Gekk í hjónaband með grunnskólakennaranum sínum

Hjónin kynntust fyrst árið 2004.
Hjónin kynntust fyrst árið 2004. Skjáskot/Instagram

Nýgift hjón í Michigan hafa vakið talsverða athygli í Bandaríkjunum upp á síðkastið og ekki aðeins vegna aldursmunar þeirra. Parið, Monica og Michelle Foster, sem gekk í hnapphelduna í júní hefur þekkst í tæplega tuttugu ár eða allt frá því að Michelle kenndi tilvonandi eiginkonu sinni í sjöunda bekk.

25 ár aðskilja eiginkonurnar, en þær kynntust fyrst árið 2004 Þegar Monica var nemandi í grunnskólabekk sem Michelle kenndi. Hjónin viðurkenna að hafa fengið undarleg viðbrögð við sambandi þeirra og að fólk spyrji reglulega: „Er þetta mamma þín? eða jafnvel „Er þetta amma þín?, en þær segjast hafa lært að hrista þetta af sér og finnst þetta bara fyndið í dag.

Tengdust á Facebook

Stuttu eftir að Monica, 32 ára, kom út úr skápnum ákvað hún að finna fyrrverandi kennara sinn á Facebook og sjá hvernig hún hefði það, en það var í apríl 2020.

Á þeim tíma voru þær báðar í samböndum og Michelle gift, en þær byrjuðu að hittast á platónskan hátt tæpu ári eftir að hafa tengst á samfélagsmiðlinum. Það tók ekki langan tíma þar til ástin bankaði upp á og í maí 2022 sótti Michelle um skilnað og þær trúlofuðu sig þá um haustið.

Michelle og Monica giftu sig við fallega athöfn á heimili sínu við Sutton Bay í sumar og lýsa deginum sem “fullkomnum.”

mbl.is