Eignaðist barn á miðjum 50 cent tónleikum

Rapparinn 50 Cent hélt viðburðarríka tónleika í Washington-fylki á dögunum.
Rapparinn 50 Cent hélt viðburðarríka tónleika í Washington-fylki á dögunum. JAMIE MCCARTHY

Kona nokkur eignaðist barn á miðjum tónleikum rapparans 50 cent í Washington-fylki í Bandaríkjunum á dögunum.

Heimildir Page Six herma að læknar á staðnum hafi ákveðið að athuga með konu sem virtist vera í neyð, en stuttu síðar komust þeir að því að hún væri komin í virka fæðingu. Starfsfólk tónleikanna byrjaði á því að mynda hring í kringum konuna, en svæðið var síðan afmarkað með lökum til að skapa næði fyrir fæðinguna. 

„Stúlkan fæddist á staðnum og móðirin og barnið voru síðan flutt á sjúkrahús,“ segir heimildarmaður og bætir við að þeim heilsist vel. 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem barn fæðist á miðjum tónleikum, en nýverið fæddi kona son eftir að hafa byrjað að fá hríðir á Pink tónleikum í Boston. Þá var einnig kona sem fæddi son á Metallica tónleikum í Brasilíu árið 2022. 

mbl.is