Týnd í þrjú ár til viðbótar

Leikararnir Terry O'Quinn og Daniel Dae Kim voru kátir þegar ...
Leikararnir Terry O'Quinn og Daniel Dae Kim voru kátir þegar þriðja þáttaröðin um strandaglópanna í Lost var frumsýnd við hátíðlega athöfn á Havaí í september sl. Reuters
Bandaríska sjónvarpsstöðin ABC hefur nú greint frá því hvenær þáttaröðinni um strandaglópanna í Lost muni ljúka. Fyrirhugað er að framleiða þrjár þáttaraðir til viðbótar, alls 48 þætti, og verða 16 þættir í hverri þáttaröð. Síðasti þátturinn verður því sýndur árið 2010.

Aðalframleiðendur þáttanna, þeir Damon Lindelof og Carlton Cuse, sem hafa samþykkt að halda áfram að framleiða þættina um strandaglópana, en þeir hafa viljað negla niður endapunkt í þó nokkurn tíma. Samningar þeirra við ABC-sjónvarpsstöðina hljóða upp á tugi milljóna dala.

„Vegna einstæðrar náttúru Lost þá vissum við að það væri nauðsynlegt að festa endapunkt til að viðhalda heiðarleika og styrk þáttanna og veita áhorfendum það lokauppgjör sem þeir eiga skilið,“ sagði forseti afþreyingardeildar ABC, Stephen McPherson.

Lindelof segir það vera „ótrúlega frelsandi“ að hafa endapunkt í sjónmáli. Það er eins og við höfum verið að hlaupa maraþonhlaup og nú er eins og við sjáum endalínuna í fyrsta sinn.“

Lindelof og Cuse segja að þeir hafi haft að leiðarljósi í þó nokkurn tíma„vegvísi fyrir alla þættina þar sem öll meiriháttar goðsagnanleg þáttaskil koma fram og endirinn liggur fyrir.“

„Það sem við vissum hinsvegar ekki var hversu lengi við þyrftum að segja söguna,“ sagði Cuse. „Með því að slá niður endapunkt þá getum við fyrir alvöru skipulagt restina af þáttunum og af öryggi.“

Þættirnir hafa notið mikilla vinsælda og m.a. hlotið Emmy-verðlaun.

mbl.is

Bloggað um fréttina