið í sameiningu hvort dýrara vörumerkið sé þess virði.

Þrettán til fimmtán ára

Þegar börn ná á táningsaldurinn er gott að kenna þeim að gera fjárhagsáætlun. Hjálpaðu barninu þínu að gera fjárhagsáætlun með því að ræða fyrst óskir og þarfir. Sem dæmi getur þú tekið kartöflur og sósu. Kartöflur er matur sem við þurfum til að lifa af. Sósan gerir þær betri en er ekki nauðsynleg. Þú getur styrkt þessa hugmynd með því að fara yfir fjárhagsáætlun fjölskyldunnar með barninu þínu og borið saman þarfir fjölskyldunnar við það sem meðlimi hennar langar í.

Parents

mbl.is