„Það birtir alltaf til að lokum“

Svava Kristín Grétarsdóttir á von á sínu fyrsta barni.
Svava Kristín Grétarsdóttir á von á sínu fyrsta barni. mbl.is/Árni Sæberg

Svava Kristín Grétarsdóttir íþróttafréttakona á von á sínu fyrsta barni. Hún hefur ekki enn fundið rétta manninn en lætur það ekki koma í veg fyrir drauminn um fjölskyldu. Ferlið tók á en Svava Kristín hefur lært að það birtir alltaf til að lokum. 

„Ég hef alltaf haft sterka þrá í móðurhlutverkið. Ég var mjög ung byrjuð að öfunda stelpur í kringum mig sem áttu orðið börn og hef alltaf séð mig fyrir mér með barn. Þegar að ég var orðin 25 ára ákvað ég að ég myndi eignast barn ein ef ég yrði ekki í sambandi á næstu árum, sem síðan varð raunin. Það að ákveða að gera þetta ein var ekki erfið ákvörðun en að hefja ferlið formlega reyndist mér aðeins erfiðara. Ástæðan var sú að mér fannst ég vera að taka mig af markaðnum of lengi og mögulega of snemma. „Hvað ef að ég hitti einhvern núna á næstu mánuðum?“ var spurning sem ég spurði mig alltaf að. Enn ég vissi það alltaf að ég vildi verða móðir, hvernig sem að ég færi að því,“ segir Svava Kristín um drauminn að verða móðir. 

Svava Kristín ákvað að hefja ferlið ein þegar hún fann að hún var hætt að samgleðjast fólkinu sínu þegar hún frétti að von væri á barni í heiminn. „Ég jafnvel brotnaði saman, það var orðið erfitt fyrir mig að horfa á vini og fjölskyldu eignast jafnvel annað og þriðja barnið sitt á meðan ég sat alltaf ein eftir. Það er ömurleg tilfinning að geta ekki samglaðst fólkinu sem þú elskar mest.“

Birti til með jákvæðu prófi

Hvernig gekk að verða ólétt? 

„Ferlið varð talsvert lengra en að ég bjóst við í fyrstu. Ég hafði auðvitað ekkert reynt að verða ólétt sjálf svo ég gerði ekkert ráð fyrir því að eitthvað væri að og í rauninni er kannski ekkert að en ég þurfti þó nokkur skipti af tækni,- og glasafrjóvgunum. Ferlið tók verulega á mig andlega. Þegar að líða tók á ferlið þá náði ég botninum, núna í byrjun árs var ég komin í algjört andlegt þrot. Ég átti ekkert eftir til að gefa af mér.

Ég komst þó í gegnum þennan erfiða tíma, hélt áfram og hóf nýja meðferð í febrúar. Hún gekk ekki áfallalaust fyrir sig en að lokum var einn fósturvísir til sem hægt var að setja upp í vor og það birti heldur betur til í mínu lífi í byrjun maí þegar að ég fékk loksins jákvætt óléttupróf.“

Varstu opin með í hvaða ferli þú værir í? 

„Ég sagði engum frá í fyrstu nema allra bestu vinkonum að ég væri að byrja ferlið. Ég vildi ekki segja fjölskyldunni því að ég vildi koma á óvart og fá að tilkynna óvænta óléttu, það tókst ekki því að ferlið tók talsvert lengri tíma en ég bjóst við svo að ég fór að segja nánasta fólkinu frá ferlinu fljótlega. Ég var alltaf frekar opin með þetta en var ekkert að tala um þetta að óþörfu.“

Hefur það reynt á að þurfa að brosa framan í myndavélarnar á kvöldin? 

„Já það tók oft á að vinna í sjónvarpi í ferlinu sjálfu. Að vera grátandi inn á klósetti stundum rétt fyrir útsendingu og engin vissi hvað ég væri að ganga í gegnum, það tók á. Ég er sem betur fer komin með góða reynslu í því að koma fram fyrir framan myndavélar og brosa í gegnum tárin. Það er nauðsynlegt að gefa tilfinningunum pláss en það þýðir ekkert að gleyma sér í sorginni, lífið heldur áfram og það birtir alltaf til að lokum. Eftir að ég varð ólétt þá varð lífið allt svo miklu skemmtilegra að það var lítið mál að vera í vinnu þá þrátt fyrir smá ógleði.“

Líkaminn í fullri vinnu að búa til eitthvað geggjað

Hvernig viðbrögð fékkstu þegar þú greindir frá að þú ættir von á barni?

„Ég hef fengið frábær viðbrögð frá öllum í kringum mig, vinnunni og samfélaginu allt frá því að ég tilkynnti fólki frá ferlinu sem ég var í og í kjölfarið eftir að ég gat loksins tilkynnt frá óléttunni. Það er mikil spenna í fjölskyldunni og vinahópnum að ég sé loksins að komast í foreldrahópinn og eftirvænting eftir öðru barnabarni í fjölskylduna er mikil.“

Hvernig hefur þér liðið á meðgöngunni?

„Ég hef verið nokkuð hraust. Það er magnað að fá að upplifa meðgöngu í fyrsta skiptið, ógleðin, orkuleysið og veikindi upp úr engu en svo bara hress inn á milli. Það er dagamunur á manni og maður lærir fljótt inn á það að hlusta á líkamann sem er í fullri vinnu við það að búa til eitthvað geggjað.

Það er kannski óþægilegast að þurfa að hætta á lyfjunum sínum. Ég er ADHD krakki sem hef verið á lyfjum við því síðan ég var unglingur. Það hefur alltaf haft mikil áhrif á mig ef ég hef ekki tekið inn lyfin mín í einhverja daga enn að meðvitað þurfa að hætta á lyfjunum hefur verið skrítin tilfinning og sumir dagar erfiðari en aðrir.“

Ertu byrjuð að hugsa út í fæðinguna og fyrstu vikurnar?

„Nei, ég er mjög róleg í þessu öllu saman. Ég er raunsæ og veit að ennþá er ekkert sjálfgefið að ég komist í fæðingu og fái að upplifa fyrstu vikurnar með barninu mínu. Ég er ekkert svartsýn og hugsa ekkert út í það að eitthvað slæmt geti gerst, heldur leyfi ég mér bara að vera í núinu og vona það besta.“

Hverju eru spenntust fyrir?

„Íþróttamótunum, að fá að upplifa gleðina og sorgina í gegnum barnið mitt í íþróttum er held ég stórkostlegt. Mínar bestu minningar frá æskunni eru tengdar íþróttum svo að sjálfsögðu er ég spenntust fyrir því að fá vonandi að upplifa það sama með barninu mínu.“

Opin fyrir öllu

Það finna margir fyrir pressu að eignast maka og börn og Svava Kristín játar að hafa fundið fyrir slíkri pressu. „Það var líka eins og að ég ætti ekki rétt á því að vilja eignast börn og maka af því að ég var ekki tilbúin í að byrja með hverjum sem er, eins og að löngunin væri þá ekki eins mikil hjá mér.“

Ertu opin fyrir ástinni? 

„Já ég er alltaf opin fyrir öllu. Þó svo að maður sé kannski ekki beint með hugann við það þessa mánuðina, ég klæði mig ekki upp um helgar og vonast eftir því að finna ástina á djamminu með bumbuna út í loftið. Svo ég er raunsæ og tel meiri líkur á því að finna rétta manninn eftir að barnið er komið í heiminn,“ segir Svava Kristín. 

mbl.is
Loka