McCartney segist hafa reykt heróín

Paul McCartney á tónleikum í Portúgal um helgina.
Paul McCartney á tónleikum í Portúgal um helgina. AP

Bítillinn fyrrverandi, Paul McCartney, hefur viðurkennt að hafa reykt heróín þegar frægð Bítlanna var sem mest. Segist hann í tímaritsviðtali vera heppinn að hafa ekki ánetjast þessu eiturlyfi. McCartney notaði kókaín og hass á tímabili og segir að stöðug rifrildi Bítlanna á síðari hluta sjöunda áratugarins megi m.a. rekja til fíkniefnanotkunar þeirra. McCartney, sem er 61 árs, er nú á tónleikaferð um Evrópu.

„Ég prófaði heróín einu sinni. Ég vissi raunar ekki þá hvað þetta var; mér var aðeins rétt eitthvað og ég reykti það, en komst að því síðar hvað þetta var," segir McCartney í samtali við breska tímaritið UnCut. „Ég fékk ekkert út úr þessu sem var heppilegt því ég hefði ekki viljað lenda á þeirri braut," bætir hann við.

Hann segir að Bítlarnir hafi notað ólögleg fíkniefni. „Ég notaði kókaín og kannski smá „gras" til að jafna áhrifin. Ég var aldrei sérlega hrifinn af kókaíni, sérstaklega vegna fráhvarfseinkennanna. Þetta voru 10 ár í helvíti. Það sem gerðist í kjölfarið var að allir skiptust í hópa."

Í viðtalinu viðurkennir McCartney að fíkniefni hafi haft áhrif á tónlist Bítlanna. Hann sagði að lagið Got To Get You Into My Life hefði verið um maríjúana og Day Tripper hefði verið um LSD. Þá sé frekar augljóst, að lagið Lucy in the Sky with Diamonds hafi verið samið undir áhrifum LSD og ýmsar tilvísanir hafi verið til fíkniefna í fleiri lögum. Hins vegar megi ekki ofmeta þessi áhrif. Allir popptónlistarmenn hefðu notað fíkniefni á þessum tíma og í hugum Bítlanna hafi lagasmíðarnar verið mun mikilvægari en fíkniefnin.

McCartney segir, að Bítlarnir hafi byrjað að fikta við fíkniefni snemma á ferlinum, raunar þegar á Hamborgarárunum þar sem hafi verið mikið pilluflóð. Hann segir að þeir John Lennon hafi raunar fiktað við annað ávandabindandi efni á unglingsárunum - te.

„Við settum smá Twining te í pípu, reyktum það og sömdum lög."

Fíkniefnaneysla McCartneys komst í heimsfréttirnar árið 1980 þegar hann var kom til Tókýó með hljómsveit sinni Wings. Þá fundu tollverðir 225 grömm af maríjúna í farangri hans og McCartney sat í kjölfarið í fangelsi í 10 daga en var síðan vísað úr landi.

Sir Paul segir í viðtalinu að þetta hafi verið það mesta skyssa sem honum hafi orðið á í lífinu.

„Ég var í New York og átti þetta fína „gras"," segir hann. „Við vorum að fara til Japans og ég vissi að ég fengi ekkert að reykja þar. Þetta var allt of gott efni til að sturta því niður svo ég ákvað að taka það með mér." Hann segist hafa stytt sér stundirnar í fangavistinni með því að fá aðra fanga til að syngja með sér.

Í viðtalinu segir McCartney að hann reyki ekki maríjúana lengur. „Ég er eiginlega vaxinn upp úr því," segir hann. Hins vegar hafi hann orðið upp með sér nýlega þegar táningar í Los Angeles buðu honum reyk með þeim. „Mér fannst það hrós, að hópur krakka skuli halda að ég vilji reykja smávegis með þeim," segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Eitt og annað hefur rekið á fjörur þínar, sem fær þig til að efast um þá þú hefur treyst hingað til. Yfirboðarar þínir munu koma þér á óvart næstu vikur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Eitt og annað hefur rekið á fjörur þínar, sem fær þig til að efast um þá þú hefur treyst hingað til. Yfirboðarar þínir munu koma þér á óvart næstu vikur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant