Segir Páfagarð hafa beitt sér á bak við tjöldin

Ron Howard við tökur á Englum og djöflum í Róm.
Ron Howard við tökur á Englum og djöflum í Róm. Reuters

Bandaríski leikstjórinn Ron Howard segir að Páfagarður í Róm hafi reynt að koma í veg fyrir tökur á nýjustu kvikmynd sinni Englar og djöflar, sem byggir á skáldsögu eftir Dan Brown. Tom Hanks leikur aðalhlutverkið í myndinni.

Myndin fylgir í kjölfar Da Vinci lykilsins en Hanks leikur táknfræðinginn Robert Langdon í myndunum, sem eru byggðar á samnefndum bókum. Þær hafa notið gríðarlegra vinsælda, þá sérstaklega Da Vinci lykillinn. 

Howard segir að Páfagarður hafi beitt sér á bak við tjöldin og reynt að koma í veg fyrir að tökur við ákveðnar kirkjur í borginni.

Talsmaður Páfagarðs vísar þessum ásökunum á bug. Hann segir að þetta sé ekkert nema fjölmiðlabrella.

Howard sagði á blaðamannafundi að opinberlega væri sagt að Páfagarður hefði engin afskipti af kvikmyndatökum í borginni.

„Allt gekk mjög vel fyrir sig, en nokkrum dögum áður en við áttum að hefja tökur á nokkrum stöðum þá fengum við að vita það með óformlegum hætti að Páfagarður hafi beitt sér á bak við tjöldin o.s.frv.,“ sagði Howard.

Biskupsdæmið í Róm staðfesti sl. sumar að það hefði bannað framleiðendum myndarinnar að taka upp atriði inni í tveimur kirkjum vegna þess að kvikmyndin væri andstæð skoðunum kirkjunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina