Bubbi Morthens hefur áhyggjur af stöðu íslenskunnar

Léleg málkunnátta ungs fólks á Íslandi hefur verið mikið í umræðunni síðustu misseri. Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens er einn þeirra sem hefur verulega áhyggjur af stöðu íslenskunnar og ákvað að gera eitthvað í málinu. 

Fyrir fáeinum mánuðum sótti hann fund með Lilju Dögg Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og bauð fram krafta sína, en Bubbi vill ólmur nálgast unglinga á jákvæðan og uppbyggilegan hátt til að fá þau til að skapa á íslensku. Ráðherra tók þessari uppástungu hans vel og fékk barnamenningarverkefnið List fyrir alla til að halda utan um útfærsluna. Nú, nokkrum mánuðum síðar, er Málæði að fara í loftið og hefur verkefnið þegar verið sent á alla grunnskóla landsins. 

Trúir á að listir geti kveikt áhuga unglinga á íslensku

Bubbi hefur þá einlægu trú á að hægt sé að fá ungt fólk til að njóta þess að vinna með tungumálið í gegnum listir. Í því skyni hefur Bubbi samið glænýtt lag sem hann skorar á unglinga að semja texta við. Textinn á að fjalla um Sumarið ‘24 en Bubbi samdi sem unglingur lagið Sumarið ‘68.

Nýja lagið hefur verið gefið út á myndbandi sem Bubbi trallar inn á en kennarar og unglingar eru hvattir til að senda inn skrifleg svör á vefsíðu verkefnisins. Fullbúið lag með nýjum texta frá unglingum landsins verður gefið út í viku íslenskunnar 11. - 16. nóvember.

Bubbi Morthens.
Bubbi Morthens. mbl.is/Eyþór

Þrjár leiðir til þátttöku

Um er að ræða tvær tónlistartengdar leiðir til þátttöku sem munu að miklu leyti fléttast inn í kennslu í grunnskólum. Sú þriðja fer fram á samfélagsmiðlum og þar munu unglingar fá ýmiss konar áskoranir, leiki og glens sem með einum eða öðrum hætti munu fjalla um íslenskt mál.

Í byrjun mánaðarins fengu grunnskólar upplýsingar um verkefnið og var lagið gert aðgengilegt á vef verkefnisins. Vonir standa til að fjöldi svara berist inn og Bubbi mun byggja nýjan texta á hugmyndum unglinganna. Unglingar um land allt eru að auki hvattir til að syngja texta sína við lagið og taka upp, gera myndbönd og leika sér með lagið.

Önnur leið til þátttöku er að senda inn lag og texta. Valnefnd sem stýrt verður af Bubba mun velja þrjú þeirra til að frekari vinnslu. Höfundar þeirra laga sem valin verða fá þekkt íslenskt tónlistarfólk í heimsókn í skólann eða félagsmiðstöðina að útsetja lögin, fínpússa textana og að endingu flytja lögin. Þau GDRN og Emmsjé Gauti eru meðal þess tónlistafólks sem tekur þátt í þessum hluta verkefnisins og munu flytja lög krakkanna.

Þriðji hluti verkefnisins fer fram á samfélagsmiðlum. Hinir efnilegu leikarar Katla Þ. Njálsdóttir og Mikael Emil Kaaber halda utan um gleðskap á samfélagsmiðlum. Þar munu þau bjóða upp á leiki, leikþætti, áskoranir, og leita að orðum yfir fyrirbæri sem unglingum finnst erfitt að orða á íslensku.

Afrakstri verkefnisins verður miðlað í sjónvarpsdagskrá undir merkjum Málæðis á RÚV í viku íslenskunnar 11. - 16. nóvember. Þá verður lag Bubba um Sumarið ’24 frumflutt með nýjum texta og líka þau lög sem samin hafa verið í samstarfi unglinga og þekkts íslensks listafólks.

Fékk að skila skólaverkefnum með gítartónleikum

Í myndbandi á vef Málæðis talar Bubbi til unglinga og segir söguna að baki því að hann byrjaði í tónlist. Bubbi átti erfiða skólagöngu. Í vanlíðan flúði hann í bækur og gítarinn sem hann segir hafa bjargað lífi sínu. Tónlistin hreinlega veitti honum tilgang.

Þegar kennari áttaði sig á að styrkleikar Bubba lágu í tónlist og bauð honum að skila skólaverkefnum með gítartónleikum en ekki skriflega styrktist sjálfsmynd hans og lífsgleðin jókst. Draumurinn um að verða tónlistarmaður rættist í kjölfarið og hann fékk að gera það sem honum þótti skemmtilegast. Bubbi hvetur ungt fólk til að elta drauma sína og ástríður, hverjar sem þær eru, og leggja þá vinnu sem þarf til að ná árangri. Þannig verði þau hamingjusöm.

Það sem drífur Bubba áfram í þessu verkefni er að honum finnst hann standa í skuld við íslenskuna. Hann þakkar íslenskunni velgengni sína og vill sýna þakklæti. Sjálfur gefur hann vinnu sína og tekjur sem skapast munu af laginu Sumarið ‘24 munu renna til verkefna sem styðja við velferð barna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert