Kryddpía berst við aukakílóin

Kryddpíurnar: Victoria Beckham, Melanie Chisholm, Gerri Halliwell, Emma Bunton og ...
Kryddpíurnar: Victoria Beckham, Melanie Chisholm, Gerri Halliwell, Emma Bunton og Melanie Brown Reuters
Kryddpíunni Emmu Bunton gengur illa að losna við aukakílóin sem hún bætti á sig á meðgöngu. Bunton eignaðist soninn Beau í ágúst og hefur síðan háð harða baráttu við það sem hún bætti á sig á meðgöngunni.

Kryddpíurnar, Emma, Victoria Beckham, Mel B, Geri Halliwell og Mel C ætla að sitja fyrir á myndatöku fyrir undirfataframleiðandann Victoria's Secret þegar þær fara í hljómleikaferðina um heiminn síðar á þessu ári.

Heimildir breska tímaritsins Closer herma að Bunton sé miður sín yfir aukakílóunum en eðlilega hefur hún ekki náð fyrri vexti enda fáir mánuðir síðan hún eignaðist barn. En það er víst ekki þannig að Bunton telji sig feita heldur er málið að hinar Kryddpíurnar eru svo horaðar og hún ber sig saman við þær. Bunton notar fatnað í bresku stærðinni 10 en til að mynda er Victoria í stærð 00.

Til þess að reyna að nálgast stallsystur sínar í fatastærð er Bunton komin á kolvetnakúr og vonast til þess að hann skili árangri áður en fyrstu tónleikarnir verða haldnir þann 2. desember í Vancouver í Kanada.

mbl.is

Bloggað um fréttina