Ástralska blaðakonan Kirsten Drysdale tók á móti sínu þriðja barni, syni, nýverið ásamt eiginmanni sínum, Chris. Hjónin gáfu syni sínum afar óvenjulegt nafn sem vakti heimsathygli og var það allt í nafni rannsóknarblaðamennsku.
Drysdale ákvað að skoða hvers konar eiginnöfn og millinöfn teldust heimil í Ástralíu og hvort það væru einhver mörk þegar kæmi að nafngiftum.
Í þágu rannsóknarinnar ákvað hún að skrá nafn drengsins sem Methamphetamine Rules á fæðingarvottorðið þar sem hún taldi öruggt að því yrði hafnað enda út í hött. Svo reyndist ekki, nafnið var samþykkt og heitir sonur hjónanna Methamphetamine Rules hjá þjóðskrá Ástralíu.
Talsmaður Births, Deaths and Marriges í Ástralíu sagði: „Þetta óvenjulega nafn náði einhvern veginn að komast í gegnum glufu í kerfinu, en út frá þessu höfum við styrkt skráningarferlið og ætlum að sjálfsögðu að vinna með Drysdale-fjölskyldunni og hjálpa þeim við að breyta nafni drengsins.”
Blaðakonan komst að því að nafn sem er gefið og skráð við fæðingu er alltaf á skrá hjá stofnuninni þrátt fyrir að því sé formlega breytt.
„Við völdum orðið methamphetamine þar sem okkur fannst nokkuð öruggt að það yrði ekki samþykkt,” sagði Drysdale, sem hefur í dag gefið syni sínum hefðbundnara nafn en vildi þó ekki uppljóstra „nýja“ nafni hans.