Bob Dylan í fyrsta sjónvarpsviðtalinu í 19 ár: „Ég er enginn spámaður“

Bob Dylan
Bob Dylan ap
"Þetta voru lög, ekki predikanir," sagði Bob Dylan um tónlist sína í fyrsta sjónvarpsviðtalinu sínu í 19 ár, sem hann veitti fréttaskýringaþættinum 60 mínútum á CBS-stöðinni í Bandaríkjunum.

Í viðtalinu, sem Ed Bradley tók við hann, lagði Dylan ríka áherslu á að honum þætti lög sín ekki nándar nærri eins merkingarfull og aðdáendur hans hafa haldið fram.

"Ef þú skoðar lögin ofan í kjölinn þá efast ég um að þú finnir nokkuð sem gefur til kynna að ég sé talsmaður fyrir einhvern eða eitthvað."

Hið 63 ára gamla söngvaskáld sagði í viðtalinu að honum þætti óþægilegt að vera settur á stall sem helgimynd eða goðsögn.

"Ég vildi aldrei verða neinn spámaður eða bjargvættur. Kannski Elvis. Ég gat vel hugsað mér að verða hann. En spámaður? Nei."

Hann bætti við: "Þetta var eins og vera staddur í miðri sögu eftir Edgar Allan Poe og maður er bara einhver allt önnur persóna en allir halda og ákalla stöðugt."

Dylan gaf lítið fyrir að lag hans "Like A Rolling Stone" frá 1965 skuli á dögunum hafa verið valið mesta rokklag allra tíma af tímaritinu Rolling Stone.

"Kannski í dag, já. En veistu, með svona lista, þeir taka stöðugum breytingum, í alvöru. Því er ég ekki að lyfta mér mikið upp við þetta," sagði hann í viðtalinu sem verður sjónvarpað á morgun, sunnudag.

Tilefni þessa tímamótaviðtals er að um þessar mundir kemur út fyrsta bindi endurminninga Dylans - Chronicles, Vol. 1.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »