50 Cent heldur tónleika í Egilshöll

Bandaríski rapparinn 50 Cent.
Bandaríski rapparinn 50 Cent. AP
Rapphundurinn alræmdi 50 Cent mun halda tónleika hér á landi í Egilshöllinni 11. ágúst nk. ásamt félögum sínum í G-Unit. Það er OP-Iceland sem stendur að komu hans hingað til lands, en þeir hafa ekki komið að tónleikahaldi áður. Tónleikarnir í Egilshöll verða þeir fyrstu í evróputúr 50 Cent og G-Unit.

OP-Iceland hafa verið að vinna í því að fá listamenn hingað til lands síðan í janúar. Í fyrstu reyndu þeir að fá Snoop Dogg til samstarfs. Það gekk þó ekki eftir þar sem Snoop vildi einungis ferðast um með einkaþotu, en slíkur ferðamáti kostar fúlgur fjár og því varð ekkert af fyrirhugaðri tónleikaferð hans um Evrópu. OP-Iceland hafði þó tekist að útvega einkaþotu fyrir kappann til og frá Íslandi og það kunni umboðsskrifstofan að meta og hjálpaði þeim því að fá 50 Cent hingað til lands. Forsvarsmenn OP-Iceland segja að tónleikahald hér á landi sé frekar einsleitt, þar sem nánast eingöngu hafi verið boðið upp á rokkara. Því hafi þeim þótt tilvalið að fá eina skærustu stjörnu hiphop-tónlistarinnar og rappsins, 50 Cent, hingað til lands. "Hann höfðar ekki eingöngu til rappara þannig að það verður væntanlega breiður hópur ungs fólks sem mun mæta á þessa tónleika og skemmta sér vel," segja forsvarsmenn OP-Iceland. 50 Cent er væntanlegur til landsins tveim dögum fyrir tónleikana ásamt 25 manna fylgdarliði.

Fyrsta plata 50 Cent, bófarappsplatan Get Rich or Die Trying, hlaut hvarvetna góða dóma og fyrstu vikuna eftir að hún kom út seldust ríflega 872.000 eintök og vikuna á eftir 822.000 - 1,7 milljónir eintaka á tveimur vikum er met sem seint verður slegið. Þá hefur plata hans sópað að sér verðlaunum á öllum helstu tónlistarhátíðum heims eins og MTV-hátíðinni og Grammy-verðlaunahátíðinni. Vinsældir hans eru miklar hér á landi en lög hans "In da club" og "P.I.M.P" hafa hljómað á helstu útvarpsstöðvum landsins auk þess sem myndbönd hans hafa vakið mikið umtal.

Nánari upplýsingar varðandi tónleikana koma síðar.