Myndband sem sýnir rottur hlaupa um á KFC-Taco Bell veitingastað í Greenwich Village í New York fer eins og eldur í sinu á vefnum í dag. Á myndbandinu, sem tekið er í gegnum glugga á veitingastaðnum sjást rotturnar hlaupa um staðinn en hann var lokaður þegar þær brugðu á leik.
Sjást rotturnar sem eru um tíu talsins hlaupa um gólfið, á borðum og afgreiðsluborði auk barnastóla á staðnum.
Fjöldi sjónvarpsstöðva mættu á svæðið þegar fréttist af rottunum og reyndu að mynda dýrin að leik. Eitthvað virtust rotturnar verða undrandi á allri athyglinni og sést ein rottan kíkja út um gluggann til að kanna hvað væri á seyði.
Rottugangur hefur löngum verið vandamál í New York borg enda næga fæðu að fá í borginni. Sjást þær oft á göngu í neðanjarðarlestakerfi borgarinnar sem og við ruslafötur í almenningsgörðum. Hins vegar er ekki algengt að sjá jafn margar rottur samankomnar á veitingastað í borginni í einu.
Eigendur KFC-Taco Bell, Yum Brands, sem er með höfuðstöðvar í Louisville, Kentucky, hafa ekki svarað símtölum AP-frétastofunnar í dag.
Í síðustu viku var greint frá því að sala Yum-keðjunnar hafi dregist saman eftir að mörg E. coli tilfelli komu upp á stöðum í eigu keðjunnar í Bandaríkjunum. Hins vegar gekk salan vel hjá keðjunni erlendis.
Alls veiktust um sjötíu manns af E. coli bakteríunni á síðari hluta ársins 2006 eftir að hafa borðað á veitingastöðum Taco Bell í Bandaríkjunum. Líklegast þykir að saurgerlarnir hafi verið í salati á staðnum.