Ætlar að spila í 27 tíma

Gonzales.
Gonzales.

Kanadíski píanóleikarinn Gonzales situr nú við píanó í París og ætlar að slá heimsmetið í samfelldum píanóleik. Til þess þarf hann að sitja við hljóðfærið í 27 klukkustundir.

Gonzales hóf leik á miðnætti í litlu leikhúsi í Montmartre og ætlar að sitja við þar til klukkan 1 í nótt að íslenskum tíma. 

„Honum gengur ótrúlega vel," sagði Frank Chambers, fulltrúi Heimsmetabókar Guinness, sem fylgist með heimsmetstilrauninni. „Þetta er ekki aðeins þolraun heldur listviðburður."

Nokkur þreytumerki voru þó á Gonzales í dag eftir 12 tíma setu við píanóið. Tónlistarmaðurinn er klæddur í bláröndótt náttföt og hann drakk kaffi og ávaxtasafa og nartaði í súkkulaðikex. Hann þóttist dotta eftir að hafa leikið Óðinn til gleðinnar eftir Beethoven en þegar áhorfendur stóðu upp og hvöttu hann áfram skipti hann yfir í Eye of the Tiger. 

Gonzales ætlar að leika 300 verk á tónleikunum, allt frá Summertime eftir Gershwin til Hit Me Baby One More Time sem Britney Spears gerði frægt.

Samkvæmt reglum Guinness fær Gonzales að taka sér 15 mínútna hvíld á þriggja stunda fresti. Gangi allt að óskum slær hann met Indverjans Prasanna Gudi sem lék samfellt í 26 stundir og 12 mínútur í desember sl. 

Gonzales heitir réttu nafni Jason Beck. Hann fæddist í Montreal en býr í París og hefur gefið út sex plötur.  

mbl.is

Bloggað um fréttina