Rapparinn Cardi B. sem á von á sínu þriðja barni segist hafa verið lömuð um tíma eftir „ruglað slys“ sem kostaði hana næstum barnið.
Enn er ekki vitað hvað nákvæmlega gerðist né hvernig Cardi B. heilsast.
„Ég lenti í rugluðu slysi. Ég þarf að útskýra það þannig því ég veit ekki hvernig svona getur gerst,“ segir Cardi B og játar að það sem gerðist sé ekki algengt og hún sé ennþá mjög hissa á þessu öllu saman.
Cardi B. segist hafa komið heim í vímu kvöldið fyrir slysið og hafi liðið hræðilega þegar hún vaknaði morguninn eftir. Nokkrum klukkustundum síðar var henni komið fyrir á sjúkrahúsi þar sem henni var gefið morfín.
Það er rétt vika síðan rapparinn tilkynnti að hún gengi með barn. Sama dag sótti hún um skilnað við eiginmann sinn, Offset. Þau hafa verið gift í sjö ár og eiga tvö börn saman, son og dóttur. Eiginmaðurinn fyrrverandi og barnsfaðir er faðir þriðja barnsins en Cardi B. vill ekki að hann taki þátt í uppeldi þriðja barnsins þegar það kemur í heiminn.