Hátíðleg 17. júní dagskrá fyrir fjölskylduna um allt land

Það verður nóg um að vera á 17. júní!
Það verður nóg um að vera á 17. júní! mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þjóðhátíðardagur Íslendinga verður haldinn hátíðlegur um allt land á morgun, 17. júní, en í ár verða hátíðar- og skemmtidagskrár sérlega glæsilegar þar sem 80 ár verða liðin frá því íslenska lýðveldið var stofnað á Þingvöllum. 

Fjölskylduvefur mbl.is tók saman það helsta sem boðið verður upp á yfir daginn á nokkrum stöðum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. 

Reykjavík

Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá í Reykjavík á þjóðhátíðardaginn 17. júní sem hefst á Austurvelli klukkan 11:00 þar sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, leggur blómsveig frá íslensku þjóðinni á minnisvarða Jóns Sigurðarsonar. 

Klukkan 13:00 munu skátar svo leiða skrúðgöngu frá Hallgrímskirkju. Þá verða tónleikar, götuleikhús, dansveisla, sirkus, leiktæki, matarvagnar og fornbílasýningar í Hljómskálagarði og á Klambratúni svo eitthvað sé nefnt, en einnig verður frítt inn á Árbæjarsafnið þar sem boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá. 

Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Reykjavíkurborgar

Kópavogur

Í Kópavogi verður boðið upp á skemmtidagskrá bæði á Rútstúni og við Versali frá klukkan 14:00 til 16:00, en leiktæki og hoppukastalar opna klukkan 12:00. Þá verður einnig hátíðardagskrá í anddyri Salarins frá klukkan 13:00.

Klukkan 13:30 hefst skrúðganga frá Menntaskólanum í Kópavogi og að Rútstúni. Við Menningarhúsin í Kópavogi verður svo dagskrá frá klukkan 14:00 til 16:00 með hinum ýmsu skemmti- og tónlistaratriðum. 

Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Kópavogsbæjar

Hafnarfjörður

Hátíðarhöld í Hafnarfirði teygja anga sína víða um bæinn, en þau hefjast klukkan 8:00 með fánahyllingu á Hamrinum. Klukkan 9:00 mun Sjósundsfélagið Urturnar svo leiðbeina bæjarbúum við sjósund og verður fargufa á svæðinu og Sundhöll Hafnarfjarðar opin. 

Frá klukkan 11:00 til 18:00 verður stuð á Víðistaðatúni þar sem Víkingahátíðin í Hafnarfirði fer fram. Klukkan 13:00 hefst skrúðganga frá Flensborgarskóla og verður gengið niður Hringbraut, eftir Lækjargötu og inn Strandgötu að Thorsplani þar sem hátíðarhöld í miðbæ Hafnarfjarðar hefjast formlega með hinum ýmsu tónlistar- og skemmtiatriðum til klukkan 16:00.

Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Hafnafjarðarbæjar.

Garðabær

Í Garðabæ verður fjölbreytt dagskrá fyrir alla fjölskylduna sem hefst klukkan 13:00 með skrúðgöngu sem fer frá Hofsstaðatúni á Garðaborg þar sem töfrar, söngvar og dansatriði verða á dagskrá. 

Bílastæði Garðatorgs verður svo breytt í skemmtisvæði fyrir börnin með hoppuköstulum, en einnig verður fánasmiðja og andlitsmálun í boði á Garðatorgi. Deginum lýkur svo með hátíðartónleikum í Tónlistarskóla Garðabæjar klukkan 20:00.

Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Garðabæjar

Mosfellsbær

Dagskráin í Mosfellsbæ hefst klukkan 11:00 með hátíðarguðþjónustu í Lágafellskirkju. Klukkan 13:30 verður svo skrúðganga frá Miðbæjartorginu að Hlégarði þar sem fjölbreytt fjölskyldudagskrá verður í boði. 

Klukkan 16:00 verður keppt um titilinn Sterkasti maður Íslands og Stálkonan 2024 á Hlégarðstúninu. 

Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Mosfellsbæjar

Seltjarnarnes

Á Seltjarnarnesi verður hátíðardagskrá sem hefst klukkan 10:00 með bátasiglingu frá smábátahöfninni. Klukkan 11:00 verður hátíðarguðþjónusta í Seltjarnarneskirkju og klukkan 12:45 fer skrúðganga frá Leikskóla Seltjarnarness yfir í Bakkagarð. 

