Idol-dómari hafnar kynþáttafordómum í atkvæðagreiðslu

Simon Cowell er einn af dómurum í American Idol.
Simon Cowell er einn af dómurum í American Idol. AP
Simon Cowell, dómari í bandarísku Idol söngvarakeppninni, telur að La Toya London og Diana DeGarmo muni keppa um titilinn í keppninni í ár, að því er fram kemur í frétt Reuters. Hann hafnar því að kynþáttafordómar almenning hafi ráðið úrslitum í síðasta Idol þættinum, þar sem svört söngkona var kosin út úr þættinum, eða að úrslitum atkvæðagreiðslunnar hafi verið hnikað til.

Cowell er þekktur fyrir snarpa gagnrýni á þátttakendur í keppninni og þykir eiga lykilþátt í velgengni þáttanna. Hann sagði að áfallið sem margir fengu í síðasta þætti, þegar Jennifer Hudson, sem þótti afar góð söngkona, féll úr keppni, hefði hrist ærlega upp í þættinum og ekki hefði verið vanþörf á því.

Þrátt fyrir að ýmsir hafi talið að Hudson og tvær aðrar svartar söngkonur, þær London og Fantasia Barrino séu efnilegustu poppstjörnurnar, lentu þær í þremur neðstu sætunum þegar 20 milljónir kjósenda hringdu inn í þáttinn og greiddu keppendum atkvæði sitt í síðustu viku.

Eftir að niðurstöðurnar urðu ljósar sagði söngvarinn Elton John, sem var gestadómari í einum þættinum að niðurstöðurnar bæru „ótrúlegum kynþáttafordómum“ vitni.

Cowell hafnaði þessum ásökunum Eltons og bætti við að vandlega væri farið yfir atkvæðin. „Það eru margir áhorfendur sem kvarta yfir niðurstöðunum en taka samt ekki upp símann eða senda sms-skilaboð til þess að greiða atkvæði,“ sagði Cowell.

„Við þurfum að hrista upp í þessu og ég held að þetta muni breytast. Ég hef trú á því að milli 5 og 6 milljónir áhorfenda muni hringja inn í næsta þátt og betri söngvararnir eigi nú möguleika á að sigra,“ sagði Cowell.

mbl.is