Sparar með að vera heima í fríinu

Börnum finnst gaman að leika sér heima í fríum.
Börnum finnst gaman að leika sér heima í fríum. Unsplash.com/Mi Pram

Fjögurra barna móðir ákvað að vera heima í vikulöngu skólafríi í stað þess að fara á flakk með öll börnin. Hún náði að spara 150 þúsund krónur og gefur lesendum The Sun ráð um hvað hægt er að gera með börnunum án þess að það kosti mikið.

„Ég er sjálfstætt starfandi blaðamaður og get tekið mér frí þegar það eru vetrarfrí í skólunum. Oftast fer ég eitthvað með börnin og enda á því að vera uppgefin eftir fríið,“ segir Jennifer Barton í viðtali við The Sun. Hún er 41 árs og á fjögur börn á aldrinum 6 til 13 ára.

„Þó að ég fari ekki með þau til útlanda þá er mjög dýrt að fara með þau á hina og þessa staði í London. Nú er orðið mjög dýrt að lifa og maður finnur að það þarf að taka í taumana hvað fjárhag fjölskyldunnar varðar.“

„Ég var með það innprentað í mig að hvert frí þurfti að vera eitthvað einstakt. Ég veit ekki hvernig það gerðist. Kannski félagslegur þrýstingur af samfélagsmiðlum?“

„Þetta var ekki svona þegar ég var að alast upp. Við þurftum að finna upp á hlutum að gera og það var ótrúlega gaman. Sérfræðingar segja að það sé tiltölulega nýtt af nálinni að foreldrar séu með skemmtidagskrá fyrir börnin í öllum fríum.“

„Þetta gerir það líka að verkum að börn fá ekki að upplifa það að leiðast og þau ná varla góðri slökun í eigin fríi.“

Dagur 1: 

„Við sváfum út og ég tilkynnti við morgunverðarborðið að við ætluðum að gera eins lítið og mögulegt er. Það brutust út fagnaðarlæti og það kom mér á óvart!“

„Við sóttum ýmis borðspil og nú höfðum við loks tíma til að spila saman. Ég skrapp út að hlaupa og þegar ég kom til baka þá voru börnin í óða önn við að hanna sitt eigið borðspil. Kannski er lykillinn að sleppa tökunum?“

Dagur 2: 

„Þetta var dagur sem einkenndist af útiveru. Við spiluðum saman körfubolta og fórum í almenningsgarðinn. Ég gróf upp gamla hjólaskauta og við skemmtum okkur konunglega. Stelpan mín kom upp að mér og sagðist vera svo afslöppuð og ánægð með að þurfa ekki að drífa sig eitthvert. Ég fékk sting í magann. Kannski hef ég verið að gera of mikið. Um kvöldið bjuggum við til okkar eigin pitsur frá grunni. Það tók sinn tíma en var gaman.“

Dagur 3:

„Krakkarnir voru byrjaðir að fara í taugnarnar á hvort öðru þannig að ég sendi yngri krakkana að leika við vini. Seinna um daginn ákvað elsta barnið að ryksuga á meðan ég útbjó kvöldmat og yngstu börnin léku sér í legó. Ég hafði verið með miklar áhyggjur af öllu draslinu sem fylgdi því að hafa alla heima en þar sem takturinn var mun hægari þá var ég minna stressuð yfir að þurfa alltaf að vera að taka til í flýti.“

Dagur 4: 

„Börnin mín elska að lesa þannig að við fórum á bókasafnið. Þar er líka hægt að gera margt annað en að lesa eins og til dæmis föndra eða hlusta á tónlist. Eitthvað fyrir alla. Við héldum okkur við regluna um skjátíma í eina klukkustund á dag. En þegar veðrið var vont þá fengu börnin að horfa aðeins meira á sjónvarpið.“

Dagur 5:

„Veðrið var gott þannig að við skruppum í bæjarferð. Ég gætti þess að taka með nesti því það getur verið mjög dýrt að kaupa mat fyrir svona stóra fjölskyldu.“

Niðurstaða:

„Það var mjög afslappandi fyrir mig að vera heima í fríinu. Þvotturinn var meira að segja minni því við vorum alltaf bara í náttfötum og kósýfötum. Það var enginn asi á okkur sem þýddi að ég gat varið meiri tíma í að spjalla við börnin og leika við þau. Þau fengu mikilvæga hvíld og gerðu margt skapandi saman sem styrkti systkinatengslin.“

„Allir elskuðu þetta frí og ég átta mig núna á því að ég þarf ekki alltaf að skipuleggja hverja stund fyrir börnin til þess að þeim líði vel. Þá sparaði ég að minnsta kosti 150 þúsund krónur miðað við venjuleg vetrarfrí. Það er upphæð sem skiptir máli fyrir mig þar sem ég er sjálfstætt starfandi. Ef ég er í fríi þá fæ ég ekkert útborgað.“

Hugmyndir af ódýrum en eftirminnilegum samverustundum:

 • Spila borðspil
 • Útileikir
 • Hjólaskautar
 • Baka pítsur
 • Heimsækja vini og vandamenn sem eiga gæludýr
 • Legó
 • Bókasafn
 • Föndur
 • Hlusta á tónlist
 • Dansa
 • Bæjarferð
 • Vatnsblöðrustríð
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert