Hundur sem forðast að stíga í polla

Þorvaldur ásamt hundinum Benna.
Þorvaldur ásamt hundinum Benna. Ljósmynd/Aðsend

Þorvaldur Jónsson listamaður á þriggja ára gamlan Bedlington Terrier sem heitir Bernes en er alltaf kallaður Benni og er mikill persónuleiki. Hann passar sig á að stíga ekki í polla og vill helst ekki fá vind í andlitið - sem getur verið erfitt miðað við íslenskar aðstæður!

Lengi langað í hund

„Okkur konunnni minni hafði báðum langað í hund en gerðum ráð fyrir því að það myndi ekki ganga þar sem við búum í blokk. Þegar við fórum að grennslast fyrir kom svo annað í ljós og allir nágrannarnir í stigaganginum tóku vel í málið,“ segir Þorvaldur um hvernig Benni kom inn í líf þeirra.

„Ég er svo með ofnæmi fyrir flestum hundum þannig að það var aðeins flóknara að finna tegund sem virkaði fyrir okkur. Konan mín kom með hugmyndina að við myndum fá okkur Bedlington en ég verð að játa að ég var ekki alveg jafn hrifinn fyrst um sinn. Sérstaklega þar sem ég sá sá þá fyrst á hundasýningu með sína sérstöku klippingu þar sem skottið og hluti búksins eru rökuð niður að húð, þeir eru með dúska á eyrunum og nokkurs konar hanakamb ofan á höfðinu. Við nánari skoðun varð ég svo fljótt hrifinn af tegundinni enda einstaklega vinaleg.“

Benni er þriggja ára Bedlington Terrier.
Benni er þriggja ára Bedlington Terrier. Ljósmynd/Aðsend

Er á vaktinni uppi í gluggakistu

Þorvaldur vinnur heima og ver því miklum tíma með hundinum sínum.

„Ég er myndlistarmaður og er með vinnustofuna mína heima þannig að við eyðum nær öllum dögum saman. Hann veit að dagurinn byrjar ekki fyrr en ég fer á fætur og lyftir varla haus þegar konan mín leggur af stað í vinnuna fyrir klukkan 8. Við hundurinn vöknum vanalega aðeins seinna en honum finnst ekkert slæmt að kúra aðeins frameftir sem sýnir sig þegar honum er boðið út of snemma þá neitar hann bara.“

„Við tökum klukkutíma göngutúr í hádeginu þar sem ég leyfi Benna vanalega að ráða för. Klambratún er vinsæll áfangastaður en þar sem Benni er ógeldur tekur það vanalega sinn tíma að rölta þangað enda mikilvægt að pissa á alla steina og staura sem hann sér. Heima við liggur hann vanalega rólegur á sófanum með punginn út í loftið og fer svo að trufla mig í vinnunni þegar ég er að mála með því að sníkja klapp eða vilja leika ásamt því að vera á nágrannavaktinni uppi í gluggakistu og fylgjast með hundunum í hverfinu labba fram hjá. Hann fær svo annan göngutúr eftir kvöldmat og reynum við að taka hann í 30-50 mínútna göngu hvort um sig. Hann heldur sig svo við sína rútínu og fer í háttinn um ellefu leytið,“ segir Þorvaldur um dagana þeirra saman. 

Benni er einstaklega vinalegur og fylgir eiganda sínum eins og …
Benni er einstaklega vinalegur og fylgir eiganda sínum eins og skugginn. Ljósmynd/Aðsend

Ofnæmi setti strik í reikninginn

Aðspurður um hvort hann hafi alist upp með dýr á æskuheimilinu segir Þorvaldur það hafi verið erfitt vegna ofnæmis.

„Ég er ofnæmispési og því voru foreldrar mínir ekki mjög hrifnir af því að auka á það vandamál. Móðir mín er auk þess úr sveit þannig hún er þannig þenkjandi að dýrin eigi meira heima í sveitinni. Við vorum með einn gullfisk á tímabili en það endaði allt á pabba mínum að þurfa að þrífa búrið og sjá um hann þannig að það er kannski ekkert skrítið að maður hafi ekki fengið gæludýr. Þau eru nú mjög ánægð með að fá Benna yfir í heimsókn eða pössun, held að þeim finnst skemmtiegra að fá hundinn í heimsókn en mig. Á sama tíma reynum við hvað við getum að gera borgarlífið bærilegt fyrir Benna með því að vera dugleg að hreyfa hann og halda honum virkum.“

Tómlegt þegar hundurinn er ekki heima

„Mér finnst alveg yndislegt að eiga hund. Hann er mikill félagsskapur, aðallega þegar maður vinnur heima, og vissulega hvatning í að kíkja út úr húsi sem er kostur í svona heimavinnu. Maður finnur fyrir því þegar hann er ekki heima hvað það verður tómlegt og mikil þögn í húsinu og jafnvel einmanalegt þegar maður er einn yfir daginn og orðinn vanur svona félaga. Hann gengur vanalega á eftir mér um heimilið eins og skugginn og tekur á móti mér með miklum fagnaðarlátum þrátt fyrir stutta ferð út með ruslið.“

