Stolt af umdeildri nærfatamyndatöku með dóttur sinni

Mæðgurnar Heidi og Leni Klum vöktu mikla athygli þegar þær …
Mæðgurnar Heidi og Leni Klum vöktu mikla athygli þegar þær sátu fyrir í nærfatamyndatöku saman. Samsett mynd

Ofurfyrirsætan Heidi Klum segist vera stolt af umdeildri nærfatamyndatöku með 19 ára gamalli dóttur sinni, Leni Klum. Myndirnar voru hluti af herferð ítalska undirfatarisans Intimissimi og voru harðlega gagnrýndar þegar þær birtust síðastliðið vor. 

Þrátt fyrir mikla gagnrýni segist Klum vera stolt af myndunum, en mörgum þótti myndirnar óviðeigandi og grófar. 

„Það hefur verið gaman að fara í myndatökur saman. Bæði að taka myndir með henni en líka bara að sjá hvernig hún er, en hún er bara mjög þægileg og líka þægileg í kringum mig, jafnvel þegar við erum að taka nærfatamyndir eða eitthvað svoleiðis,“ sagði Klum í samtali við Daily Mail

„Það gerir mig stolta af því að dóttir mín er ofboðslega sátt í eigin skinni, líka fyrir framan mig og í kringum mig, því það eru ekki allir krakkar þannig. Svo, ég elska að við eigum þetta fallega samband,“ bætti hún við. 

Dóttir Klum hefur verið að gera það gott í fyrirsætubransanum á síðustu árum, en hún hefur fetað í fótspor móður sinnar og setið fyrir hjá nokkrum af stærstu tískuhúsum heims. 

mbl.is
Loka