Öll Evrópa fyrir þrítugt

Ian Bearder í Svartfjallalandi.
Ian Bearder í Svartfjallalandi.

Síðastliðin fimm ár hefur Bretinn Ian Bearder kappkostað við að vinna veðmál sem hann gerði við vin sinn um að  hann myndi ná að heimsækja öll lönd Evrópu fyrir þrítugsafmælið sitt. Þetta tókst. Í næstu viku verður Ian þrítugur og ætlar að halda upp á afmælið á Íslandi um helgina og ljúka Evrópuferðinni.

Á fimm árum hefur Ian ferðast til 46 landa í Evrópu og endar ævintýrið á Íslandi. „Þetta byrjaði árið 2003 á veðmáli sem ég gerði við vin minn uppá 20 pund.  Ég nefndi við vin minn að ég gæti örugglega ferðast til allra landa Evrópu áður en ég yrði þrítugur en hann trúði mér ekki og skoraði á mig."

Aðspurður um hvers vegna hann endi ævintýrið á  Íslandi segir Ian Ísland vera fullkominn stað til þess að halda upp á þrítugsafmælið sitt og hann hafi heyrt skemmtilegar sögur af næturlífi Reykjavíkur.

„Ég hef bara verið hér í tvo daga en það er á hreinu að Ísland er á lista yfir fimm bestu löndin í Evrópu.  Í morgun fórum við í sund og það var frábært.  Það var mjög sérstakt að standa úti í sundskýlu í 10 stiga frosti." 

Ian segist hafa valið að ferðast um Evrópu vegna þess að álfan er stór og fjölbreytt og bíður uppá meira en margir halda.   „Flestir staðirnir sem ég ferðaðist til höfðu uppá eitthvað sérstakt að bjóða en annars finnst mér skemmtilegast að ferðast til staða, sem eru ekki vinsælastir.  Þá verður maður oftast fyrir sérstakri upplifun og skemmtir sér best," sagði Ian.

„Slóvenía var uppáhaldsstaðurinn minn" segir Ian aðspurður um hvaða staður hafði mest áhrif á hann.  „Þar bjó ég m.a í sjö mánuði.  Í Slóveníu blandast allt það góða sem Evrópa hefur upp á að bjóða.  Þar eru Alparnir, strendur Adríahafs, og maturinn undir ítölskum áhrifum."

Ian kom hingað til lands með 12 vinum sínum og ætlar að dvelja hér í nokkra daga og halda uppá afmælið sitt og að hann vann veðmálið.

Frá Kiev í Úkraínu.
Frá Kiev í Úkraínu. Ian Bearder
Ian í Istanbúl.
Ian í Istanbúl.
mbl.is