Hefð fyrir berum brjóstum í Hveró?

„Ég held að það hafi ekki verið eðlilegur hlutur að vera berbrjósta í sundi á þessum tíma,“ segir Þorgerður Einarsdóttir, umsjónarkennari í kynjafræði.

Í kjölfar fréttar 24 stunda í gær sendi lesandi blaðinu mynd frá árunum 1940-50 þar sem kona sést ber að ofan í sundlauginni í Laugarskarði – sömu sundlaug og fjallað var um á þessari síðu gær. Þá var sænskri stúlku vísað úr lauginni eftir að hún neitaði að hylja barm sinn.

24 stundir höfðu samband við kynjafræðinga, mannfræðinga og sagnfræðinga í gær og voru flestir sammála um að Íslendingar séu ekki meiri teprur í dag en árið 1940. Nokkrir nefndu að þróun í baðfatnaði hafi í gegnum tíðina verið á þá leið að hann hefur orðið efnisminni. Einn mundi þó eftir erlendri konu sem synti berbrjósta í sundlaug í Reykjavík fyrir 30 árum. Henni var ekki vísað frá, eins og þeirri sænsku í Hveragerði um helgina.

Fólk virðist gera greinarmun á hvort konur liggi berbrjósta í sólbaði við sundlaugar eða séu ofan í lauginni. Það veltir upp spurningunni hvort ber kvenmannsbrjóst megi ekki vera á hreyfingu án þess að særa blygðunarkennd.

Í hnotskurn
Sænsku baráttukonunni Kristinu Karlsson var vísað úr sundlauginni í Hveragerði um helgina fyrir að vera berbrjósta. Hún hefur barist fyrir jafnrétti í baðfatavali karla og kvenna í Svíþjóð.
mbl.is

Bloggað um fréttina