Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is
Skoppa og Skrítla eru á leið til Tógó í Afríku. Íslenskir krakkar þekkja hnáturnar vel, en krakkarnir í Tógó hafa auðvitað aldrei séð þær, og hafa jafnvel ekki séð leikhús, en þaðan eru þær sprottnar.
Að baki Skoppu og Skrítlu standa leikkonurnar Hrefna Hallgrímsdóttir og Linda Ásgeirsdóttir. Í mars fóru þær í leikferð til Bandaríkjanna með sýningu sína úr Þjóðleikhúsinu og léku á ensku. Að sögn þeirra gekk leikferðin framar öllum vonum. En hvernig kviknaði hugmynd að leikferð til Afríku, þar sem Íslendingar hafa ekki leikið áður, að við best vitum? Hrefna hefur orðið:
Eins og sannir Íslendingar
"Vinkona okkar er ritari SPES-samtakanna, sem vinna að stuðningi við börn í Tógó með starfrækslu barnaþorps fyrir munaðarlaus börn. Við kynntumst starfseminni gegnum hana og heilluðumst af því starfi sem þar er unnið. Við fórum á flug þegar við fórum að velta því fyrir okkur hve gaman það yrði að kynna leikhúsið fyrir börnum í Afríku, en spáðum ekkert frekar í það. En svo stunda ég Qi gong-leikfimi hjá Gunnari Eyjólfssyni með Nirði P. Njarðvík, sem er stofnandi SPES-samtakanna, og einhverju sinni áttum við spjall um hve gaman það yrði ef við kæmum nú bara með leiksýninguna til Tógó. Njörður sagði að það yrði sannarlega gaman. Og eins og dæmigerðir Íslendingar ákváðum við að láta af þessu verða."
Þúfan og hlassið þunga
En þar með var ekki öll sagan sögð og Linda segir að hugmyndin hafi þótt svo spennandi að fljótlega hafi farið að hlaðast utan á hana. "Það urðu margir heitir, og við ákváðum að safna saman fólkinu sem stendur að sýningunni með okkur. Leikmyndar- og búningahönnuðurinn okkar, Katrín Þorvaldsdóttir, er brúðugerðarmeistari, og hún greip það á lofti að miðla sinni þekkingu til barnanna í Tógó. Hún verður með námskeið þar og kennir börnunum að nýta það sem næst þeim er í eigin umhverfi til að búa til grímur og fleira. Við fengum einnig leikskólakennara í lið með okkur til að miðla sinni þekkingu til starfsfólks barnaþorpsins, en það eru um 30 manns. Þá kemur annar leynileikarinn í sýningunni okkar, önnur tveggja stúlkna sem eru í kassa alla sýninguna og láta galdrana gerast. Hún er ballerína og ætlar að dansa fyrir börnin í Tógó og kenna þeim dansa og hreyfileiki. Pabbi hennar vildi koma með; hann er læknir."
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.