Allt fór úr böndunum eftir sambandsslit

Dagný Ósk Bjarnadóttir keppir í fjórðu þáttaröðinni af Biggest Loser ...
Dagný Ósk Bjarnadóttir keppir í fjórðu þáttaröðinni af Biggest Loser Ísland.

„Ég ákvað að sækja um eiginlega bara í smá örvæntingu. Ég sótti eiginlega bara um vegna þess að ég var komin með nóg af því að bara geta ekki gert þetta sjálf upp á eigin spýtur. Ég var alltaf að reyna og ég var komin með leið á því að mistakast,“ segir Dagný Ósk Bjarnadóttir sem er meðal þátttakenda í Biggest Loser Ísland sem hefur göngu sína að nýju þann 21. september.

Dagný sem er 25 ára gömul starfar á leikskóla í Kópavogi og á eina dóttur, Ísabellu Björk, sem er tveggja ára. Aðspurð segir Dagný holdafar sitt hafa reynst sér erfitt í gegnum tíðina.

„Ekki nógu góð fyrir einn né neinn“

„Þetta háði mér rosalega í samskiptum við annað fólk almennt. Mér fannst ég ekki nógu góð fyrir einn né neinn því að mér fannst ég ekki líta nógu vel út og í vinnu háði þetta mér svakalega, ég gat ekki verið nógu fljót eða lipur á mér,“ útskýrir Dagný.

Ákveðinn vendipunktur varð svo í lífi hennar árið 2013 sem gerði henni enn erfiðara fyrir. „Mér hefur alltaf fundist ég í stærri kantinum. Ég kom úr mjög slæmu sambandi árið 2013, andlegu og líkamlegu, og eftir það fór allt úr böndunum. Ég var alltaf nokkurn veginn á línunni við það að vera of stór og svo bara eftir það þá fór allt úr böndunum,“ segir Dagný.

Það erfiðasta fyrir utan að eignast barn

Hún eignaðist dóttur sína þegar hún var 23 ára gömul og hefur síðan þá gert nokkrar árangurslausar tilraunir til að léttast. Hún telur þátttökuna í Biggest Loser hafa verið það skref sem loksins skilaði árangri þótt það hafi ekki verið auðvelt. Hún kveðst ekki hafa haft miklar væntingar fyrir keppnina aðrar en þær að ná tökum á rútínunni og að hún gæti tekið með sér heim það sem hún hafi lært í keppninni.

„Maður miklar þetta svo mikið fyrir sér. Það sem kom mér mest á óvart er ekki að þetta sé auðvelt heldur að það ættu allir að geta þetta og maður á alveg að geta þetta,“ segir Dagný um þátttöku sína í keppninni. „En þetta er líka það erfiðasta sem ég hef gert í lífinu fyrir utan að eignast barn. Þetta tók rosalega á andlega og líkamlega.“

Tólf keppendur í tveimur liðum

Fjórða þáttaröð Big­gest Loser Ísland fer í loftið í opinni dagskrá í Sjón­varpi Sím­ans þann 21. sept­em­ber en þáttarstjórnandi er Inga Lind Karlsdóttir. Keppendur í Biggest Loser eru tólf talsins og skiptast í tvö lið, rauða og bláa liðið, sem síðan verða leyst upp í einstaklingskeppni.

Þjálfarar eru þau Evert Víglundsson og Guðríður Torfadóttir, eða Gurrý eins og hún jafnan er kölluð. Fjórða þáttaröðin sem senn hefur göngu sína var tekin upp á Bif­röst í Borg­ar­f­irði en í nóvember kemur í ljós hvor þjálfaranna fer með sigur af hólmi.

Frétt mbl.is: Þessir keppa í Biggest Loser Ísland

mbl.is
Biggest Loser
Almar Þór Þorgeirsson Almar Þór Þorgeirsson
Aldur: 43 ára
Byrjunarþyngd: 129,9 kg
Arna Vilhjálmsdóttir Arna Vilhjálmsdóttir
Aldur: 26 ára
Byrjunarþyngd: 154,2 kg
Dagbjört Ben Guðfinnsdóttir Dagbjört Ben Guðfinnsdóttir
Aldur: 34 ára
Byrjunarþyngd: 116,9 kg
Dagný Ósk Bjarnadóttir Dagný Ósk Bjarnadóttir
Aldur: 25 ára
Byrjunarþyngd: 131,4 kg
Daria Richardsdóttir Daria Richardsdóttir
Aldur: 36 ára
Byrjunarþyngd: 117,9 kg
Eygló Jóhannesdóttir Eygló Jóhannesdóttir
Aldur: 38 ára
Byrjunarþyngd: 155 kg
Guðjón Bjarki Ólafsson Guðjón Bjarki Ólafsson
Aldur: 28 ára
Byrjunarþyngd: 153,2 kg
Helgi Már Björnsson Helgi Már Björnsson
Aldur: 20 ára
Byrjunarþyngd: 161,6 kg
Ragnar Anthony Svanbergsson Ragnar Anthony Svanbergsson
Aldur: 27 ára
Byrjunarþyngd: 183,7 kg
Svanur Áki Ben Pálsson Svanur Áki Ben Pálsson
Aldur: 19 ára
Byrjunarþyngd: 178 kg
Ólafía Kristín Norðfjörð Ólafía Kristín Norðfjörð
Aldur: 28 ára
Byrjunarþyngd: 113,7 kg