Ólafur Ingi var ekki með slitið krossband

*ÓLAFUR Ingi Stígsson miðjumaðurinn snjalli í liði Fylkis reyndist ekki vera með slitið krossband í hné eins og menn höfðu áhyggjur af. Við skoðun í gær kom í ljós að liðþófi er rifinn og gengst Ólafur undir aðgerð á þriðjudag. Hann ætti því að verða klár í slaginn með Árbæjarliðinu þegar flautað verður til leiks á Íslandsmótinu um miðjan maí.

*GRÉTAR Rafn Steinsson sat á varamannabekk AZ Alkmaar allan tímann í gær þegar liðið gerði markalaust jafntefli við Twente í hollensku úrvalsdeildinni. Arnar Þór Viðarsson fékk heldur ekki að spreyta sig en hann sat á bekknum hjá Twente.

*ESPANYOL varð í gær spænskur bikarmeistari í knattspyrnu í fjórða sinn þegar liðið lagði Real Zaragoza, 4:1, í úrslitaleik í Madrid.

*GUÐJÓN Þorsteinsson hefur ekki boðið sig fram til formanns KKÍ eins og fram kom hjá okkur í gær. Guðjón sagði frá því á spjallvef að hann biði sig fram sem formaður, en segir á sama stað í gær að þar hafi hann átt við formennsku í einhverri nefnd sambandsins. Guðjón segist styðja Hannes Jónsson sem frambjóðanda til formanns KKÍ.

*SIGURÐUR Þorvaldsson körfuknattleiksmaður hjá WoonAris í Hollandi gerði 21 stig þegar liðið vann sinn fimmta sigur í deildinni, að þessu sinni á útivelli gegn Nijmegen, 87:85. Hlynur Bæringsson gerði 13 stig í leiknum og tók auk þess 16 fráköst.

*RENATO Vugrinic, landsliðsmaður Slóveníu í handknattleik og leikmaður Magdeburg, hefur skrifað undir þriggja ára samning við spænska félagið Portland San Antonio. Gengur hann til liðs við félagið í sumar eftir tveggja ára veru hjá Magdeburg þar sem hann hefur ekki staðið undir væntingum.

*MICHAEL Becker, umboðsmaður þýska knattspyrnumannsins Michaels Ballacks, staðfesti í dag að viðræður þeirra við ensku meistarana Chelsea væru langt komnar. Hann vísaði jafnframt á bug ummælum forráðamanna Bayern München Ballack léti alfarið stjórnast af fégræðgi.

*SHAQUILLE O'Neal, miðherji Miami Heat í NBA-deildinni, náði þrefaldri tvennu í annað sinn á sínum ferli í leik gegn Toronto Raptors aðfaranótt miðvikudags. Þar skoraði hann 15 stig, tók 11 fráköst og gaf 10 stoðsendingar en Heat vann leikinn. O'Neal var leikmaður Orlando Magic er hann náði þrefaldri tvennu í fyrsta sinn, en það var árið 1993 í leik gegn New Jersey Nets. Þar skoraði hann 24 stig, tók 28 fráköst og varði 15 skot.