Í Bakkagarði verður fjölbreytt dagskrá með hinum ýmsu atriðum, en þar verða einnig leiktæki, hestateymingar og fleira skemmtilegt á milli klukkan 13:00 til 15:00.

Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Seltjarnarness.

Akureyri

Á Akureyri hefjast hátíðarhöldin klukkan 11:00 þegar blómabíllinn leggur af stað frá Naustaskóla, en hann verður við Lystigarðinn um klukkan 12:00. Klukkan 12:30 hefst svo skrúðganga frá Gamla húsmæðraskólanum við Þórunnarstræti og suður í Lystigarðinn þar sem verður hátíðardagskrá frá klukkan 13:00 til 13:45.

Klukkan 14:00 hefst svo fjölbreytt fjölskyldudagskrá bæði á MA-túninu og í Lystigarðinum og klukkan 17:00 verður skemmtisigling með Húna II.

Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Akureyrarbæjar.

Borgarbyggð

Í Borgarbyggð verða fánar dregnir að húni klukkan 8:00 og eru allir íbúar hvattir til að gera slíkt hið sama í tilefni dagsins. Klukkan 10:00 hefst íþróttahátíð á Skallagrímsvelli þar sem sautjánda júní hlaup verður fyrir fólk á öllum aldri. 

Klukkan 13:30 hefst skrúðgangan þar sem gengið verður frá Borganeskirkju í Skallagrímsgarð. Þar verður hátíðardagskrá frá klukkan 14:00, en klukkan 16:30 býður hestamannafélagið Borgfirðingur börnum á hestbak í Vindási.

Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Borgarbyggðar

Selfoss

Dagskráin verður fjölbreytt á Selfossi á 17. júní, en hún hefst með morgunjóga klukkan 9:00 við árbakkann fyrir neðan Hótel Selfoss ef veður leyfir. Klukkan 13:15 hefst skrúðganga frá Selfosskirkju þar sem gengið verður Kirkjuveg, Eyraveg, Austurveg, Reynivelli, Engjaveg, Sigtún og inn í Sigtúnsgarð. 

Í Sigtúnsgarði verður nóg um að vera, meðal annars skemmtigarður, andlitsmálun, vöfflukaffi, skemmti- og tónlistaratriði og bílasýning hjá Ferðaklúbbnum 4x4 Suðurlandsdeild. 

Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Sveitarfélagsins Árborgar

Hveragerði

Í Hveragerði hefst dagskrá klukkan 9:00 með Wibit þrautabraut í sundlauginni Laugaskarði sem stendur yfir allan daginn til klukkan 19:00. Klukkan 10:00 mun Hestamannafélagið Ljúfur teyma undir börnum við félagsheimili Ljúfs.

Skrúðgangan hefst svo klukkan 13:30 og gengið verður frá horninu á Heiðmörk. Í Lystigarðinum verður svo hátíðardagskrá frá klukkan 14:00 til 16:00, en þá hefjast leikir og fjör fyrir alla fjölskylduna. 

Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Hveragerðisbæjar

Múlaþing

Hátíðarhöld verða í öllum kjörnum sveitarfélagsins í tilefni dagsins, en á Egilstöðum verður fjölskyldustund í Egilsstaðakirkju, Skrúðganga frá kirkju í Tjarnargarð klukkan 11:00 þar sem skemmtidagskrá verður fram eftir degi.

Á Seyðisfirði hefst dagskráin klukkan 11:00 þegar blómsveigur er lagður á leiði Björns í Firði. Klukkan 12:30 verður sautjánda júní hlaup fyrir krakka 12 og yngri við Seyðisfjarðarkirkju, en hátíðardagskrá í garðinum við Seyðisfjarðarkirkju hefst klukkan 13:00.

Nánari upplýsingar um dagskrána og dagskrá í öðrum kjörnum má finna á vef Múlaþings

Reykjanesbær

Hátíðar- og skemmtidagskrá fer fram í skrúðgarðinum í Keflavík og hefst með hátíðarguðþjónustu í Keflavíkurkirkju klukkan 12:00.

Að athöfn lokinni verður gengið í skrúðgarðinn þar sem fjölbreytt dagskrá verður fram eftir degi.

Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Reykjanesbæjar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert