Endir bundinn á ástarsambönd með aðstoð „Tortímandans“

Þýskur kaupsýslumaður hefur komið á fót „umboðsskrifstofu fyrir aðskilnað“ en það er þjónusta sem miðar að því að upplýsa grunlausa einstaklinga um að maki þeirra eða elskhugi vilji ekkert með þá hafa lengur.

Bernd Dressler mun sjálfur taka að sér að vera boðberi hinna válegu tíðinda fyrir þá sem eru of hræddir við að gera það sjálfir. Hann rukkar 20 evrur (tæpar 1.800 kr.) sé það gert í gegnum síma en 50 evrur (tæpar 4.500 kr.) sé það gert í eigin persónu.

Dressler hefur hlotið viðurnefnið Tortímandinn sökum þess hve aðferðir hans eru skilvirkar og afdráttalausar.

Kaupsýslumaðurinn, sem er 52 ára gamall, líkir fyrirtæki sínu við stefnumótaskrifstofu sem hefur verið snúið á haus.

„Það hafa verið til stefnumótaskrifstofur í 30 ár. Ef þú vilt komast í nýtt samband þá verður þú að binda enda á það fyrir er,“ segir Dressler.

„Ég held að þetta sé í raun sami markaður - bara snúið á haus,“ sagði hann í viðtali við BBC.

Hægt er að koma skilaboðunum áleiðis með samúðarfullum hætti eða með beinum hætti. Dressler segir að flestir viðskiptavina sinna vilji ekki eiga í frekari samskiptum við fyrrverandi elskhuga sína.

Viðskiptavinirnir eru beðnir um að gefa upp þrjár ástæður fyrir því af hverju þeir vilji binda enda á sambandið. Skilaboðunum er síðan komið áleiðis til viðkomandi aðila með hjálp Dresslers.

mbl.is