Þarf að dúða hann á veturna

„Það er sagt að hláturinn lengi lífið og Benni sér sannalega til þess þar sem ég er alltaf hlægjandi af honum og hans uppátækjum enda höfum við fjölskyldan mjög gaman af honum og hans sérvisku,“ segir Þorvaldur en tekur fram að ókostirnir við hundahald séu þeir sömu og kostirnir. „Það er ekkert geggjað að þurfa að fara út í skítaveðri í janúar til að viðra hundinn og þá aðallega minn sem hatar bleytu og vind. Hann er með einfaldann feld þannig að flesta daga yfir vetrartímann þarf maður að dúða hann upp í föt svo honum verði ekki kalt sem er oft ekki nóg þar sem hann einfaldlega harðneitar að fara út.“

Finnst ekki gaman að fara í bað

Þorvaldur segir að Benni sé hundur með karakter. „Hann þolir hvorki vind né bleytu. Hann passar sig að stíga ekki í polla og má helst ekki fá vind í andlitið sem getur verið óhentugt í íslenskri veðráttu. Þar sem honum fylgir mikil feldhirða þarf að baða hann reglulega en það getur verið ævintýralegt með hans bleytufóbíu og flýr hann eins og köttur undir sófa þegar við skrúfum á baðinu og tökum fram sjampóið. Þetta er smá eins og að baða kött og ég hef endað klóraður upp á háls við að reyna að baða hann.“

„Þá er hann mjög sérlundaður og fær nær öllu sínu framgengt enda einstaklega ofdekraður hundur. Hann veit alveg hvað hann vill, er þrjóskur og getur setið í lengri tíma og beðið í þeirri von um að fá það sem hann langar í.“

Fjölskyldan reynir eftir fremsta megni að skipuleggja fríin þannig að …
Fjölskyldan reynir eftir fremsta megni að skipuleggja fríin þannig að Benni fái að vera með og hlaupa um í sveitinni. Ljósmynd/Aðsend

Skuldbinding sem þau eru ánægð með

Þorvaldur á góða að sem hjálpa til við að passa Benna auk þess sem þau skipuleggja fríin með þarfir Benna ofarlega í huga.

„Við erum heppin að eiga mikið af góðu fólki í kring um okkur sem eru viljug að passa hann ef þörf krefur, en við reynum eins og við getum að skipuleggja frí innanlands þar sem Benni getur verið með. Þetta er gífurleg skuldbinding en skuldbinding sem við höfum verið afar ánægð með þessi þrjú ár sem Benni hefur verið fjölskyldumeðlimur. Maður reynir að ferðast meira innanlands og fara í sveitina þar sem hann fær aðeins að hlaupa um laus.“

Ekki gleði að eiga dýr sem þarf að hafa í búri allan daginn

„Mín helstu ráð eru að fá sér gæludýr á réttum forsendum, Ekki fá sér hund bara til að þú verðir duglegri að hreyfa þig eða útaf því að þeir séu sætir. Við höfðum alveg lengi hugsað um að fá okkur gæludýr en ég var bara tilbúinn í það vegna þess að ég vinn heima og ræð mínum tíma sjálfur. Það er gaman að eiga gæludýr en mér finnst ekki mikil gleði í að eiga dýr sem er lokað inni í búri eða herbergi allan daginn.“

Mikilvægt að velja réttu tegundina

„Þá er mikilvægt að fólk velji sér hundategund sem hentar þeirra lífsstíl. Tegundirnar eru eins mismunandi og þær eru margar. Allar tegundir hafa sína kosti og galla og það er misjafnt hvað þú færð í hendurnar út frá tegundinni. Benni fer ekki úr hárum, geltir ekki, er í þægilegri millistærð sem skiptir mig miklu máli og er auk þess mjög vinalegur. Gallinn er að hann er ROSA vinalegur og flaðrar upp um alla sem koma í heimsókn sem er erfitt að hemja. Þetta er bara eðli tegundarinnar. Þá er hann kraftmikill hlaupahundur og þarf því meiri hreyfingu en margir hundar. Þar sem hann fer ekki úr hárum þá þarf hann að fara reglulega í klippingu og þarf helst að greiða honum annan hvern dag. Þetta eru hlutir sem margir eru ekki að hugsa út í þegar þeir velja sér hund,“ segir Þorvaldur.

Þorvaldur Jónsson við málverk sitt af byggingu Ásmundar Sveinssonar við …
Þorvaldur Jónsson við málverk sitt af byggingu Ásmundar Sveinssonar við Sigtún. Einar Falur Ingólfsson
mbl.is